133. löggjafarþing — 80. fundur,  28. feb. 2007.

bólusetningar gegn leghálskrabbameini.

585. mál
[14:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sæunn Stefánsdóttir) (F):

Frú forseti. Við lestur þarsíðasta tölublaðs Læknablaðsins vakti athygli mína viðtal við Harald Briem sóttvarnalækni um bólusetningar gegn leghálskrabbameini. Hann fjallaði m.a. um þá umræðu sem hefur skapast í Bandaríkjunum í kjölfar þess að farið var af stað með bólusetningu gegn papílómaveiru eða HPV-veiru sem veldur leghálskrabbameini. Fylkisþingið í Michigan samþykkti lög í september 2006 sem kveða á um skyldubólusetningu allra 11 og 12 ára stúlkna og umræðan í Bandaríkjunum er á þann veg að búist er við að önnur ríki fylgi í kjölfarið.

Þetta vakti athygli mína vegna þess að í ljós hefur komið að leghálskrabbamein orsakast nær undantekingarlaust af smiti af völdum vörtuveira. Til eru fjölmargir stofnar HPV-veira, sumir þeirra geta valdið krabbameini en aðrir kynfæravörtum. Veirusýkingarnar eru mjög algengar og er talið að yfir 40% ungra kvenna beri HPV-veirusmit á hverjum tíma. Í flestum tilvikum vinnur líkaminn sjálfur bug á sýkingunni án frekari afleiðinga en í undantekningartilvikum þróast sýkingin yfir í alvarlegar frumubreytingar og jafnvel krabbamein í leghálsi.

Nú er það þannig að við höfum náð miklum árangri á Íslandi, sérstaklega í kjölfar þess að sett var á skipuleg leit að krabbameini í leghálsi hjá konum. Nú er staðan þannig að leghálskrabbamein er komið í 12.–13. sæti krabbameina hjá konum og greinast 16 konur árlega. Nýgengi leghálskrabbameins hefur lækkað umtalsvert á Íslandi síðustu áratugi og er það sérstaklega fyrir áhrif leitarstarfsins. Nýgengi var á uppleið áður en leitin hófst og ljóst er að það væri margfalt hærra nú ef leitin hefði ekki komið til. Slík hækkun hefur orðið í löndum þar sem leghálskrabbameinsleit er ekki til staðar en hækkunin fylgir auknu frjálsræði á síðustu áratugum. Aldursdreifing leghálskrabbameins er nokkuð sérstök þar sem það er nokkuð algengt hjá ungum konum.

Mér fundust það athyglisverðar fréttir sem komu fram í viðtali við Harald Briem í Læknablaðinu og þess vegna hef ég lagt fram þessa fyrirspurn. Við höfum notað bólusetningar með góðum árangri á Íslandi á ýmsum sviðum og almenn þátttaka í þeim hefur verið mjög góð, það skýrir góðan árangur. Sóttvarnalæknirinn orðar það svo í viðtalinu að um sé að ræða hagsmunamál fyrir konur og ég tek undir það. Mig langar að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvað henni finnist um hugmyndir um bólusetningar gegn algengri veiru sem valdið getur leghálskrabbameini.