133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[17:16]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi varðandi ákvæði stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi í 75. gr. og jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar er nauðsynlegt að hv. þingmaður upplýsi þingheim um það hvort hann telji að frumvarpsgreinin eins og hún er nú leiði til þess að þessar greinar verði upphafnar, þ.e. að frumvarpsgreinin og væntanlega 79. gr. stjórnarskrárinnar verði þá rétthærri en 65. og 75. gr. og réttindi manna njóti ekki lengur verndar samkvæmt þeim greinum.

Í öðru lagi, hæstv. forseti, svaraði hv. þingmaður ekki þeim spurningum sem ég beindi til hans áðan. Ætlar Vinstri hreyfingin – grænt framboð að leggjast gegn stjórnarskrárbreytingum á þessu þingi? Ætlar Vinstri hreyfingin – grænt framboð að leggjast á sveif með Landssambandi íslenskra útvegsmanna og ætlar Vinstri hreyfingin – grænt framboð að leggjast á sveif með Sambandi ungra sjálfstæðismanna og koma í veg fyrir afgreiðslu þessa máls hér á þinginu? Eða ætla menn að reyna að ræða þetta mál málefnalega og komast að sameiginlegri niðurstöðu með stjórnarflokkunum í umræðum hér á þinginu og í vinnu sérnefndar um stjórnarskrármál?