133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[18:07]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil við lok þessarar umræðu þakka fyrir mikla umræðu og á margan hátt ágæta. Margar góðar ræður hafa verið fluttar og ég sé að það hefur verið góð samstaða um þennan samning í þinginu. Ég held að flestir sjái hann í því ljósi að hann muni skipta sauðfjárræktina miklu, ekki síst landsvæði þar sem sauðfjárræktin er sterkust og eðlilegt að ríkið komi þar inn í. Sauðfjárræktin er náttúrlega okkar aldni atvinnuvegur og Ísland er talið mjög gott sauðfjárræktarland. Við erum að gera hér svipaðan hlut í stuðningi við landbúnaðinn og kannski í minna mæli en margar aðrar þjóðir sem búa þess vegna við betri veðurskilyrði og betri aðstæður að sumu leyti. Þannig að ég fagna því að samningurinn fær hér allgóðar undirtektir og verður afgreiddur héðan.

Hér talaði síðastur hv. þm. Pétur Blöndal. Auðvitað er það nú svo, hæstv. forseti, að íslenskir bændur upp til hópa reka hagkvæman landbúnað, eru miklir og ágætir rekstrarmenn og þarf ekkert að vera að snýta þeim upp úr því sem ekki er rétt. Þeir eru frjálsir. Þeir búa við mikið frelsi. Það er enginn að stýra þeim ofan frá. Þeir gera hér samninga og þeir fara með þá samninga sjálfir og þeir eru frjálsir innan þeirra.

Hv. þingmaður minnist t.d. á Mjólku sem er ágætisfyrirtæki. Prýðilegt fyrirtæki og er utan við sameign bændanna um mjólkurafurðirnar. En það er í nákvæmlega sams konar stöðu má segja sem er að nýta sér annan markað til að auðga hann. Það eru bændur með alveg sömu kjör og aðrir. Bændur sem eru með beingreiðslur alveg eins og hinum megin leggja mjólk inn í Mjólku. MS, sú mikla mjólkurstöð, fær ekki neinn einasta ríkisstyrk. Þannig að það má heldur ekki láta liggja hér að röngum hlutum. Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal vill að sannleikurinn sé uppi við. Þess vegna vil ég bara skýra frá því að þetta er alveg klárt mál. Þessar afurðastöðvar búa við sömu aðstæður hvað þetta varðar. Enginn mismunur þar á. En ég trúi því að Mjólka muni auðga markaðinn og hún hefur sitt frelsi í þessu frjálsa landi til þess að framleiða. Þannig að ég óska henni velgengni.

Kerfið skaðar ekki bændur í dag og þeir eru á margan hátt frjálsir hvað það varðar og hafa frelsi til að framleiða og frelsi til að selja vörur sínar eða fara í sölu beint frá býli. Þannig að landbúnaðurinn er að auðgast og eflast.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði með Lánasjóð landbúnaðarins. Við ákváðum að selja hann af því að þróunin á bankamarkaðnum hefur verið með þeim hætti. Það var ástæðulaust að ríkið ætti þennan sjóð og væri að reka hann. Enda er það rétt sem hv. þingmaður sagði, að sú gjörð hefur haft mikið í för með sér. Sjálfsagt hefur jarðarverð hækkað. Bændurnir eru frjálsir. Lánasjóður landbúnaðarins var fastur á fyrsta veðrétt sem varð heilmikið vandamál. Frelsi í bönkunum og þróun bankanna með glæsilegum hætti hefur síðan gert það að verkum að bændur búa við samkeppni og ég hygg að það sé rétt að þeir fengu bæði lægri vexti og lán til lengri tíma og eru betur settir á eftir.

Það er oft furðulegt að hlusta á þingmenn stjórnarandstöðunnar sem skammast út í bankakerfið lon og don og láta jafnvel að því liggja að það væri best að það færi úr landi. Bankarnir skila okkur miklum tekjum, svoleiðis að um munar í íslensku samfélagi í dag. Ég óska þeim því velfarnaðar og bændunum einnig.

Í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar kom fram að bréf hefði borist til landbúnaðarnefndar frá Gunnari Sæmundssyni, Jóhönnu Pálmadóttur og Fanneyju Ólöfu Lárusdóttur, en þau eru hluti af samninganefndinni fyrir bændurna. Í bréfinu gerðu þau athugasemdir um að það skyldu vera sólarlagsákvæði og útflutningsskyldan skyldi vera inni í frumvarpinu. Nú kann það vel að vera svo, ef það var verið að semja um að hún færi út, sem varð auðvitað ágreiningur um og töluverð umræða og sitt sýndist hverjum. Ég hygg að meiri hluti bænda hafi skilið að sá tími var kominn að útflutningsskyldan gat ekki verið áfram og er auðvitað langbest að bændurnir sjálfir búi sig undir þá framtíð sem er óhjákvæmileg. Eða það var mín skoðun.

En þetta ágæta fólk skrifaði bréf sem ég ætla svo sem ekkert að gera athugasemdir við en þau segja: „Við undirrituð mótmælum þessu harðlega og skorum á landbúnaðarnefnd Alþingis að sjá til þess að við áðurnefnd fyrirheit verði staðið.“

Við fyrirheitin er algerlega staðið að því leyti að lagabreytingin á sér stað í áföngum og er alfarið farin út 1. júní 2009, eins og um var samið. En þetta var sett inn í heildarpakkann til þess að þurfa ekki að taka samninginn upp aftur haustið 2008. Svo er það auðvitað lagatæknilegt atriði að hafa öll þessi atriði sem um var samið og ákveðin voru af samninganefnd bænda og ríkisins inni í samningnum.

Það kann vel að vera að það hafi komið fram á fundum að við hefðum talað um að sérstakt frumvarp yrði flutt haustið 2008. En það á ekkert að breyta því að þessi samningur var gerður og ég veit að menn vilja standa við hann. Þetta þótti svona einfaldari leið og þess vegna heiðarlegri af beggja hálfu. Það er þá bara komið fram og menn eru þá ekki að vænta einhvers, að þessu verði aldrei breytt og búa sig þá ekki undir þann tíma. Því bændurnir, eins og kom fram í fyrri ræðu minni, þurfa auðvitað að búa sig undir þessa breytingu sjálfir með sínum afurðastöðvum, hvernig þeir mæta því. Það er bara þeirra stóra verkefni.

Ég ætla þá ekki að hafa þetta lengra en þakka þá ágætu umræðu sem farið hefur fram um þennan samning við sauðfjárbændur um landbúnaðinn í heild.