133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[15:51]
Hlusta

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði um daginn, þegar við ræddum þetta í þessum sölum að frumkvæði hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að menn ættu ekki að vera að hræra í þessu blóði. Sannarlega hefur runnið blóð vegna þessa máls. Breska tímaritið The Lanset, sem er virtasta læknatímarit í heiminum, gerði könnun á því hversu margir hefðu látist af völdum þessara átaka. Í ljós kom að 650 þúsund til 700 þúsund írakskir borgarar liggja í valnum. Hverjir bera sökina á því? Bandaríkjamenn og Bretar. Þeir réðust inn í Írak. En ekki er annað hægt en segja að þjóðir eins og Ísland bera líka vissa siðferðislega sekt á meðan þær eru á lista yfir þjóðirnar sem studdu þetta voðaverk. Ég segi að mig kennir til í hjartanu yfir því að vera partur af Alþingi sem ekki getur losað sig við þennan svarta blett. Ég bið hæstv. ráðherra, forustu Framsóknarflokksins, að gera það sem er drengilegt og sanngjarnt í þessu máli og hjálpa okkur til að losa okkur við þennan blett á æru Alþingis og Íslands. Við verðum að fá að verja hendur okkar og koma þessu máli af okkur.

Kofi Annan, sem var framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði að þetta hefði verið ólöglegt árásarstríð. Hvernig stendur þá á því að forusta Framsóknarflokksins vill einfaldlega ekki koma hingað og biðjast afsökunar? Þeirri afsökunarbeiðni verður tekið. Þeim urðu á mistök sem höfðu skelfilegar afleiðingar og þeir eiga að biðjast afsökunar á því.