134. löggjafarþing — 3. fundur,  4. júní 2007.

Stjórnarráð Íslands.

1. mál
[18:37]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er einhver grundvallarmisskilningur hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni. Það stendur í frumvarpinu sem við erum að fjalla um hér, í f-lið:

„Þó er heimilt að sameina ráðuneyti með úrskurði forseta Íslands.“

Þá eru menn að sameina væntanlega tvö eða fleiri í eitt og leggja eitthvert ráðuneyti niður. Það stendur ekki að heimilt sé að fækka ráðherrum. (Gripið fram í.) Heimilt mun að sameina ráðuneyti, þannig að það er alrangt sem hv. þingmaður er að halda fram, að þetta gangi út á það að fækka ráðherrum. Það gætuð þið hæglega gert, sem eruð í stjórnarmeirihlutanum í dag. Þið gætuð hæglega ákveðið að iðnaðar- og viðskiptaráðherra yrði einn ráðherra, bara hæstv. iðnaðarráðherra, Össur Skarphéðinsson. Hann gæti bara tekið viðskiptaráðuneytið yfir enda er það svo lítið hvort eð er.

Þessi breyting gengur því alls ekki út á það sem hv. þingmaður var að segja. Þessi lagabreyting gengur þvert á það sem Samfylkingin vildi á síðasta þingi. Ráðuneytunum verður ekki skipað með lögum, eins og Samfylkingin vildi og hvorki setja þau á stofn né leggja þau af nema með lögum. En í dag er verið að flytja frumvarp um að heimilt sé að sameina ráðuneyti fram hjá löggjafanum, fram hjá okkur hér inni. Þetta er því einhver grundvallarmisskilningur sem hv. þingmaður ber hér á borð. Samfylkingin hefur breytt algjörlega um stefnu í þessu máli.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill áminna þingmenn um að ávarpa forseta en ekki þingmenn beint úti í sal.)