134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:34]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður bara að koma í ljós hvernig menn standa að þessu máli. En málið er lagt fram sem stjórnartillaga þannig að fyrir liggur að báðir þingflokkarnir hafa samþykkt það. Engu að síður er það mjög greinilegt sem ég dró fram, að það er ekki sama hrifning og jafnvel meiri tregða í röðum sjálfstæðismanna yfir þessu máli en hjá Samfylkingunni. Það þarf í sjálfu sér ekki að vera óeðlilegt en menn eiga bara að gangast við því. Ég kallaði eftir því að sjálfstæðismenn gerðu grein fyrir áherslum sínum í að bæta úr varðandi fátækt barna hér á landi.

Ég tek eftir því líka, virðulegi forseti, að í þessari tillögu segir, sem er eitt af aðalatriðum tillögunnar, að fæðingarorlof verði lengt á áföngum á kjörtímabilinu. Miðað er við að lengja það úr 9 mánuðum í 12. Hins vegar segir ekki í tillögunni að það eigi að auka kostnaðinn. Niðurstaðan getur því verið að lengja eigi fæðingarorlofið en að heildarkostnaðurinn við fæðingarorlofið verði óbreyttur. Það mundi samrýmast þessari yfirlýsingu.

Ég minni á að á síðasta kjörtímabili varð þáverandi ríkisstjórn að grípa til aðgerða til að skerða fæðingarorlof vegna þess að útgjöld stefndu mun hærra en menn töldu sig hafa ráð á. Þá var viðmiðunum um fæðingarorlof breytt, sem leiddi til þess að útgjöldin urðu árlega um hálfum öðrum milljarði kr. lægri. Ef menn ætla að lengja fæðingarorlofið án þess að bæta við fjármagni þá leiðir það til þess hins sama. Það gæti gerst aftur sem gerðist á síðasta kjörtímabili, að fæðingarorlof hvers og eins yrði skert.