133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[12:54]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er rangt hjá hæstv. ráðherra að samstaða hafi verið milli bænda og ráðherra. Ég las upp bréf sem sýndi að ráðherra hefði, að mati bréfritara, ekki staðið við þá samninga sem þeir töldu sig vera með í höndum. Hann hefði verið beittur öðrum þrýstingi til að standa ekki við hann. Ég treysti alveg orðum þeirra bænda sem sendu þetta bréf inn. Þó að ég ætli ekki að bera brigður á orð hæstv. landbúnaðarráðherra þá treysti ég alveg orðum þeirra bænda sem rituðu undir þetta bréf. Ég skal bara segja það við hæstv. landbúnaðarráðherra og vil ekki taka undir að þeir séu að fara með ósannindi, ég geri það ekki.

Ráðherra talar um WTO-samninga. Þeir eru ekki í hendi og ekkert séð hver framvindan verður í því. Það er nú heldur slöpp röksemd hjá hæstv. ráðherra. Hagsmunir íslenskra bænda fara saman við hagsmuni bænda um allan heim, og hagsmunir íslenskrar landbúnaðarframleiðslu. Það skulum við hafa í huga.

Varðandi það að hæstv. ráðherra þurfi ekki aðkomu annarra aðila en sjálfs síns við að gera samninga við bændur vil ég benda á að hann er ekki almáttugur. Ég veit ekki betur en að mjög öflugur stuðningur hafi borist frá samtökum BSRB og frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem ályktaði þegar hæstv. landbúnaðarráðherra stóð hér upp í loft (Gripið fram í.) út af samningi um hið háa matvælaverð, sem nefnd er starfaði á vegum fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins, Halldórs Ásgrímssonar, sem var óþarfari landbúnaðinum en margur annar — þá var stuðningur þessara aðila, þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og BSRB, mjög mikilvægur. (Forseti hringir.) Ég held að landbúnaðurinn hafi virkilega notið þess og einnig málflutningur hæstv. ráðherra.