133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

heilbrigðismál á Austurlandi.

[13:43]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands hefur aldrei verið meiri en árið 2006 enda þjónusta við allt að fjórtán þúsund manns á síðasta ári. Reksturinn hefur verið og var í mjög þokkalegu horfi eftir aukafjárveitingar 2006 og rekstraráætlun stofnunarinnar núna fyrir árið 2007 mun vera nokkurn veginn í takt við fjárlögin miðað við óbreyttan rekstur. Þetta horfir því allt býsna vel en ég tel að varðandi næstu verkefni sem við verðum að horfa til til úrlausnar á svæðinu þá þurfi í fyrsta lagi að taka í notkun endurbyggingu eldri hluta fjórðungssjúkrahússins, þar sem ekki er búið að ganga frá kaupum á öllum búnaði og það verður að gera það til þess að húsið nýtist í fullri starfsemi.

Það er hins vegar líka nauðsyn að hefja byggingu á u.þ.b. 20 hjúkrunarrýmum á Egilsstöðum til þess að losa rúm sem núna eru á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum svo að þau geti gegnt því hlutverki sem þeim er ætlað en þau rúm eru núna fullsetin af sjúkum öldruðum. Það myndast því eins konar stífla í þjónustu sjúkrahússins þegar svo háttar.

Síðan vitum við að stefnt er að því að byggja hjúkrunarheimili á Eskifirði þar sem verið er að skipta út óhagkvæmu húsnæði sem nú er í Hulduhlíð, fyrir hagkvæmara húsnæði. Einnig þarf að ljúka byggingu heilsugæslustöðvar á Reyðarfirði vegna stækkunar sem nauðsyn er á.

Ég vil nefna það hér, hæstv. forseti, að það þarf auðvitað líka að efla sjúkra- og neyðarflutninga með staðsetningu þyrlu á Austurlandi (Forseti hringir.) sem getur þá þjónað öllu Norðausturlandi með þeim hætti.