133. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[12:57]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil út af útflutningsskyldunni segja að þegar í ljós kom — ég ætla ekki að bera upp á þessa menn að þeir séu ósannindamenn, þeir mátu það sennilega svo að lagabreytingin yrði haustið 2008. Ég hringdi í Jóhannes Sigfússon, Harald Benediktsson og Gunnar Sæmundsson í Hrútatungu og skýrði þeim frá því að óhjákvæmilegt væri af lagatæknilegum ástæðum og ýmsum öðrum ástæðum að hafa þetta sólarlagsákvæði í samningnum sem um hefði verið samið til þess að þurfa ekki að taka búvörulögin upp haustið 2008. Ég skýrði þeim öllum frá því og að allt sem ég hef hér sagt yrði staðið við og kæmi þar fram. Um þetta var samið, 300 milljónir sem koma strax til framkvæmda árið 2008 þó að útflutningsskyldan sé þá á en svo fer hún út 2009.

Þeir hafa kannski metið þetta öðruvísi en þeir vita að ríkisvaldið stendur við allt sitt. Ég sé að nöfn þeirra Jóhannesar Sigfússonar og Haraldar Benediktssonar eru ekki á þessu blaði.

Ég er sannfærður um að hér er mjög góður samningur. Hv. þingmaður segir að WTO-samningar séu ekki í hendi, það er hárrétt, þeir eru enn ekki í hendi en menn eru að undirbúa sig undir það. Það er talið mjög mikilvægt í svona samningum að búgreinin sjálf nálgist markaðinn og haldi sjálf utan um sín mál, allar búgreinar haldi sjálfar utan um sín mál, að vald ráðherra samkvæmt lögum sé ekki að grípa inn í, gera þetta eða hitt til að koma kjöti á markaðinn. Bændurnir búa sig sjálfir undir það, hvað vilja þeir flytja út, hvernig og hvaða verð þeir fá. Þeir bera ábyrgð á því.

Þetta þykir eðlilegt og nú hafa sauðfjárbændur landsins samþykkt þessa samninga 90%. Engu að síður blasir hér við stórt tóm, hv. þingmaður hefur ekki svarað því að ef svo ólíklega vildi til að hann yrði landbúnaðarráðherra, hvernig hann ætli að standa að samningagerð. Ætlar hann að hafa alls konar fólk í þeim samningum, (Gripið fram í.) ekki virða bændurna eins og við gerum nú við þessa samningagerð?