133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breytingar á ýmsum lögum er varða útgáfu leyfa o.fl.

654. mál
[11:05]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum er varða útgáfu leyfa o.fl. Frumvarpið var unnið í samráði við samgönguráðuneytið, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið og umhverfisráðuneytið.

Hinn 1. janúar urðu umfangsmiklar breytingar á skipun lögreglumála þegar lögregluumdæmum fækkaði úr 26 í 15 og nú fara 11 sýslumenn ekki með lögreglustjórn í umdæmum sínum.

Víðs vegar í lögum er kveðið á um að lögreglustjóri gefi út leyfi. Í ljósi þess að nú hafa sýslumenn sem ekki eru jafnframt lögreglustjórar ekki lögformlegt umboð til að gefa út leyfi en nauðsynlegt að flytja það frumvarp sem hér um ræðir.

Miklu skiptir að landsmenn geti áfram sótt sömu þjónustu vegna útgáfu leyfa í sínu byggðarlagi ýmist á lögreglustöð eða sýsluskrifstofu án tillits til þess hvort sýslumaður hafi einnig á hendi lögreglustjórn.

Með frumvarpinu eru leyfisveitingar sem lögreglustjórar hafa með höndum samkvæmt núgildandi lögum færðar til sýslumanna nema þar sem eðli leyfanna er með þeim hætti að sérþekkingar lögreglustjóranna er þörf. Slík leyfi verða áfram gefin út af lögreglustjórum, en þar er meðal annars um að ræða leyfi á grundvelli vopnalaga og ákveðin leyfi á grundvelli umferðarlaga. Í þeim tilvikum geti almenningur þó eftir sem áður lagt fram umsóknir um leyfi hjá sýslumanni í umdæmi sínu sem annast milligöngu um leyfisveitinguna enda er meginmarkmið frumvarpsins að skerða ekki þjónustu við landsmenn í kjölfar fækkunar lögregluumdæma.

Þá eru í frumvarpinu einnig gerðar nokkrar breytingar á leyfisveitingum sem nú eru á hendi ríkislögreglustjóra. Er hér einkum um að ræða leyfisveitingar samkvæmt umferðarlögum og vopnalögum. Samkvæmt gildandi vopnalögum eru það ýmist lögreglustjórar eða ríkislögreglustjóri sem gefa út leyfi. Hagræðing fylgir því að færa sem flestar leyfisveitingar til lögreglustjóra þar sem þær verða þá nær borgaranum. Í sumum tilvikum hafa leyfisveitingar þegar verið færðar frá ríkislögreglustjóra til lögreglustjóra á grundvelli sérstakra heimildarákvæða í lögunum. Framkvæmd þessi hefur reynst vel og er í frumvarpinu lagt til að hún verði fest í sessi.

Þrátt fyrir að meginefni frumvarpsins lúti að breytingum vegna fækkunar lögregluumdæma þá eru einnig af öðru tilefni lagðar til breytingar á vopnalögum og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði eins og nánar er vikið að í greinargerð með frumvarpinu. Einkum má nefna að lögð er til sú breyting á vopnalögum að framvegis verði einungis félögum eða skrásettum firmum veitt heimild til að versla með skotvopn, skotfæri, sprengiefni og skotelda en ekki einstaklingum eins og gildandi lög gera ráð fyrir. Með þessu fyrirkomulagi verður eftirlit á þessu sviði einfaldara. Þá er lagt til sérstakt heimildarákvæði um einkennisfatnað sýslumanna og löglærðra fulltrúa þeirra en slíka heimild er ekki að finna í lögum núna eins og rakið er ítarlega í greinargerð með frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Það er von mín að þær meginbreytingar sem eru lagðar til með frumvarpinu stuðli að því að þjónusta við almenning í landinu verði áfram sú sem við höfum átt að venjast og vona ég að þingið geti lokið afgreiðslu þessa máls áður en því lýkur í vor.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.