133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

vegalög.

437. mál
[15:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Frumvarp til vegalaga kemur nú til 2. umr. og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur greint frá því að ég sem áheyrnarfulltrúi í samgöngunefnd gat ekki stutt álitið.

Það eru tvö meginatriði sem ég get ekki stutt. Annars vegar það sem fram kemur í 4. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að Vegagerðin skuli við framkvæmd vegamála leitast við að bjóða út alla hönnun, nýbyggingar, viðhald, þjónustu og eftirlit. Ég get ekki stutt þetta. Með þessari grein er verið að vega að starfsemi Vegagerðarinnar um allt land, útibúum hennar á Ísafirði, á Hólmavík, á öllum þeim stöðum þar sem hún hefur útibú og þykir sumum nóg að gert í að hagræða og einkavæða burt þau verkefni sem þessar deildir hafa haft með höndum.

Ef þetta frumvarp yrði að lögum óbreytt mundi það ekki bara þýða að Vegagerðinni bæri að gera það heldur væri henni skylt að einkavæða verkefnin út frá þessum stöðvum. Er nú ekki nóg að gert við að einkavæða opinber störf frá Vegagerðinni á Ísafirði, frá Vegagerðinni á Hólmavík og svo hringinn í kringum landið? Er ekki nóg að gert þó að við séum ekki að samþykkja lög sem skylda Vegagerðina til að einkavæða þessi störf út og burt?

Þetta er eitt atriðið sem ég gat ekki stutt. Reyndar skal ég taka fram að ég á von á því að fyrir 3. umr. komi breytingartillaga sem fellir þessa grein burt. Ég á von á því að menn hafi séð að sér, að þarna væri verið að fara fullkomlega gegn hagsmunum íbúa hinna dreifðu byggða og reyndar Vegagerðarinnar sem slíkrar. Þetta var ástæðan. Svona fór málið út úr nefnd og ég gat þess vegna ekki stutt það.

Hitt atriðið sem ég gat heldur ekki stutt var það sem kveðið er á um bæði í 14. gr. og 17. gr. sem var heimildin til að þess að einkavæða einstaka vegi. Einkavæða uppbyggingu og viðhald á vegum, fela það fyrirtækjum eða öðrum slíkum og ráðherra í rauninni og vegamálastjóra gefið frjálst val í þeim efnum. Ég get ekki heldur stutt það. Síðan í 17. þar sem verið er að heimila einkaaðilum, félögum og fyrirtækjum mjög rúm ákvæði til gjaldtöku, opna heimild til mjög rúmra ákvæða til gjaldtöku af umferð. Ég get ekki stutt það. Þjóðvegirnir eiga að vera sameign þjóðarinnar. Við eigum að hafa manndóm til að byggja þá upp með þeim hætti og gjaldtaka á ekki að vera sú leið sem við veljum til að fjármagna byggingu og rekstur þjóðvega.

Þetta eru þau meginatriði sem ég set út á í frumvarpinu og þess vegna gat ég ekki stutt það. En ég vil taka fram að ég vænti þess að á milli 2. og 3. umr. komi breytingartillögur frá meiri hlutanum sem lúta að þessu atriði einnig og gera það í nokkru aðgengilegra.

Ég fagna þeim atriðum sem hér koma inn þó að í litlu sé, um hjólreiðastíga og rétt þeirra í samgöngukerfinu þannig að þeir eru viðurkenndir sem hluti af því. Í öðru lagi vil ég líka fagna því að hér komið inn baráttumál Vinstri grænna. Hv. þm. Þuríður Backman hefur flutt ítrekað tillögur á Alþingi um að undirgöng komi undir vegi sem víðast til að hægt sé að koma búfé á milli svæða þegar vegurinn sker slík lönd. Hér er komið ákvæði um að það skuli nú vera hluti hinnar skipulögðu vegagerðar.

Fleiri atriði í þessu frumvarpi til vegalaga eru ágæt og alveg hægt að styðja. En þau meginatriði sem ég nefndi, annars vegar einkavæðingin og hins vegar skyldan á Vegagerðina að bjóða út og rústa starfsemi útibúa hennar, hvort heldur það er á Ísafirði, Hólmavík eða annars staðar, eru alveg afleit og ég gat ekki stutt þau. En vonandi fáum við breytingartillögur sem leiðrétta þetta, frú forseti.