133. löggjafarþing — 87. fundur,  13. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[16:10]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Það eru nokkur atriði í því sem mig langar rétt að minnast á auk þess að kíkja aðeins á umsögn sem okkur þingmönnum hefur nú þegar borist um þetta mál.

Mér finnst það frumvarp sem hér hefur verið lagt fram mjög jákvætt þar sem talað er um að lækka vörugjöld af bílum sem nota metangas að verulegu leyti í staðinn fyrir bensín eða olíu en lagt er til að þessar bifreiðar verði undanþegnar vörugjaldi tímabundið til ársloka 2008. Að vísu hefur verið talað um það í umræðunni að í framtíðinni eigi síðan að koma með heildarstefnumótun en að setja þarna einungis eitt og hálft ár hlýtur að vera svolítið spurningarmerki fyrir þá sem hafa áhuga á að kaupa metangasbifreiðar.

Það hefur komið fram hér að metangas er einungis selt á einni dælustöð á höfuðborgarsvæðinu þannig að landsbyggðin hefur í sjálfu sér ekki kost á að nýta það, a.m.k. ekki dags daglega. Eins og segir í umsögn eru u.þ.b. 50 bifreiðar hér á landi í dag sem ganga fyrir metangasi. Það vekur athygli mína að þar sem frumvarpið gengur út á það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda skuli það ekki ná til svokallaðra tvinnbíla, þ.e. bíla sem ganga bæði fyrir bensíni og rafmagni. En hvað varðar tvinnbílana þá höfum við þingmenn þegar fengið eina umsögn um frumvarpið frá bifreiðaumboði sem selur slíka bíla, Toyota. Þar er komin áralöng góð reynsla af notkun þessara bifreiða og hefur umboðið nú þegar selt yfir 160 eintök. Mig langar að vitna aðeins í þessa umsögn frá bifreiðaumboðinu en þar segir, með leyfi forseta, um þetta frumvarp:

„Frumvarpið kveður m.a. á um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum á metan- og vetnisbílum. Núverandi aðstæður á markaðnum leyfa eingöngu áfyllingu þessara orkugjafa á höfuðborgarsvæðinu. Þarna er augljóslega um mismunun milli byggðarlaga að ræða, þ.e. að eingöngu íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga þess kost að njóta þessarar niðurfellingar í bílakaupum sínum.

Fjöldi metan- og vetnisbíla sem fáanlegir eru til sölu til neytenda er takmarkaður. Áhrif þessara aðgerða stjórnvalda í átt að fjölgun umhverfisvænni bifreiða með hjálp niðurfellingar aðflutningsgjalda eru því einnig dæmd til að verða takmarkaðri en ella. Tvinnbílar ganga bæði fyrir bensíni og rafmagni sem gerir neytendum það kleift að keyra á umhverfisvænni hátt en almennt gerist með hefðbundna bensín- og dísilbíla óháð búsetu. Þá gerir hönnun þeirra einnig ráð fyrir sem bestri nýtingu hins vistvæna tvinnkerfis í borgarakstri. Tvinnbílar ættu því tvímælalaust að njóta sömu niðurfellingar og aðrir bílar í þessu frumvarpi.“

Ég geri þessi orð að mínum, frú forseti, og skora á hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar að taka þessar ábendingar með í umræðuna í nefndinni um þetta frumvarp.