134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:15]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða um breytingar á lögum um Stjórnarráðið og aðalröksemdafærslan fyrir þessu máli er að reyna að efla Stjórnarráðið. Að mínu mati hefði verið betra að ganga lengra á þeirri braut en hér er gert.

Ég vil koma inn á það að báðir stjórnarflokkarnir hafa ályktað um að það eigi að setja upp atvinnuvegaráðuneyti og Sjálfstæðisflokkurinn tilgreinir sérstaklega í ályktun sinni að það sé auðvelt að gera það, það er auðvelt að fækka ráðuneytum með sameiningu í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Samfylkingin ályktar á sama hátt. Mér er því spurn: Af hverju er það ekki gert? Jú, hæstv. forsætisráðherra segir að það sé betra að taka stutt skref til að komast eitthvað af stað en ég átta mig ekki á því af hverju ekki var hægt að taka þetta skref bara til fulls fyrst stjórnarflokkarnir eru báðir sammála um það. Reyndar hafa fleiri flokkar ályktað á svipuðum nótum, Framsóknarflokkurinn hefur t.d. ályktað um að fækka beri ráðuneytum og hefur nefnt töluna 10 ráðuneyti.

Ég tel að hér sé ekki nógu langt gengið, tækifærið er ekki nýtt til að sameina líka iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið atvinnuvegaráðuneytinu. Það er að sjálfsögðu ekki gert af því að menn eru að búa til ráðherrastóla fyrir tvo þingmenn Samfylkingarinnar. Það liggur í augum uppi að þetta er redding til þess að hægt sé að hafa áfram 12 ráðherra. Þó að orðræðan segi að flokkarnir vilji allir fækka ráðuneytum er það ekki gert.

Framsóknarflokkurinn segir í sinni ályktun að, með leyfi virðulegs forseta, „leitast verði við að ráðuneyti í næstu ríkisstjórn sem Framsóknarflokkurinn á aðild að verði ekki fleiri en 10“.

Síðan segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Framsóknarflokkurinn vill skýrari verkaskiptingu í Stjórnarráðinu. Verkaskipting ráðuneyta skal taka tillit til samfélags- og atvinnuhátta og áherslna ríkisstjórnar á hverjum tíma.“

Stjórnarflokkarnir hafa ekki nýtt þetta og ég vil gjarnan fá að heyra viðhorf Samfylkingarinnar sérstaklega. Hér í salnum er hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þannig að það væri gaman að heyra röksemdafærslu formanns Samfylkingarinnar í þessu máli. Það væri líka áhugavert að heyra hvað hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson, segði um þetta af því að hann fór á sínum tíma með himinskautum vegna þess að það átti að setja upp atvinnuvegaráðuneyti. Það er ekki gert hér, virðulegur forseti. (Iðnrh.: Þetta er fyrsta skrefið.)

Já, þetta er fyrsta skref, en þetta er alls ekki eðlilegt skref. Miðað við þær ræður sem hér voru fluttar og þau mál sem Samfylkingin flutti á sínum tíma hlýtur maður að álykta sem svo að það hefði átt að taka skrefið til fulls og sameina þessi ráðuneyti öll í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Þá hefði hæstv. iðnaðarráðherra ekki getað setið í þeim stóli þannig að það er auðvitað röksemdafærslan á bak við þetta mál.

Varðandi sýn Samfylkingarinnar verður maður hissa þegar maður les þetta frumvarp vegna þess að Samfylkingin flutti frumvarp á síðasta þingi, 133. þingi, sem var endurflutt frá þinginu þar á undan, og nánast óbreytt. Fyrsti flutningsmaður á því frumvarpi er hæstv. núverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og er allur þingflokkur Samfylkingarinnar á málinu. Þar vill Samfylkingin fækka ráðuneytum í níu. Fyrsta ráðuneytið sem er tilgreint þar er atvinnuvegaráðuneyti og í greinargerðinni með frumvarpinu er sérstaklega tekið fram að það sé brýnasta verkefnið, allra brýnasta verkefnið, að setja upp atvinnuvegaráðuneyti.

Hér stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Samfylkingin flutti þingsályktunartillögu um stofnun atvinnuvegaráðuneytis á 131. löggjafarþingi þar sem hún taldi það fyrsta og mikilvægasta skrefið í endurskipulagningu og nútímavæðingu Stjórnarráðsins.“

Úr því að Sjálfstæðisflokkurinn ályktar líka um þetta átta ég mig ekki á því af hverju þetta er ekki gert. Þetta hlýtur Samfylkingin að upplýsa í umræðunni, þ.e. af hverju þetta skref hafi ekki verið tekið fyrst að þetta var mikilvægasta verkefnið í endurskipulagningu Stjórnarráðsins.

Ég vil líka spyrja sérstaklega fulltrúa Samfylkingarinnar í ríkisstjórninni um lið f í 1. gr. í frumvarpinu. Þar segir að það megi „sameina ráðuneyti með úrskurði forseta Íslands“ og hæstv. forsætisráðherra gaf til kynna að það yrði gert síðar, sem sagt einhver ráðuneyti tekin í heilu lagi og sameinuð og ráðuneytum þannig fækkað.

Samfylkingin segir sérstaklega í frumvarpi sínu sem ég gat um áðan í 1. gr.: „Ráðuneyti má eigi á stofn setja né af leggja nema með lögum“ og færir rök fyrir því í greinargerðinni að það sé skynsamlegra að binda þetta í lög en ekki. Reyndar hefur Framsóknarflokkurinn talið að það ætti að vera opið að sameina ráðuneyti án þess að gera það endilega með lögum en Samfylkingin var ekki þeirrar skoðunar. Nú er hins vegar verið að flytja frumvarp þess efnis og það er f-liðurinn í 1. gr. Ég tel eðlilegt að Samfylkingin upplýsi hér af hverju hún er tilbúin til þess að fara þá leið núna að breyta ráðuneytum án laga fyrst hún vildi það alls ekki síðast þegar hún flutti mál af þessum toga hér í þinginu.

Það er búið að boða hér talsverðar breytingar á reglugerðum og hlutverkum ráðuneyta. Félags- og tryggingamálaráðuneyti á hið nýja félagsmálaráðuneyti að heita og þangað á að færa almannatryggingar. Þó áttar maður sig ekki á því á núverandi stigi hvort sjúkratryggingar eigi að fara þar inn eða bara lífeyrishluti almannatrygginga og það væri ágætt ef hægt væri að upplýsa það hér hvort sjúkratryggingarnar eigi að fara inn í félagsmálaráðuneytið. Á sama hátt væri eðlilegt að fá hér upplýst, af því að það hefur verið rætt um að færa málefni aldraðra til félags- og tryggingamálaráðuneytisins væntanlega, hvað það þýðir. Eiga hjúkrunarheimilin að fara líka inn í félagsmálaráðuneytið eða er bara verið að tala um lífeyrishluta almannatrygginga? Þetta er mjög óljóst, og eðlilegt að það sé upplýst í umræðunni hvernig þessu verður fyrir komið.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Hagstofan verði stofnun en ekki ráðuneyti og ég tel að það sé eðlileg breyting og hef ekkert sérstakt við hana að athuga.

Varðandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið nýja er alveg ljóst að það er boðað að taka ýmis verkefni frá landbúnaðarráðuneytinu, skógrækt, landgræðslu, skólana o.s.frv. og þá er nánast ekkert eftir þannig að það liggur auðvitað í augum uppi að þá er eðlilegt að sameina það. En manni er spurn: Af hverju er þá ekki tekið skrefið til fulls og sameinað í atvinnuvegaráðuneyti? Hér kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra áðan að það yrði svo risavaxið ráðuneyti. Það getur þó varla átt við mikil rök að styðjast fyrst báðir ríkisstjórnarflokkarnir hafa ályktað í þá veru að það bæri að gera og var eitt fyrsta skrefið sem Samfylkingin vildi taka.

Varðandi það að geta sameinað ráðuneyti með úrskurði forseta og sleppt þá því að fara í gegnum svona lagabreytingar hefur maður velt fyrir sér hvort það væri eðlilegt, og ég legg það hér inn í umræðuna, að hafa ákvæði um lágmarksfjölda ráðuneyta þannig að þau yrðu t.d. aldrei færri en sjö. Ég skýt því hérna inn í umræðuna af því að þetta er atriði sem hefur komið til tals hjá okkur í Framsóknarflokknum að það gæti verið eðlilegt að binda í löggjöf af þessu tagi lágmarksfjölda ráðuneyta þannig að menn hefðu aðeins skýrar hvað væri hægt að ganga langt í að fækka ráðuneytum.

Varðandi þær greinar frumvarpsins sem kveða á um að færa starfsmenn á milli ráðuneyta tel ég að það sé jákvæð breyting. Það skapar meiri sveigjanleika og þýðir að það er hægt að færa betur starfsmenn á milli ráðuneyta án teljandi vandræða og hafta. Ég tel að það sé jákvæð breyting og held reyndar að það mætti gera ýmsar breytingar á lögum um opinbera starfsmenn til þess að auka sveigjanleika að þessu leyti.

Virðulegur forseti. Það sem mér finnst mikilvægt að draga hérna fram er hvort við getum ekki, við sem munum fjalla um þetta mál í allsherjarnefnd — mér skilst að bæði þessi frumvörp, um þingsköpin og Stjórnarráðið, fari til allsherjarnefndar — fengið meiri upplýsingar um hvað er í farvatninu varðandi reglugerðarbreytingar. Það hefur verið upplýst hér að það er ekki allt tilbúið en mér finnst eðlilegt að við fáum að sjá það sem þó er ljóst að hverju er stefnt. Það er búið að ræða um að landbúnaðarskólarnir fari til menntamálaráðuneytisins og Matvælaeftirlitið til nýja sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, vatnamælingarnar fari úr iðnaðarráðuneytinu og til umhverfisráðuneytisins og ferðamálin úr samgönguráðuneytinu í iðnaðarráðuneytið. Reyndar sagði Samfylkingin á sínum tíma þegar hún flutti sitt frumvarp um stjórnarskipunarlög að ferðamálunum hefði verið holað inn í samgönguráðuneytið en núna á sem sagt væntanlega þá að hola þeim inn í iðnaðarráðuneytið ef sama orðalag er notað og Samfylkingin notaði á þeim tíma. Er ekki hægt að upplýsa okkur betur um þetta?

Mér finnst líka eðlilegt að fá svör frá fulltrúum Samfylkingarinnar við þessu: Eiga jafnréttismálin að fara í forsætisráðuneytið? Er umræða um það? Það var atriði sem Samfylkingin gerði að miklu umtalsefni í síðustu kosningabaráttu, þá var sagt að jafnréttismálin ættu að fara í forsætisráðuneytið, að forsætisráðuneytið ætti að bera ábyrgð á því að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í stefnumótun og starfi allra ráðuneyta. Mér finnst eðlilegt að það sé upplýst hvort til standi að gera einhverjar breytingar að þessu leyti.

Virðulegur forseti. Í heildina séð er þetta frumvarp þess eðlis að það hefði verið betur af stað farið ef lengra hefði verið gengið. Það er helst hrópandi vöntun á atvinnuvegaráðuneyti sem ég vil gera athugasemdir við, sérstaklega af því að báðir stjórnarflokkarnir hafa ályktað um það. Það er líka í anda þeirrar ályktunar sem við framsóknarmenn höfum gert um að fækka ráðuneytum. Það hlýtur að skiljast sem svo að þessar breytingar gangi of skammt og það að iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið er ekki sameinað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er einungis til þess að skapa ráðherrastóla fyrir Samfylkinguna.

Mér finnst mikilvægt í þessari umræðu að Samfylkingin tjái sig. Mér finnst hrópandi fjarvera þingmanna Samfylkingarinnar í þessari umræðu og var í umræðunum um þingsköpin. Stjórnarflokkarnir bera auðvitað báðir ábyrgð á þessu máli þó að hæstv. forsætisráðherra flytji það. Í ljósi þess að Samfylkingin fór mikinn á síðasta þingi og þarsíðasta varðandi breytingar á Stjórnarráðinu og þessar tillögur eru í engu samræmi við það sem Samfylkingin sagði, engu, hlýtur Samfylkingin að ætla að tjá sig um þær breytingar sem hér eru boðaðar.