133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:42]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er þekkt í umræðupólitík að nota orð eins og að menn eigi að viðurkenna eitthvað, eins og þeir séu sekir. Ég viðurkenni ekki neitt vegna þess að ég hélt þessa ræðu í haust, ég efaðist um þessa prósentu en auðvitað veit ég að þetta er stórkostleg skattalækkun sem við sjáum frammi fyrir okkur eftir tvo daga, stórkostleg skattalækkun. Hún mun hafa mikil áhrif á verðlag. Hún mun hafa mikil áhrif strax, hún mun hafa mikil áhrif á næstu 2–3 mánuðum og hún mun hafa varanleg áhrif ef samkeppni er til staðar á markaðnum. Það er ljóst að þegar skattar eru lækkaðir um fleiri milljarða á ákveðinni vöru á ári, tug milljarða, hefur það áhrif á verðlag. Það er enginn sem mælir því í mót.

Auk þess var inni í pakkanum að mjólkurvinnslustöðvar, ef ég man rétt, héldu verðlagi sínu föstu í heilt ár. Það hefur líka heilmikið að segja þegar um er að ræða verðbólgu eins og við höfum upplifað síðasta ár, þetta er verðbólguskot upp á 7% sem núna reyndar sér fyrir endann á. Vegna þessara aðgerða, þessarar skattalækkunar, sér fyrir endann á verðbólgunni og flestallir spá núna að verðbólgan verði jafnvel í haust komin niður í mörk Seðlabankans sem er mjög jákvætt.

Ég skil ekki það upphlaup hjá hv. þingmanni að halda því fram að ég hafi sagt eitthvað og halda því stöðugt fram að ég hafi ekki haldið einhverja ræðu. Ég spurði einmitt fjármálaráðherra að þessu í haust.

Svo vil ég bara benda á að þetta er síðasti liðurinn í langri röð skattalækkana sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir. Því miður gefst ekki tími til að telja upp alla skattana sem hafa verið lækkaðir á kjörtímabilinu, svo margir eru þeir.