133. löggjafarþing — 77. fundur,  22. feb. 2007.

Evrópuráðsþingið 2006.

551. mál
[15:28]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ítarlega framsöguræðu um starfsemi Evrópuráðsþingsins og störf okkar þar og jafnframt fyrir góða og styrka forustu hópsins á síðasta ári. Eins og fram kom í ræðu hans erum við bara þrjú sem erum aðalmenn í sendinefnd þingsins á Evrópuráðsþingum. Við skiptum með okkur verkum og þar verðum við að takast á við nokkuð margar nefndir. Ég hef verið í jafnréttisnefnd, félags- og heilbrigðisnefnd og flóttamannanefnd. Vegna þess fjármagns sem veitt er í þennan þátt í erlendu samstarfi hjá þinginu höfum við ekki tök á því að sækja alla þá nefndafundi sem við þyrftum sem er auðvitað slæmt en við höfum hins vegar valið okkur þá málaflokka sem við leggjum mesta áherslu á. Þar hef ég lagt meiri áherslu á jafnréttismálin og félags- og heilbrigðismálin en að starfa með nefndinni um málefni flóttamanna. Ég verð þó að segja að störf þessara þriggja nefnda tengjast mjög og fjalla oft og tíðum um nánast sömu málin.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég sagði þegar skýrslan var flutt hér á síðasta ári, að á Alþingi mætti leggja meiri áherslu á störfin innan Evrópuráðsins og að í raun þyrfti að endurskoða þessa starfsemi þingsins, þ.e. alþjóðleg samskipti, og það vægi sem hefur verið í þeim störfum. Það er auðvitað ekki réttlátt að koma inn á það hér þegar lokið er umræðu um starfsemi Norðurlandaráðs og samstarf okkar við Norðurlöndin en ég er þeirrar skoðunar að það mætti að ósekju draga aðeins úr vægi Norðurlandaráðs en auka vægi í annarri starfsemi, eða jafna frekar ef ég má orða það svo. Er ég þó ekki að kasta rýrð á þetta norræna samstarf sem er auðvitað mjög mikilvægt, en í breyttu samfélagi þjóðanna eru orðnir fleiri þættir, og aðrir, sem þyrfti að leggja meiri áherslu á í starfsemi þingsins og í alþjóðlegum samskiptum. Við þurfum alltaf að vera tilbúin til að takast á við þær breytingar. Það er ekkert sem segir að þó að vægið hafi verið mest á Norðurlandasamstarfi á árum áður eigi það að vera svo um aldur og ævi í störfum þingsins. Ég tel mjög mikilvægt að menn íhugi það að fara í endurskoðun á starfinu og skoða vægi hverrar nefndar því að vafalaust er einhvers staðar líka hægt að draga úr.

Mig langaði, virðulegi forseti, til að gera aðeins grein fyrir starfi jafnréttisnefndar Evrópuráðsþingsins sem ég hef starfað í. Eins og fram hefur komið höfum við ekki færi á að taka fullan þátt í öllu nefndastarfinu, en í nefndunum er mjög gott samstarf meðal þingmanna hvaðan sem þeir koma. Ég hef verið svo heppin í mínum störfum í jafnréttisnefndinni að á þeim fundum sem ég hef ekki getað setið hefur einn fulltrúi finnska þingsins tekið niður punkta og sent okkur sem höfum færri fulltrúa og minna fjármagn úr að spila en þau.

Jafnréttisnefndin er yngsta nefnd Evrópuþingsins. Hún var stofnuð 1998. Ég hef verið þar nánast frá byrjun, þó með hléum. Nefndin hefur fjallað um jafnréttismál í víðum skilningi og berst fyrir aukinni þátttöku kvenna á öllum sviðum samfélagsins. Á síðustu tveimur árum hefur nefndin beitt sér af krafti í málefnum sem lúta að þeim ógeðfelldasta vanda sem jafnréttisbaráttan hefur tekist á við, þ.e. mansali, vændi og ofbeldi gegn konum. Nú er svo komið að tveimur stórum herferðum hefur verið ýtt úr vör hjá Evrópuráðinu gegn þessum vandamálum. Annars vegar hafa þingmenn Evrópuráðsins hafið herferð gegn mansali sem beinist einkum að því að þrýsta á ríkisstjórnina til að undirrita og fullgilda samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. Hins vegar hafa þingmenn ráðsins hrundið af stað herferð gegn heimilisofbeldi gegn konum. Í haust lagði ég ásamt hópi hv. þingmanna úr Samfylkingunni fram tillögu til þingsályktunar um að fela ríkisstjórninni að fullgilda samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. Tillagan kom loks til umræðu í fyrradag þó að hún hafi legið hér síðan í október. Mig langar til að fara örfáum orðum um herferðina gegn mansali sem um getur í tillögunni og ástæður þess að samningurinn var gerður innan Evrópuráðsins.

Mansal er gríðarlegt vandamál í Evrópu, og árlega eru hundruð þúsunda manna, aðallega ungar konur og börn, seld mansali og neydd út í kynlífsþrælkun, vændi eða aðra nauðungarvinnu. Þekktasta birtingarmynd þessa vanda er innflutningur á ungum stúlkum frá Austur-Evrópu til ríkari landa vestar í álfunni. Oftar en ekki eru þessar stúlkur lokkaðar frá heimalöndum sínum með loforðum um starf og betra líf en eru svo hnepptar í kynlífsánauð og þvingaðar út í vændi. Fyrir örfáum árum heimsótti ég með jafnréttisnefnd flóttamannabúðir í Bari þar sem eingöngu voru stúlkur sem höfðu verið seldar mansali. Kaþólska kirkjan rekur flóttamannabúðirnar og hafði tekist að bjarga nokkrum stúlknanna úr slíkri ánauð með því að lögreglan réðist inn á staði þar sem vitað var að fram fór vændi og kynlífsþrælkun. Í kjölfar þess tók kaþólska kirkjan við þessum ungu stúlkum. Þær voru á aldrinum 14 til 16 ára. Ég held að ég gleymi því seint á ævinni að fá tækifæri til að ræða við þær og sjá með eigin augum hvílík morð eru í raun og veru framin á þessum ungu börnum.

Baráttan gegn mansali er nú háð af auknum þunga á alþjóðavettvangi og hér er um að ræða einhverja verstu skuggahlið hnattvæðingarinnar og opinna landamæra sem ógnar mannréttindum og öðrum grunngildum lýðræðislegra samfélaga. Til þess að baráttan skili árangri þarf að leggja áherslu á verndun mannréttinda fórnarlamba, sækja skipuleggjendur til saka og jafnframt samþætta löggjöf um mansal. Samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali var samþykktur og lagður fram til undirritunar á þriðja leiðtogafundi ráðsins í Varsjá 16. maí 2005. Bakgrunnur hans er sá að ráðið taldi nauðsynlegt að gera bindandi samning sem tæki einkum til verndunar fórnarlamba mansals og tryggði mannréttindi þeirra, jafnframt því sem gerendur yrðu saksóttir. Í samanburði við Palermo-bókunina og aðra alþjóðlega alþjóðasamninga til höfuðs mansali gengur sáttmáli Evrópuráðsins skrefi lengra í ákvæðinu um vernd fórnarlamba.

Tekið er fram að samningnum er ekki ætlað að keppa við að leysa af hólmi fyrri alþjóðlega samninga á þessu sviði, heldur auka og þróa þá verndun sem þeir veita fórnarlömbum mansals. Vægi og nýbreytni samninga Evrópuráðsins felast í fyrsta lagi í staðfestingu þess að mansal er brot á mannréttindum og ógn við mannlega reisn og því að fórnarlömb mansals þurfa aukna lagalega vernd. Í öðru lagi nær samningurinn til hvers konar mansals, hvort sem það er innan lands eða milli landa og hvort sem það tengist skipulagðri glæpastarfsemi eða ekki, og tekur til hvers konar misnotkunar, svo sem kynlífsþrælkunar og nauðungarvinnu. Í þriðja lagi er með samningnum komið á fót eftirlitskerfi til að tryggja að aðilar sáttmálans framfylgi ákvæðum hans á skilvirkari hátt. Í fjórða lagi er í samningnum lögð áhersla á að jafnrétti kynja sé ætíð í forgrunni. Að öðru leyti vísa ég til greinargerðar með þingsályktunartillögu á þskj. 80 þar sem gefið er yfirlit yfir samninginn.

Samningur Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali var samþykktur, eins og áður hefur komið fram, 16. maí 2005. Ísland var í hópi þeirra ríkja sem undirrituðu sáttmálann þann dag en samningurinn öðlast gildi þegar 10 ríki hafa fullgilt hann. Það hafa aðeins þrjú ríki gert enn þann dag í dag, Moldóva, Austurríki og Rúmenía. Við leggjum auðvitað mikla áherslu á að Ísland taki sig til og fullgildi samninginn. Það væri mjög mikilsvert að það gerðist fyrir þinglok núna þótt tíminn sé stuttur.

Hin herferð Evrópuráðsins sem ég nefndi beinist gegn heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi gegn konum er skilgreint sem kynbundið ofbeldi þar sem konur verða fyrir líkamlegum, kynferðislegum og andlegum skaða af völdum heimilismanns, yfirleitt maka eða fyrrverandi maka. Auk líkamlegs, kynferðislegs og andlegs ofbeldis fylgja hótanir, kúgun og frelsissvipting oft heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi gegn konum á sér stað í öllum ríkjum Evrópuráðsins og í öllum lögum samfélagsins óháð aldri, efnahagsstöðu, félagslegu umhverfi, kynþætti eða fjölskyldumunstri. Ofbeldið fer fram innan fjögurra veggja heimilisins og í skjóli friðhelgi þess, oft við þögn og afskiptaleysi samfélagsins. Það er því eðli málsins samkvæmt erfitt að meta umfang vandans. Ofbeldið á sér oft stað árum eða áratugum saman án þess að það sé kært svo að þær tölur sem er að finna í málaskrám lögreglu gefa einungis mjög takmarkaða mynd af umfangi kúgunarinnar. Með því að bera saman lögregluskýrslur, komur í kvennaathvörf eða til annarra stuðningssamtaka sem aðstoða fórnarlömb heimilisofbeldis og viðamiklar kannanir sem hafa verið gerðar um þetta víða í Evrópulöndunum kemur í ljós að heimilisofbeldi er ekki einungis víðfeðmt vandamál í ríkjunum, heldur líka vaxandi. Tölur yfir komur í Kvennaathvarfið hér á landi styðja þá fullyrðingu. Samkvæmt könnunum sem nú er verið að gera í mörgum ríkjum Evrópuráðsins má ætla að 12–15% kvenna hafi verið í samböndum þar sem þær hafa verið beittar heimilisofbeldi. Heimilisofbeldi gegn konum er árás á mannlega reisn. Ofbeldið fer fram inni á heimilum kvennanna sem eiga að vera friðhelg skjól. Það brýtur fórnarlömbin og sjálfsmynd þeirra niður og er gróft brot á mannréttindum. Sérlegur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna gegn ofbeldi á konum, Yakin Ertürk, heldur því fram að umfang þess sé slíkt að að líkindum sé um að ræða heimsins útbreiddustu mannréttindabrot.

Herferð Evrópuráðsins hvetur þingmenn til að taka þessi mál upp á sínum þjóðþingum og beita sér fyrir opinni umræðu um vandann. Jafnframt er hvatt til þess að með lagaramma um vandamálið sé tryggt að heimilisofbeldi sé óásættanlegt með öllu, tryggi fórnarlömbum þess vernd og stuðning, refsi gerendum og komi á þeim forvörnum og fræðslu sem nauðsynleg er til að ná fram hugarfarsbreytingu varðandi þessi mál. Þetta er gert á margvíslegan hátt með opinni umræðu til þess að þrýsta á stjórnvöld, lagabreytingartillögum og þingsályktunum auk þess að tryggja fjárveitingar til sérmenntunar starfsmanna í löggæslu, félagsmálayfirvalda, heilbrigðisgeirans og kvennaathvarfa sem koma að stuðningi við fórnarlömbin.

Ég hef farið stuttlega yfir tvær helstu herferðirnar á sviði jafnréttismála sem Evrópuráðsþingið stendur fyrir og beinast að ógeðfelldustu hliðum misréttis kynjanna, ofbeldi gegn konum annars vegar í formi mansals og hins vegar inni á heimilum. Við Íslendingar höfum ekki minni skyldur en aðrir til að bregðast hart við þessari ógn og vá sem árlega eyðileggur og eitrar líf þúsunda saklausra kvenna. Ég ítreka þá von mína, virðulegi forseti, að íslensk stjórnvöld fullgildi samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali og vona jafnframt að við gerum allt sem mögulegt er til að uppræta heimilisofbeldi.

Evrópuráðið hefur sett verndun mannréttinda sem einkunnarorð sín og hefur staðið mjög vel að verki. Ég tel þó að þar sé hægt að gera meira. Á vissan hátt hefur Evrópuráðið veikst þótt sterkt sé. Þegar Evrópuráðið tekur ekki nógu hart á þeim þjóðum sem brjóta mannréttindasáttmálann og bregðast jafnframt ekki við því ákalli Evrópuráðsins að taka á mansali og ofbeldi gegn konum sýna þeir sem stýra Evrópuráðinu ekki nógu mikla ákveðni gagnvart þeim þjóðum innan ráðsins sem brjóta þessi mannréttindi og þeim stjórnvöldum sem gera ekki allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir slík brot. Innan ráðsins eru auðvitað þjóðir þar sem mannréttindi eru brotin á mjög grófan hátt. Ég tel þess vegna mikilvægt að Alþingi og þingmenn hér taki virkan þátt í starfsemi Evrópuráðsins.

Þar sem þetta er alveg örugglega í síðasta sinn sem ég fjalla sérstaklega um starfsemi Evrópuráðsins þakka ég öllum þeim hv. þingmönnum sem ég hef starfað með frá 1996 með hléum. Þetta hefur verið frábært fólk, hv. þingmenn allra flokka, sem ég tel að hafi staðið sig vel og verið þingi og þjóð til sóma. Við erum í sjálfu sér engum bundin, þingmenn sem starfa í Evrópuráðinu, nema okkar eigin sannfæringu, en við höfum starfað saman þvert á allar flokkspólitískar línur. Jafnframt hefur fastanefnd Íslands og sendiherrar og starfsfólk sem þarna hefur starfað verið okkur innan handar. Ég færi þeim þakklæti mitt og öllum starfsmönnum þingsins sem hafa starfað með mér þennan tíma. Án þess að lasta nokkurn vil ég auðvitað nefna Stíg Stefánsson, starfsmann nefndarinnar, og einnig Andra Lúthersson sem starfaði lengi með nefndinni.

Virðulegi forseti. Ég tel að þarna sé um afar mikilvægt starf að ræða og að endingu þakka ég aftur formanni okkar, sem talaði áðan og flutti skýrsluna, fyrir mjög góða forustu.