133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[17:44]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Margt kom athyglisvert fram í ræðu hv. þingmanns. Hann lagði fram glöggt dæmi. Hann talaði um verðlag á landbúnaðarvörum og um hvað bóndinn fengi lítið í sinn hlut, allt of lítið. Hann nefndi t.d. 15 kg lambskrokk sem hann hefði kannað sjálfur, að af því að búið væri að selja hann í pörtum út úr smásöluverslun væri hann kominn í 23 þús. kr., ef ég tók rétt eftir, en bóndinn fengi aðeins 4.700 kr.

Ég hef oft hugsað um að hið gamla lag var oft það að menn áttu sér frystikistu. Ef neytandinn og bændurnir færu á haustin, t.d. í sláturtíð, og vildu selja kjötið beint til neytenda, saga það niður og í kistuna hjá þeim mundi sennilega neytandinn fá svona skrokk sem kostar út úr smásöluverslun 23 þús. kr. á um 7–8 þús. kr. Þar væru tvö læri, hryggir, framhryggjarsneiðar, súpukjöt. Þar væri gríðarlega mikið og ég held að þar hljóti að vera lag fyrir neytendur að lækka matvælareikning heimilisins.

Nú er hv. þingmaður reikningsgleggri en ég. Það væri gaman að heyra hvort hann hefur reiknað þetta dæmi þegar kjöt er markaðssett beint út úr afurðastöð þannig að neytandinn fái þetta heim til sín og eigi þarna birgðir.

Það ætti nánast að vera í lögum að hvern einasta sunnudag í hádeginu borði fjölskyldan saman, stórfjölskyldan íslenska, annaðhvort lambalæri eða lambahrygg. Allir koma saman og þannig er líka höfð í frammi eftirlitsskylda innan fjölskyldunnar, allir séu heilir yfir helgina, hafi það gott og fari svo saman til kirkju á eftir.