133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[14:52]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er auðvitað hægt að sýna fordæmi hér á landi og það hefur verið gert. Hv. þingmaður þarf ekkert að hafa áhyggjur af því, án þess að ég ætli að fara út í líkingamál hennar að þessu sinni, að Sjálfstæðisflokkurinn standi ekki við stefnu sína eða þau mál sem hann ber fyrir brjósti. Ég ætla að leyfa mér að nefna þó ekki væri nema eitt dæmi um þetta og það er sú stefna sem mótuð hefur verið hjá Orkuveitunni undir forustu sjálfstæðismanna þar sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður umhverfisnefndar, er stjórnarformaður. Þar hefur verið mótuð stefna um notkun vistvænna bifreiða með mælanlegum markmiðum næstu árin. Ég vil vekja athygli á því að sú stefna var ekki mótuð þegar vinstri græn voru í meiri hlutanum í borgarstjórn. Þetta er stefna sem mótuð var þegar sjálfstæðismenn voru komnir þar í forustu. (KolH: Þetta er rangt.)