133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum.

69. mál
[12:10]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það hefur áður komið fram í máli mínu í umræðunni í dag að ég er hlynntur því að Íslendingar geri samkomulag við Færeyjar og Grænland um skipti á ræðismönnum. Ég vil segja í upphafi máls míns að ég hafði ekki skoðað þetta með sömu málfarslegu gleraugum og hv. þm. Mörður Árnason en auðvitað sýndi hann fram á af snilld sinni og yfirburðaþekkingu á íslenskri tungu að greinin sjálf sem liggur til efnislegrar samþykktar er töluvert öðruvísi en rétt væri að skipa henni í samræmi við hinar ströngustu reglur íslenskrar tungu. Fyrir það þakka ég hv. þm. Merði Árnasyni og vona að hann hafi í afsölum náð samkomulagi við starfandi formann utanríkismálanefndar um að binda bagga þingsins þeim hnútum hér í dag að fullur sómi sé að af allra hálfu.

Ég gat þess áðan að mér fyndist óviðkunnanlegt, þó að það komi ekkert við afstöðu minni til málsins, að búið er að auglýsa opnun ræðismannsskrifstofu Íslendinga í Færeyjum. Búið er að lýsa því yfir að hún verði opnuð af okkar hálfu 1. apríl. Þangað er búið að skipa mikinn sómamann sem okkur er að góðu kunnur úr þingsölum, a.m.k. okkur sem höfum starfað með honum fyrr á árum. Hann var einmitt forveri þess sem hér stendur og talar í stóli umhverfisráðherra og gegndi því embætti með miklum sóma. Ég veit að hann verður verðugur fulltrúi Íslendinga í Færeyjum. Það breytir því ekki að framkvæmdarvaldið hefur tekið það upp hjá sjálfu sér, án samþykktar Alþingis, að ráðast í þessa framkvæmd á þingsályktunartillögunni áður en hún er orðin að ályktun. Það eru óvanaleg vinnubrögð. Hv. þm. Jón Kristjánsson sagði áðan að hann teldi að það væri góð regla að bíða eftir því að vilji Alþingis lægi fyrir. Ég er algjörlega sammála því, það á að vera eina reglan.

Því má velta fyrir sér hvort þetta fordæmi gæti falið það í sér að utanríkisráðuneytið réðist í að binda hendur framkvæmdarvaldsins með ákvörðunum sem kalla á fjárveitingar áður en þær hafa verið ræddar á hinu háa Alþingi. Að því kunna að hafa verið brögð en það er ekki í anda góðrar stjórnsýslu og þess gagnsæis og lýðræðis sem við vildum viðhafa. Það sem ég hef þó aðallega fundið að málinu er að tillagan liggur fyrir um ræðismannsskrifstofu bæði í Færeyjum og á Grænlandi. Hv. þm. Jón Kristjánsson sagði að líkast til mætti leita skýringa á aðgerðum utanríkisráðuneytisins í þeirri staðreynd að fyrir hefði legið yfirlýstur vilji þingsins. Hann kom fram með þeim hætti að enginn mælti gegn málinu þegar hér fór fram umræða um það. Af því hafa hinir vísu embættismenn dregið þessa ályktun.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni, ekki nokkur maður hefur fundið neitt að málinu. Öll viljum við greiða fyrir auknum samskiptum okkar og frændþjóða sem okkur eru skyldastar landfræðilega til austurs og vesturs. Hins vegar skýtur skökku við að sama áhersla skuli ekki vera lögð á Grænland. Ég hef löngum á þingferli mínum haldið uppi þeim málflutningi að við eigum að efla eins og hægt er öll þau tengsl sem við getum ræktað við Grænlendinga. Við höfum gríðarlega sterk söguleg tengsl við Grænland. Segja má að tengsl okkar við þessar frændþjóðir teygi sig aftur til sömu tíma, siglingaleiðin á tímum landnáms milli Íslands og Norðurlanda lá um hafsvæðið þar sem Færeyjar er að finna. Sömu gen og hingað komu í árdaga tóku sér líka bólfestu í Færeyjum. Þeir tala mál sem er svipað okkar og byggja menningu sína á svipuðum grunni. Við höfum hins vegar líka söguleg tengsl við Grænland frá þessum tíma vegna þess að eina nýlendan sem Ísland hefur fætt af sér var á Grænlandi. Íslendingar námu Grænland, eins og vel er frá skýrt í Grænlendingasögu og ýmsum Íslendingasögum á þeim tíma þegar Grænland var ónumið. Ég segi ónumið vegna þess að það skaraðist við það skeið þegar Inúítar voru að koma bæði austan megin og vestan megin frá Baffinslandi í Kanada og yfir sundið og færðu sig síðan suður eftir Grænlandi. Þarna varð til íslensk menning sem stóð föstum fótum í 200–300 ár en dó smám saman út þegar leið fram á 15. árhundraðið. Það er mikil saga sem er að mestu leyti óskrifuð enn þá. Menn eru hins vegar að efna til hennar með fornleifarannsóknum á Grænlandi þar sem mjög merkilegar fornminjar og miklar að vöxtum hafa komið fram.

Við eigum að efla tengslin við Grænland ekki síður en tengslin við Færeyjar. Og af því að hv. þm. Sigurjón Þórðarson, líffræðingur að mennt, kemur hingað inn rifjast upp fyrir mér að Íslendingar stunduðu einmitt mjög merkilega milliríkjaverslun á tímum landnámsins og árhundruðin á eftir við Grænland, og merkasti gjaldmiðillinn sem Íslendingar gátu fundið og fengið og notað í skiptum við útlönd var horn einhyrningsins, þ.e. náhvalstennur sem var aflað norðarlega vestan megin Grænlands, flutt þaðan úr því sem kallað var Norðurseta til Eystri- og Vestribyggðar, voru síðan fluttar hingað til Íslands og umskipað í Borgarfirði og á vestanverðu landinu. Halldór Laxness spurði eitt sinn í merkri grein þegar hann var að velta fyrir sér rótum íslenskrar menningar og Íslendingasagnanna hvaðan það kapítal hefði komið sem þurfti til að standa undir þessari umfangsmiklu framleiðslu á menningu. Hann átti við kálfskinnin og sögurnar sem á þau voru skrifuð í klaustrum og á stórbýlum. Líklegt er að það kapítal hafi komið einmitt úr milliríkjaversluninni sem Íslendingar áttu við Grænland, fluttu þaðan vörur til Íslands og síðan aftur út til meginlands Evrópu.

Það má líka nefna, af því að hv. þm. Sigurjón Þórðarson er ekki bara líffræðingur heldur er hann þingmaður þess hluta landsins sem mest kom af gestum til á árum fyrri frá Grænlandi, ísbjörnum á ís, að Íslendingar notuðu ísbirni líka sem gjaldmiðil, þeir fönguðu ísbjarnarhúna, tömdu þá, fóru með þá til Íslands og síðan út til Evrópu. Af þessu eru miklar sögur og til eru skráðar heimildir um tamda ísbirni suður í Afríku sem höfðu verið gefnir hirðum soldána í Norður-Afríku sem þar höfðu sett upp borgríki. Sömuleiðis má geta þess að á dögum Shakespeares var taminn ísbjörn hafður í keðjum á brúnni sem lá yfir Thames við Tower of London. Hann varð sérstakt augnayndi ferðamönnum sem komu gagngert til Lundúna á þeim tímum til að sjá ísbjörninn stinga sér til sunds í ánni Thames og afla fiskjar. Þetta nefni ég sérstaklega til þess að varpa ljósi á það að við höfum margvísleg, fróðleg og merkileg söguleg tengsl við Grænland.

Ég hef sjálfur sem almennur borgari þessa lands reynt með mínum hætti að rækta þessi tengsl. Það hef ég gert í gegnum hreyfingu sem ég tilheyri utan vébanda stjórnmálanna, skákhreyfinguna. Ég hef farið í þrjár skákferðir til Grænlands, frú forseti, og veit að það er stallsystur minni, hæstv. forseta Jóhönnu Sigurðardóttur, ábyggilega fróðleiksefni að vita að hennar góði þingbróðir sem hér stendur og talar hefur um ævina tekið þátt í einu alþjóðlegu skákmóti og það var á Grænlandi. Ég lenti þar um miðjan lista þannig að enginn þarf að skammast sín fyrir frammistöðu þingmannsins í þeirri keppni.

Frú forseti. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að margvísleg samtök á Íslandi reyna að greiða götu samskipta við Grænland. Þar vil ég sérstaklega nefna hinn ágæta forvígismann Kalaks, Stefán Hjartarson, sem hefur með ýmsum hætti á eigin kostnað staðið undir miklum samskiptum af þessu tagi. Ég er þeirrar skoðunar að reyna eigi að efla þau og að Íslendingar eigi að gera það með þeim hætti sem er lagt til í þessari þingsályktunartillögu, þ.e. með því að setja upp ræðismannsskrifstofu á Grænlandi. Rökin sem færð eru fyrir því í greinargerðinni eru ákaflega góð. Það er bent á að það væri liður í því að tryggja borgurum þessara tveggja landa réttindi og gagnkvæma hagsmuni. Við höfum sömuleiðis bent á að það er margt skylt með atvinnulífi og jafnvel vinnumarkaði í þessum löndum og hefur alltaf verið í áranna rás þó að þau skipti hefðu mátt vera miklu meiri og gagnkvæmari. Íslensk fyrirtæki hafa verið kölluð til Grænlands til að ráðast þar í stórframkvæmdir, virkjanir og annað slíkt og ég held að ræðismannsskrifstofa mundi hjálpa til að efla slík viðskiptatengsl milli landanna.

Við Íslendingar eigum líka annarra hagsmuna að gæta. Ég segi fyrir mína hönd að ég tel að að því muni draga að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu. Íbúar allra þessara þriggja landa hafa goldið varhuga við því af einni ástæðu, þ.e. hagsmunum sem tengjast sjávarútvegi. Nú mun það koma fram á næstu dögum þegar Evrópunefnd kynnir skýrslu sína að þeir annmarkar á aðild sem taldir voru stafa af hagsmunum sem tengjast sjávarútvegi eru miklu minni en áður var haldið. Ég rifja það upp í tengslum við þetta að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, sem er nú eitthvert helsta eftirlæti hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, setti fram mjög merkilega hugmynd í ræðu sem hann flutti í Berlín og nefnd er Berlínarræðan — hann er líka leiðtogi lífs hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur sem situr í utanríkismálanefnd og gengur nú í salinn, hnarreist og keik — og reifaði þar þann möguleika að í Norður-Atlantshafi yrði byggt upp sérstakt sjálfsstjórnarsvæði fyrir fiskveiðar. Hann færði fyrir því margvísleg rök sem hann sótti í ýmsar reglur sem hafa verið settar innan Evrópusambandsins og hafa aukist að mikilvægi. Á þá hugmynd hafa sumir borið brigður, talið hana ekki mjög sterka og ekki styðjast við raunveruleikann.

Mig langar að nefna tvennt í þessu sambandi. Þegar þáverandi leiðtogi Evrópusambandsins, Göran Persson, kom hingað sem góður gestur íslenskra jafnaðarmanna samþykkti hann yfirlýsingu norrænu jafnaðarmannaleiðtoganna um að þetta væri eitt af því sem hugsanlega kæmi til greina ef lönd eins og Ísland og Noregur sæktu um aðild að Evrópusambandinu. Ég hef hins vegar alltaf verið þeirrar skoðunar að Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar ættu að hafa með sér gott samstarf um fiskveiðimál í Norðurhöfum. Fiskstofnarnir sem skilgreina má sem flökkustofna ganga sérstaklega um sameiginleg hafsvæði og úthaf sem liggur á milli Íslands og Færeyja en líka allar götur vestur til Grænlands. Má nefna það, frú forseti, að sú tegund sem mér er annast um, laxinn, fer á bæði þessi svæði. Hann gengur héðan á hafsvæðið við Færeyjar og síðan fer stærri laxinn til vetrarvistar við Grænland. Það var einmitt í krafti samstarfs þessara þriggja þjóða sem einn af forvígismönnum laxaverndar í heiminum, Orri Vigfússon, náði samkomulagi um að útrýma úthafsveiðum á þessari tegund á þessum hafsvæðum. Ég nefni þetta sem dæmi vegna þess að það sýnir hvað samstarfið getur leitt gott af sér.

Þá kem ég aftur að Evrópusambandinu. Ég tel að ef þessar þrjár þjóðir mundu sameinast um að mynda eitt stórt stjórnunarsvæði fyrir fiskveiðar í Norður-Atlantshafinu yrði staða okkar Íslendinga og allra þessara þriggja þjóða miklu sterkari gagnvart Evrópusambandinu ef til þess kæmi, og þegar, sótt verður um aðild að því. Ég tel að það skjól sem þessar þjóðir hefðu af styrk okkar sem fiskveiðiþjóðar og alþjóðlegri reynslu mundi gera þeim það miklu auðveldara að samræma hagsmuni sína á sjávarútvegssviðinu við ýmsar kröfur sem verður að uppfylla gagnvart Evrópusambandinu. Þessar þrjár þjóðir yrðu í reynd fiskveiðistórveldi og gætu sem slíkt veldi talað á grundvelli jafnræðis og jafningjastöðu við Evrópusambandið í þessum málum.

Frú forseti. Það er þetta sem gerir það að verkum að sýn mín á samstarf þessara þriggja þjóða markast líka af þeirri sterku framtíðarsýn sem ég og Samfylkingin höfum fyrir hönd Íslands. Ég tel þess vegna að náin tengsl Íslands við Grænland annars vegar og Færeyjar hins vegar styrki mjög hagsmuni Íslendinga, sérstaklega þegar til svolítið lengri tíma er litið. Af þeim sökum er ég ákafur stuðningsmaður þessarar ályktunar en jafnframt, sem ég segi nokkuð hryggur, finnst mér sem Grænlendingum sé ekki sami sómi sýndur og Færeyingum þegar horft er til þeirrar staðreyndar að búið er að ganga frá málinu við Færeyjar en það er alls óvíst um lyktirnar á þessari tegund samskipta okkar við Grænland. Það kom fram hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni áðan að hann hefur engar spurnir af því sem fulltrúi meiri hluta ríkisstjórnarinnar í þessum sölum hvenær gera megi ráð fyrir að ræðismannsskrifstofa verði sett upp á Grænlandi. Það kann að helgast af því að óvíst er um tök þeirra til að gera slíkt hið sama hér heima, þeir eru smærri, þeir hafa úr minna fjármagni að spila en ég tel að við þurfum ekkert að bíða eftir þeirri tegund gagnkvæmra samskipta. Við eigum að gera þetta jafnvel þótt Grænlendingar séu ekki til reiðu til að svara því með sama hætti strax.