133. löggjafarþing — 90. fundur,  15. mars 2007.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

669. mál
[21:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um frumvarp til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sem lýtur að þeim sauðfjársamningi sem gerður hefur verið milli sauðfjárbænda og ríkisins.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðjum öflugan landbúnað hér á landi og að um hann sé staðinn vörður. Reynt sé að tryggja eftir fremsta megni starfsskilyrði og öryggi greinarinnar, bæði hvað varðar framleiðendur og ekki síst hagsmuni neytenda í þeim efnum.

Það hefur sýnt sig í nýgerðri skoðanakönnun sem gerð var af Gallup að yfir 90% þjóðarinnar vill öflugan landbúnað og að sterk, holl og góð landbúnaðarframleiðsla sé hér á boðstólum. Sá samningur sem hér um ræðir hefur það að markmiði, en þó vil ég taka fram að samningurinn er gerður af ríkisstjórninni og við þingmenn og þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum ekki átt aðkomu að þeim samningi öðruvísi en hér í umræðunum. Ýmislegt þar mundum við hafa haft öðruvísi hefðum við fengið að ráða þó svo að við styðjum markmið samningsins í heild sinni.

Ég leyfi mér að vísa til þingmála sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa flutt á Alþingi um landbúnaðarmál og áherslur þeirra í þeim efnum — sem við munum þá taka inn í stefnumörkun okkar og vinnu á seinni stigum þegar hér hefur verið skipt um ríkisstjórn.

Eitt atriði er þó sem við getum ekki fellt okkur við. Það er að ekki skuli hafa verið staðið við fyrirheit sem Bændasamtökunum og samtökum sauðfjárbænda voru gefin um að áfram yrði haldið inni heimild fyrir ráðherra að hafa útflutningsskyldu á kjöti. Þetta var loforð sem bændum var gefið. Við flytjum því breytingartillögu um það við þessa afgreiðslu.

Frú forseti. Við þingmenn í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum samninginn í heild sinni með þeim fyrirvörum sem ég hef gert grein fyrir.