133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:44]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin valdi enga millileið. Hún er að lækka verð á gosdrykkjum og sykruðum drykkjum mest allra vörutegunda við skattabreytingarnar 1. mars. Þetta er staðreynd. Ég veit að gosdrykkjaframleiðendur og framleiðendur sykraðra drykkja kunna ríkisstjórninni þakkir fyrir þá gjörð. Það gerir Lýðheilsustöð hins vegar ekki og þeir sem hafa það verk með höndum í þjóðfélaginu að passa upp á slík sjónarmið.

Hæstv. ráðherra verður tíðrætt um afstöðu stjórnarandstöðunnar. Við erum að spyrja um afstöðu ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega hæstv. heilbrigðisráðherra en undir ráðherrann heyrir Lýðheilsustöð. Mér finnst þetta vera mikið áhyggjuefni og ég lýsi miklum vonbrigðum með svör hæstv. heilbrigðisráðherra en það er áhyggjuefni að hún skuli hlaupast undan ábyrgð í þessu efni og vísa ábyrgðinni frá ríkisstjórninni yfir á börnin og foreldra þeirra.