133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:06]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru ekki tæknilegar hindranir heldur hreinlega spurningin um þingsköp og lög. Að hafa vit fyrir fullorðnu fólki. Foreldrar þessara barna stýra neyslu þeirra. Öll fjárráð þeirra eru á forræði foreldranna. Það eru foreldrarnir sem stýra því hvað þau drekka mikið gos. Ég ætla að vona að hv. þingmaður sé ekki farinn að hafa áhyggjur af og vilji hafa áhrif á uppeldi annarra manna barna.

Varðandi Lýðheilsustöð þá nefndi hv. þingmaður mörgum sinnum að ekki hefði verið farið að tillögum hennar. Ég vil benda á að Lýðheilsustöð hefur ekki löggjafarvald í landinu. Hún getur komið með góð ráð og síðan meta hv. þingmenn það hvort þau ráð eigi rétt á sér en horfa jafnframt til annarra sjónarmiða, t.d. hvort eigi að hafa vit fyrir og stunda þá forsjárhyggju sem Vinstri grænum er svo töm. Eigum við að hafa vit fyrir þeim sem neyta gosdrykkja og eins fullorðnu fólki sem er að ala upp börn?