134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:00]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á að upplýsa hæstv. forseta um að ég ætla ekki að setja hér á langa ræðu um þetta mál. Enda vil ég reyna að greiða fyrir þingstörfum. Ég vil þó vekja athygli á því, úr því að þetta er fyrsta frumvarpið sem nýr hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson leggur fram á þessu kjörtímabili, að þetta mál um að lögfestur verði viðaukasamningur milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings, um álbræðslu við Straumsvík, er öllu merkilegra en það lítur út fyrir að vera í fyrstu.

Þeir sem hafa fylgst með atvinnuuppbyggingu á Íslandi á síðustu árum og áratugum muna þá tíð er ríkisstjórnir Íslands þurftu að leggja mikið á sig til að laða erlenda fjárfestingu til Íslands til uppbyggingar á atvinnulífi. Sá samningur sem gerður var við Alusuisse á sínum tíma bar þess merki. Þar var á ferðinni erlent stórfyrirtæki sem fór þess á leit við íslensk stjórnvöld að það fengi sérstaka afgreiðslu varðandi skattalegt umhverfi sem fyrirtækinu var ætlað að starfa í kæmi það til landsins, greiddi lægri skatta, tolla, aðflutningsgjöld og annað slíkt vegna starfsemi sinnar.

Það sem þetta frumvarp gengur út á kemur m.a. fram á bls. 14 þar sem vikið er að meginefni sjötta viðauka við aðalsamninginn. Þar segir:

„Með samningsviðaukanum eru allar sérreglur og undanþágur um skatta og opinber gjöld, sem gilda um starfsemi álversins í Straumsvík felldar út úr aðalsamningnum.“

Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir að hér erum við vitni að, ef svo má segja, heilbrigðisvottorði eða viðurkenningu á þeirri skattastefnu sem ríkisstjórnir síðustu 16 ára hafa haldið úti hvað varðar fyrirtækin á Íslandi. Það er mjög merkilegt vegna þess að það er ekki langt síðan að tekjuskattur fyrirtækja á Íslandi var 50%. Hann var síðan færður niður í 30% og er nú 18%. Stórfyrirtækin sem áður nutu velvildar og sérkjara íslenskra stjórnvalda vegna starfsemi sinnar þurfa ekki á sérmeðferð að halda lengur. Hið almenna skattaumhverfi fyrirtækja er það gott að þau fyrirtæki sem á þessum árum nutu sérkjara óska eftir því nú í samningum við íslensk stjórnvöld að losna undan þeim sérkjörum. Hin almennu kjör eru orðin betri en sérkjörin.

Þetta kalla ég heilbrigðisvottorð yfir þeirri skattastefnu sem síðustu ríkisstjórnir hafa rekið varðandi tekjuskatta og starfsumhverfi fyrirtækja á Íslandi. Mér finnst ástæða til að fagna þessu frumvarpi og þeim atriðum sem þar koma fram. Ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra gerir það sama og tekur undir með mér. Hér er um heilbrigðisvottorð stefnumörkunar síðustu ríkisstjórnar að ræða.

Ég hlýt líka að fagna því að í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokksins og flokks hæstv. iðnaðarráðherra hafa menn samþykkt þá stefnumörkun að halda beri áfram á þessari braut. En þar segir, með leyfi forseta:

„Á kjörtímabilinu verður leitað leiða til að lækka frekar skatta á fyrirtæki.“

Eftir þessu munum við sjálfstæðismenn að sjálfsögðu ganga. En ég vildi í þessari ræðu vekja sérstaka athygli á þessum þætti málsins. Hann er að mínu mati afar merkilegur. Auðvitað er það þannig að íslensk stjórnvöld eiga að halda áfram á þessari leið, stefna að því að vera með skattaumhverfi á Íslandi sem er það besta sem þekkist í víðri veröld til að laða að erlend fyrirtæki, erlenda fjárfestingu til uppbyggingar á íslensku atvinnulífi.