133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[18:49]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til atkvæða núna er eitt af stóru átakamálum samtímans. Hæstv. ríkisstjórn hefur sett sér markmið í losunarmálum og hefur kynnt þau, gerði það núna í febrúar, nýjustu endurnýjun á stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og þar eru sett markmið sem gefa það til kynna að þessi ríkisstjórn ætli sér að draga umtalsvert úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og alla þessa öld.

Þessarar stefnu sér hins vegar engan stað í því frumvarpi sem hér kemur til atkvæða. Þvert á móti ætlar ríkisstjórnin að auka gríðarlega losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðju á þeim tíma sem var til fyrsta skuldbindingartímabils Kyoto-bókunarinnar varið. Ofan í kaupið fékk íslenska ríkisstjórnin heimild til að bæta við almenna losun 10% miðað við viðmiðunina árið 1990 þegar samið var í Kyoto. Íslenska ríkisstjórnin er hér ekki bara að hlaupast undan merkjum alþjóðasamfélagsins sem skuldbatt sig samkvæmt loftslagssamningnum að draga úr losun heldur er hún einnig að hlaupast undan eigin merkjum, þeim sem hún hefur reist í loftslagsstefnu sinni sem er nýkynnt.

Eins og hv. þm. Mörður Árnason gat um er enn tækifæri til að iðrast og breyta um kúrs í þessum málum. Það verður best gert með því að greiða atkvæði þeim breytingartillögum sem við í stjórnarandstöðunni, hv. þm. Mörður Árnason, við vinstri græn og samfylkingarþingmennirnir flytjum hér. Ég hvet hv. þingmenn til að skoða nú hug sinn um það hvort þeir ætli að leggjast á sveif með alþjóðasamfélaginu, með þeim sem lengst vilja ganga í þessum efnum, þ.e. til að vinna gegn hlýnun loftslagsins og neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga, hér er tækifærið.