133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:40]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg hægt að hæla Framsóknarflokknum og ríkisstjórnarsamstarfi hans fyrir eitt, hversu innilega auðsveipur hann hefur verið Sjálfstæðisflokknum og aldrei sýnt neina sjálfstæða vitund, alla vega ekki þau ár sem núverandi ríkisstjórn hefur setið. Hin góða félagshyggja sem var grunnur fyrir flokkinn á sínum tíma og ég ber virðingu fyrir er löngu farin út í veður og vind því að svo annt hefur þeim verið um að þóknast Sjálfstæðisflokknum. Vatnið er eitt dæmið um það. Ég heyri að hæstv. ráðherra Guðni Ágústsson er ekkert ofboðslega hrifinn af einkavæðingunni á vatninu og reynir að snúa út úr og segja að það hafi ekki verið gert, reynir að blekkja sjálfan sig. En frumvarpið snerist um einkavæðingu á vatni.

Hefur ekki einmitt einkavæðing á almannaþjónustu og grunngildum verið eitt af því sem núverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur haft sem meginbaráttumál sín. Einkavæðing á Símanum, ég er ekki viss um að íbúar hinnar dreifðu byggðar landsins séu hrifnir af einkavæðingu Símans og þeirri þjónustuskerðingu sem hún hafði í för með sér sem var þó eitt af aðalverkefnum núverandi ríkisstjórnar. Einkavæðing eða markaðsvæðing raforkukerfisins, ég heyri ekki að íbúar vítt og breitt um landið séu hrifnir af því. Samt hefur það verið eitt af aðalverkefnum núverandi ríkisstjórnar.

Það má því hæla Framsóknarflokknum fyrir það að hann hefur þjónkað vel undir Sjálfstæðisflokknum í þeirri einkavæðingarherferð sem rekin hefur verið hér á undanförnum árum.