134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:36]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þeim tólf árum sem Framsóknarflokkurinn var í stjórn voru engar breytingartillögur lagðar fram og engar breytingar gerðar. Það getur vel verið að unnið hafi verið í nefndum og ráðum að breytingum en ekkert leit dagsins ljós. Hér er á ferðinni lítið skref og ég held að þeir sem vilja taka stærri skref hljóti að fagna því að þetta er þó a.m.k. áfangi í rétta átt.

Í umræðunni heyrist mér að það sé örlítill misskilningur í gangi hvað það varðar að menn eru að rugla saman ráðherrum annars vegar og ráðuneytum hins vegar. Hér er í reynd verið að fela framkvæmdarvaldinu heimild til þess að fækka ráðherrum. Það er kjarninn í málinu en ekki að heimila að leggja af ráðuneyti. Þetta er algert lykilatriði og um þetta snýst málið. Því er ekki verið að breyta neinu um hverju skuli skipað með lögum og hverju ekki. Hér er fyrst og fremst heimild fyrir framkvæmdarvaldið til að fækka ráðherrum og endurskipuleggja sig á þann hátt. Hér er verið að leggja til að þjóðþingið veiti þessa heimild.

Að sumu leyti hefur mér þótt menn gera of lítið og of mikið úr ráðherrunum og fjölda þeirra því að í sjálfu sér fer allt í gegnum Alþingi á endanum sem betur fer. Þannig á það að vera en hvort ráðherrarnir séu 8, 10, 11 eða 9 finnst mér ekki kjarninn í þessari umræðu. Fyrst og fremst hvernig ráðuneytunum er skipað og að málin koma á endanum til kasta þingsins.