134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:19]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eitt get ég upplýst hv. þingmann um, þetta kostar a.m.k. miklu minna en kosningaloforð Framsóknarflokksins frá nýliðnu vori hefðu átt að kosta. (Gripið fram í.)

Það sem skiptir mestu máli er að þetta er áfangaskipt áætlun sem verður kostnaðarmetin eftir því sem málinu vindur fram. Þetta eru brýnustu samfélagslegu verkefnin sem þarf að ráðast í, þau þola enga bið. Þetta eru þau mál sem skipta langmestu máli, þetta eru meginmálin í íslensku velferðarsamfélagi og þau þurfa að koma til framkvæmda, nánast burt séð frá því hvað öðru líður af því að þetta eru mál sem þola ekki bið.

Auðvitað þarf að framkvæma áætlunina í samræmi við ástandið í þjóðfélaginu almennt. Þetta snýst allt um forgangsröðun pólitískra verkefna, þetta snýst um það að koma þeim góðu hlutum fram sem pólitískur vilji og metnaður ríkisstjórnarinnar stendur til að gera. Þess vegna þurfum við bara að forgangsraða til þess að málið og áætlunin nái fram að ganga. Hún verður að sjálfsögðu kostnaðargreind og framkvæmd í áföngum og það mun allt verða gert samhliða, það er engin spurning, og það skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli hvort það er búið að því fyrir fram upp á krónur og aura. Þetta er pólitísk stefnulýsing þessarar ríkisstjórnar um brýnustu úrbæturnar í málefnum barna og ungmenna, mál sem þola enga bið og verða að koma til framkvæmda og kalla að sjálfsögðu á pólitíska forgangsröðun á öðrum sviðum samfélagsins samhliða, en að sjálfsögðu verður þetta allt kostnaðargreint þegar það fer í áfangaskipta framkvæmd.