133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[18:43]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil að það komi skýrt fram að það sem fyrir mér vakir er að löggjafinn hafi heimildir til þess, algerlega skýrar og fortakslausar, ef sú staða kæmi upp í framtíðinni að hann kysi að gera það sem hv. þingmaður lagði mér í munn.

Hitt er alveg rétt, að ég vil gjarnan fara þá leið, eins og margoft hefur komið fram, að veiðiheimildir verði innkallaðar í áföngum, t.d. yfir nokkurra áratuga skeið. Ég vil upplýsa hv. þingmann um að þá skoðun er að finna líka víða í Sjálfstæðisflokknum.

Fyrst menn eru að rifja upp störfin stjórnarskrárnefndar er rétt að það komi alveg skýrt fram að það var bara Sjálfstæðisflokkurinn sem lagðist gegn því að þetta mál yrði afgreitt. Það er hægt að lesa það í fundargerðum stjórnarskrárnefndar á vefnum að formaður nefndarinnar kallaði eftir því hvort samstaða væri um að leggja fram ákvæði um þjóðareign. Það er bara einn flokkur sem lagðist gegn því. Það var Sjálfstæðisflokkurinn og garmurinn hann Ketill fylgdi á eftir því hann þorði ekki að standa í lappirnar. (Forseti hringir.) Kannski man hann ekki lengur hvernig á að gera það því að það er svo langt síðan (Forseti hringir.) hann gerði það síðast.