133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

samningur um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja.

640. mál
[18:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það eru að sjálfsögðu ekki efni til að fjölyrða um þennan samning. Ég fagna því fyrst og fremst að hann hefur loksins litið dagsins ljós og er kominn á borð okkar alþingismanna þremur eða fjórum árum eftir að samkomulagið náðist um afmörkun miðlínunnar eins og hún var umdeild vegna þess hlutar hennar sem tengdist Hvalbak.

Ég held að þetta sé ágætt dæmi um það hvernig grannþjóðir eiga að vinna úr sínum málum og leysa þau með farsælum og friðsamlegum hætti. Ég tel að þessi niðurstaða sé efnislega alveg ásættanleg fyrir Ísland. Það má auðvitað endalaust deila um það hvað væri sanngjarnt í þessum efnum en það er þó enginn vafi á því að Ísland heldur þarna heldur stærri hluta af þessu umdeilda svæði en hitt. Það er kannski meira virði þegar upp er staðið að ná samkomulagi á vinsamlegum nótum við Færeyinga um málin og treysta þar með samstarf ríkjanna á sviði sjávarútvegsmála og hafréttarmála sem er mjög mikilvægt og hefur nýst okkur Íslendingum vel, og í vaxandi mæli á seinni árum verið ekkert síður hagstætt fyrir Ísland en Færeyjar. Framan af nutu Færeyingar mikilla einhliða réttinda í íslensku fiskveiðilögsögunni og gera sumpart enn, en hlutur ríkjanna hefur jafnast með auknum veiðum okkar á uppsjávarfiskum yfir í færeysku lögsögunni og þeirri samstöðu sem hefur verið mikilvæg og oftast hefur náðst milli Íslands og Færeyja í viðræðum við þriðja aðila, jafnvel þó að við séum samtímis keppinautar um hlut í þeim gæðum sem samið er um hverju sinni eins og norsk-íslensku síldinni eða hvað það nú er.

Ég vek svo að lokum athygli á því að það er nokkurt nýnæmi hygg ég í lausn deilumála af þessu tagi að ríkin semji um sameiginleg afnot af hinu umdeilda svæði. Í raun ríkir gagnkvæmur veiðiréttur eins og hann er á grundvelli annarra samninga og fiskveiðistjórnar ríkjanna á öllu svæðinu í staðinn fyrir að því sé skipt í tvennt eins og kannski væri hefðbundnara að gera þegar deilumál um afmörkun lögsögu eru leidd til lykta. Í þessu er líka fólgið fyrirkomulag sem í raun er sérstakt og lýsir vel því trausti sem þjóðirnar bera hvor til annarrar í þessum efnum því að án slíks væri náttúrlega ekki heppilegt að reyna að ganga svo frá málum að um sameiginleg afnot af tilteknu hafsvæði í þessum skilningi væri að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð en fagna því að þessi samningur er kominn í höfn.