133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:55]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér afar athyglisvert frumvarp frá tveimur hæstv. ráðherrum, þ.e. forsætisráðherra og iðnaðarráðherra, formanni Sjálfstæðisflokksins og formanni Framsóknarflokksins, frumvarp sem blaðamenn Fréttablaðsins í morgun segja að einungis 29% aðspurðra í skoðanakönnun telji að Alþingi hafi nægan tíma til að afgreiða áður en þing verður rofið. (KHG: Það eru jafnmargir og bera virðingu fyrir þinginu.) Já, það eru jafnmargir og bera virðingu fyrir þinginu, segir hv. Kristinn H. Gunnarsson. Það er spurning hvort þetta séu sömu 29 prósentin, við skulum nú láta það liggja milli hluta. Það segir reyndar líka á forsíðu Fréttablaðsins í dag að meiri hluti stuðningsfólks allra flokka utan Framsóknarflokksins telji að Alþingi hafi ekki nægan tíma fyrir þingslit til að afgreiða þetta frumvarp hæstvirtra ráðherra. Það má eflaust leggja út af þessu á ýmsa lund. Sannleikurinn er auðvitað sá að hér er um umdeilt mál að ræða, mál sem verðskuldar mikla vinnu og mikla umræðu og fær langa umræðu í þinginu í dag eins og eðlilegt hlýtur að teljast.

Það rifjast upp fyrir mér, virðulegi forseti, að ég var á fundi þann 1. mars sl. hjá Verkfræðingafélagi Íslands og Tæknifræðingafélagi Íslands þar sem fjallað var um nýtingu náttúruauðlinda. Þar kom fram í máli fleiri en eins fyrirlesara að umfram allt þyrfti að fara með gát þegar íhugaðar væru grundvallarbreytingar á nýtingu náttúruauðlinda okkar. Þó að téður fundur hafi fyrst og fremst fjallað um nýtingu þeirra auðlinda sem eru fallnar til orkuvinnslu, þ.e. vatnsafls og jarðvarma, fundust mér skilaboð fyrirlesaranna afar skýr og almenn og þau voru öðru fremur þessi: Þegar taka á ákvörðun um stefnu til framtíðar um nýtingu takmarkaðra auðlinda er nauðsynlegt að gefa sér þann tíma sem þarf. Óðagot, einkum stjórnmálamanna, getur hæglega skaðað hagsmuni þjóðarinnar þegar til langs tíma er litið. Þetta eru mikilvæg skilaboð sem ég tel eðlilegt að bera inn í þennan sal í þessari umræðu og þetta er allt mikilvægt í ljósi þessa máls og þess hvernig það ber að.

Þann 4. janúar 2005 tilkynnti forsætisráðuneytið um skipan nefndar sem ætlað var það hlutverk að gera tillögu um breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Í skipunarbréfi þeirrar nefndar kom m.a. fram að endurskoðunin yrði einkum bundin við I., II. og V. kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem tengjast sérstaklega ákvæðum þessara þriggja kafla. Talað var um að stefnt yrði að því að frumvarp til breytinga á stjórnarskránni mundi liggja fyrir, eins og segir í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu þann 4. janúar, með leyfi forseta:

„… svo tímanlega að unnt verði að samþykkja það á Alþingi fyrir næstu reglulegu alþingiskosningar sem fram eiga að fara vorið 2007. Báðum nefndum“ — þ.e. sem skipaðar voru, sérfræðinganefndinni og þingmannanefndinni — „er ætlað að hefja störf sín hið fyrsta og ljúka störfum ekki síðar en í byrjun árs 2007.“

Það gekk eftir eins og hæstv. forseti, sem nú situr á forsetastóli, veit mætavel því að það var undir hans stjórn sem þessi nefnd starfaði. Eftir mikið starf sem ég efa ekki að hafi verið unnið af alúð og mikilli samviskusemi — meira að segja iðkaði nefndin þau fyrirmyndarvinnubrögð að allt það starf sem þar var unnið, fundargerðir og gögn sem lögð voru fram, var aðgengilegt á sérstakri heimasíðu nefndarinnar og var allt opið fyrir áhugasama sem gátu fylgst með framvindu starfsins og lagt sitt til málanna og gert athugasemdir og komið skilaboðum til nefndarinnar — lauk hún störfum þann 19. febrúar sl.

Hvernig lauk hún störfum? Jú, eins og hæstv. forseti veit, skilaði hún áfangaskýrslu þar sem gefið var yfirlit yfir starfið undanfarin tvö ár og í þeirri áfangaskýrslu, sem er afar athyglisverð ásamt með fylgigögnum, kemur fram að nefndin telji sig þurfa lengri tíma til að ljúka þeirri heildarendurskoðun sem að var stefnt. Samt sem áður lagði nefndin til eina yfirvegaða tillögu sem var það eina sem nefndin náði endanlegri sátt um, þ.e. tillögu sem fól það í sér að breyta ætti 79. gr. stjórnarskrárinnar, og nefndin lagði fram frumvarp eða uppkast eða drög að frumvarpi í því skyni að þessari 79. gr. yrði breytt.

Um hvað fjallar 79. gr. stjórnarskrárinnar, hæstv. forseti? Hún fjallar um þjóðaratkvæðagreiðslur og hvernig breyta eigi stjórnarskrá Íslendinga, stjórnarskrá lýðveldisins.

Í henni segir, með leyfi forseta:

„Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.

Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.“

Svona hljóðar, hæstv. forseti, núverandi 79. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Stjórnarskrárnefndin lagði til að þessari grein yrði breytt. Nefndin segir í tilkynningu sem gefin var út eftir miðjan febrúar sl. að ef sú breyting sem hún lagði til næði að fá samþykki Alþingis yrði um leið lagður grunnur að því að bera megi endurskoðaða stjórnarskrá undir þjóðaratkvæði og að endurskoðuð stjórnarskrá mundi þá öðlast ótvíræðari lýðræðislega staðfestingu en raunin yrði ef hún væri afgreidd með núgildandi hætti.

Eins og hæstv. forseti veit hefur þetta frumvarp ekki litið dagsins ljós í þingsölum og ég verð að segja að ég er furðu lostin yfir því að hæstv. ráðherrar sem flytja það frumvarp sem hér er til umfjöllunar skuli leyfa sér að sniðganga vilja þessarar nefndar sem starfaði í tvö ár af heilindum og einlægni, skilaði niðurstöðu, og ég spyr: Hvar er hugmynd nefndarinnar? Hvar er frumvarp sem byggir á tillögu nefndarinnar? Af hverju erum við ekki að ræða það hér?

Mér þykir það í hæsta máta undarlegt að sniðgengið skuli það samráð sem mér finnst vera til fyrirmyndar og var staðið vel að og við stóðum öll á bak við og í stað þess að fara að þeirri tillögu sem nefndin komst að niðurstöðu um ræðum við hér einhverja tillögu frá hæstv. ráðherrum Geir H. Haarde og Jóni Sigurðssyni um að náttúruauðlindir Íslands skuli vera í þjóðareign, þó þannig að gætt sé réttinda einstaklinga og lögaðila samkvæmt 72. gr. Sömuleiðis að nýta eigi þessar náttúruauðlindir okkar til hagsbóta þjóðinni eftir því sem nánar væri kveðið á um í lögum og að þetta skuli ekki vera því til fyrirstöðu, segir í greininni, að einkaaðilum séu veittar heimildir til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum samkvæmt lögum.

Þetta á ekkert skylt við niðurstöðuna sem téð stjórnarskrárnefnd náði í vinnu sinni. Hins vegar vann stjórnarskrárnefndin mjög mikið í því að skoða nákvæmlega ákvæðið sem lýtur að þjóðareign náttúruauðlinda og hvað segir um það í niðurstöðum og fundargerðum nefndarinnar? Við skulum fletta því upp, hæstv. forseti.

Í sérfræðinganefndinni sem starfaði með þingmannanefndinni áttu sæti Eiríkur Tómasson lagaprófessor, Kristján Andri Stefánsson lögfræðingur, Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, og Björg Thorarensen lagaprófessor. Björg Thorarensen lagaprófessor átti einnig sæti í þeim vinnuhópi nefndarinnar sem fjallaði um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál. Þegar lesnar eru þær fjórar fundargerðir þessa vinnuhóps sem aðgengilegar eru á áðurnefndri heimasíðu kemur í ljós að menn veltu þar fyrir sér á afar yfirvegaðan hátt með hvaða hætti setja mætti ákvæði sem væri almenns eðlis, næði til allra náttúruauðlinda okkar og tryggði að þær yrðu sameign þjóðarinnar. Af hverju fylgja hæstv. ráðherrar ekki forskriftinni sem vinnuhópurinn komst að niðurstöðu um og Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands, bjó í tillöguform í þeirri vinnu? Þessari spurningu hefur ekki verið svarað við þessa umræðu. Það hlýtur að vera krafa okkar sem sitjum á löggjafarsamkundunni og krafa þjóðarinnar að fá svör um það frá hæstv. ráðherrum hvers vegna ekki var tekinn útgangspunktur í þeirri vinnu sem stjórnarskrárnefndin innti af hendi.

Það er athyglisvert að skoða hvað það var sem vinnuhópurinn um auðlinda-, umhverfis- og mannréttindamál skoðaði fyrst og fremst. Hann skoðaði m.a. breytingu á norsku stjórnarskránni og finnsku stjórnarskránni og ræddi í því sambandi við sérfræðing á borð við Aðalheiði Jóhannsdóttur lagaprófessor, sérfræðing í umhverfisrétti, en hún taldi og hefur vikið að því í greinum, m.a. greinum sem við höfum verið að skoða í umhverfisnefnd Alþingis síðustu daga, að það væri eðlilegt að taka tillit til þriggja meginþátta þegar þessi mál væru skoðuð og þessa þrjá meginþætti hafa hæstv. ráðherrar, þessir herramenn sem leggja fram þetta frumvarp, algerlega sniðgengið. Þeir hafa kosið að sniðganga ráðleggingar sérfræðinganna sem gengu út á það að megináherslan yrði lögð á þátttökuréttindi almennings, rétt manna til þess að hafa áhrif á ákvarðanir sem vörðuðu umhverfi, í öðru lagi á regluna um sjálfbæra þróun, í þriðja lagi tilvísun í líffræðilega fjölbreytni og samninginn sem við höfum undirgengist og höfum fengið ákúrur fyrir að hafa ekki leitt í lög, samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika.

Í þessu sambandi var bent á í nefndinni að hugtakið „sjálfbær þróun“ væri nokkurs konar yfirhugtak sem væri rétt að telja sem meginmarkmið en á eftir kæmu hin tvö. Síðan yrði inntak hugtakanna, sem er mjög víðtækt, skýrt nánar í greinargerð. Sömuleiðis var lögð áhersla á það í vinnu nefndarinnar að framsetning umhverfisákvæðis í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hlyti að að felast í því að lýsa þessum markmiðum, þessum yfirmarkmiðum, en jafnframt yrði þá tilgreint í stjórnarskrárákvæðinu að nánar væri hægt að mæla fyrir um þessi ákvæði í sérstökum lögum.

Það eru mér mikil vonbrigði, hæstv. forseti, þegar við fáum inn á okkar borð frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem varða þessi grundvallaratriði, sem eru mér og samþingmönnum mínum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði mikið hjartans mál og ríma við stefnuyfirlýsingu flokks okkar, að um þau skuli vélað með þeim hætti sem raun ber vitni. Hér er eitthvert orðalag í tillögugreininni, sem hæstv. ráðherrar gera ráð fyrir að verði 79. gr., sem virðist vera almenns eðlis og virðist eiga við um þá þætti sem sérfræðingar í stjórnarskrárnefndinni fjölluðu um en svo þegar greinargerðin er lesin er hún öll meira og minna sértæk og á að því er virðist eingöngu við sjávarauðlind okkar.

Hvað segir svo sérfræðingurinn Björg Thorarensen lagaprófessor í fjölmiðlum þegar hún er spurð hvernig henni lítist á þetta frumvarp. Hæstv. forseti, ég tel ástæðu til að líta í gagnasafn Morgunblaðsins. Í innlendum fréttum Morgunblaðsins frá því á laugardaginn var er rætt við téða Björgu Thorarensen og sú er ástæðan fyrir því að ég vitna til orða hennar hér að ég er þeim hjartanlega sammála og mér þykir rétt að styðja sjónarmið mín með skoðunum prófessorsins og orðum hennar. Hún segir að sér finnist ákvæðið fyrst og fremst óskýrt og að það svari engum spurningum. Við skulum hafa það í huga að hér talar lagaprófessor sem starfaði í sérfræðinganefndinni sem starfaði með stjórnarskrárnefndinni sem við skipuðum í febrúar 2005. Hún segir að þetta sé dæmigert um skort á að tekin sé skýr pólitísk ákvörðun um innihald ákvæðisins og síðan eigi að leysa úr álitaefnum að því er virðist þegar ágreiningur kemur upp. Hún segir að það beri ekki með sér gott skipulag við samningu stjórnarskrárákvæðisins. Spurð hvort og þá hvaða réttaráhrif ákvæðið geti haft, segir hún ómögulegt að segja til um það, og ég vil vitna beint í prófessorinn, með leyfi forseta:

„Eftir því sem mér skilst er markmiðið að styrkja þá reglu sem kemur fram í lögunum um stjórn fiskveiða og kannski að girða fyrir að þróunin verði sú að einstaklingseignarréttur stofnist á auðlindunum með sérstöku tilliti til sjávarauðlindanna.“

Hverju svara hæstv. flutningsmenn prófessornum að þessu leyti? Ætlast þeir kannski til að ákvæðið girði fyrir að þróunin verði sú að einstaklingseignarréttur stofnist á auðlindunum með sérstöku tilliti til sjávarauðlindanna? Eða hverju svara þeir því sem prófessorinn segir í áframhaldi? Með leyfi forseta:

„Þetta er almennt ákvæði en skýringarnar við það eru að langmestu leyti bundnar við sjávarútveginn og fiskveiðistjórnarlögin. Það er dálítið ankannalegt í ljósi þess hversu ákvæðið er víðtækt, að lítið sem ekkert er lagt út af ýmsum öðrum náttúruauðlindum en fiskveiðiauðlindinni, sem nýtur ákveðinnar sérstöðu. Ég er þeirrar skoðunar að það þyrfti að ígrunda þetta betur.“ — Segir prófessor Björg Thorarensen.

Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, tek ég undir þessi orð hennar og bendi á að annar prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands, Ragnhildur Helgadóttir, tekur í sömu frétt í Morgunblaðinu, 10. mars 2007, í nákvæmlega sama streng. Ragnhildur segist hafa áhyggjur af mjög sérsniðnum ákvæðum í stjórnarskrá sem séu þó almennt orðuð og hún segir orðrétt:

„Hvaða áhrif hefur ákvæðið á aðrar auðlindir? Þegar þetta er gert með svona miklum hraða vekur það áhyggjur af því að menn hafi ekki hugsað fyrir afleiðingum þess að þetta gildir almennt.“

Þar með er ég aftur komin að því sem ég byrjaði á í ræðu minni, hæstv. forseti — mér finnst hafa liðið ótæpilega á ræðutíma minn en ég treysti því samt að klukkan hér hafi gengið á eðlilegum hraða — þ.e. ég nefndi óðagotið. Mér finnst hæstv. ráðherrar hafa gerst sekir um flaustur og óðagot og mér finnst ekki verra að geta þeim orðum mínum til stuðnings vitnað til orða þeirra prófessora sem hér var vitnað í, prófessors Bjargar Thorarensen sem þekkir málið inn og út af því að hún tók virkan þátt í vinnu stjórnarskrárnefndarinnar sem skipuð var, stjórnarskrárnefndarinnar sem við öll hér, eftir því sem ég best veit, bundum miklar vonir við að næði einhverri niðurstöðu sem sátt gæti orðið um. Sú litla niðurstaða sem hún náði er síðan eitthvað sem þessir hæstv. ráðherrar hafa vísað út af borðinu.

Mér sýnist hæstv. ráðherrar hafa steypt öllu á stél og ákveðið að sniðganga þá tillögu sem þó náðist sátt um, hafi ákveðið að sniðganga líka þær ráðleggingar og leiðbeiningar sem urðu til hjá stjórnarskrárnefndinni um nákvæmlega þessa þætti sem þeir virðast þó vera að tala um í greininni sinni. Ég vil ljúka máli mínu á því að minna þessa hæstv. ráðherra á hvað þetta er víðtækt ákvæði. Ef orðanna hljóðan er lesin og engin greinargerð fylgdi þá er þetta ákvæði sem fjallar um náttúruauðlindir sem eru ekki bara lífríkið í hafinu, vatnsföllin, jarðhitann og efnanámur, eins og kannski virðist í fljótu bragði, því að í auðlindaskýrslunni frá árinu 2000 skýrir Geir Oddsson, í sinni merku greinargerð sem birt er með þeirri skýrslu, þær þannig að í raun megi skilgreina alla náttúruna, jarðveginn, plönturnar, dýrin, andrúmsloftið, sólina og vatnið sem mögulega náttúruauðlind. Geir segir að almennt megi segja að hlutar náttúrunnar verði ekki að náttúruauðlind fyrr en þeir gegna einhverju skilgreindu hlutverki í efnahagsstarfsemi mannlegs samfélags eða í neyslu einstaklinga. Þannig geta náttúruauðlindir orðið til við nýja notkun á náttúrunni, snjór er t.d. náttúruauðlind, segir Geir Oddsson, í augum þeirra sem reka skíðasvæði. Náttúruauðlindir geta á sama hátt horfið eins og gúanó á eyjum undan strönd Suður-Ameríku.

Ég spyr hæstvirta ráðherra: Heyrir snjórinn til því ákvæði sem hér er lagt til að verði samþykkt, þeirri breytingu sem hæstv. ráðherrar leggja til að gerð verði á núgildandi 79. gr. stjórnarskrárinnar sem reyndar er gert ráð fyrir að verði sú 80?

Eins og ég sagði finnst mér þetta vera óðagot og mér þykir það mjög miður því að hér er verið að fjalla um afar víðtækt og mikilvægt (Forseti hringir.) mál sem ég held að þjóðin verðskuldi að fái betri umfjöllun um en hér virðist eiga að fást.