134. löggjafarþing — 1. fundur,  31. maí 2007.

kosning í fastanefndir skv. 13. gr. þingskapa.

[15:59]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég tek undir hamingjuóskir til forseta með kjörið. Ég vil síðan í tilefni af því að beðið hefur verið um þessi afbrigði taka fram að það er fullkomlega eðlilegt að standa svona að málum þegar fyrir liggur að nú á að breyta málefnum Stjórnarráðsins og þar af leiðandi að breyta líka þingsköpum Alþingis. Þessi frumvörp hafa verið samþykkt í þingflokkum stjórnarflokkanna og verður væntanlega dreift á Alþingi í dag þannig að ég tel þetta fullkomlega eðlilega málsmeðferð.

Þingnefndir eru kjörnar fyrir allt kjörtímabilið í einu en þegar fyrir liggur að innan mjög skamms tíma verður væntanlega samþykkt frumvarp um þingsköp og um breytingu á nefndum Alþingis þá er eðlilegt að bíða eftir því. Sú töf er eingöngu á meðan þetta frumvarp er afgreitt á Alþingi. Það þarf ekki að taka mjög langan tíma og þess vegna er eðlilegt að staðið verði svona að málum. Ef upp kemur að nauðsynlegt sé að þessar nefndir starfi er auðvitað eðlilegt að kjósa til þeirra en engin sérstök nauðsyn kallar á að gera það núna og því eðlilegt að hafa þetta allt í samhengi.

Ég legg til, hæstv. forseti, að við samþykkjum þessi afbrigði.