134. löggjafarþing — 10. fundur,  13. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[14:38]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi 25 þús. kr., þær gera ekki minna gagn en það að þær hækka lægstu bætur eða lægstu laun sem einstæður ellilífeyrisþegi á Íslandi getur fengið úr 126 þús. kr. upp í tæpar 140 þús. sem er töluvert meira en lægstu laun í landinu. (Gripið fram í.) Já, það gerir það. (Gripið fram í: Brúttó.) Brúttó, já, að sjálfsögðu. Menn tala yfirleitt alltaf um lægstu laun líka fyrir skatt þannig að það er alveg á hreinu. (Gripið fram í.)

En varðandi þá sem eru 67–69 ára heldur það fólk bara áfram að vinna eins og ekkert hafi í skorist. Menn eru nefnilega miklu frískari í dag en þeir voru fyrir 30–40 árum þegar þessi aldursmörk voru sett, miklu frískari, og geta haldið áfram að vinna til sjötugs og eiga þá í vændum þessar bætur þegar þeir verða sjötugir. Ég held að þetta sé bara mjög góð regla.

Síðan varðandi öryrkjana, þeir eru með aldurstengd lífeyrisréttindi sem voru sett á líka í tíð síðustu ríkisstjórnar á grundvelli samnings við öryrkja. Auk þess er ríkisstjórnin að vinna núna með örorkunefnd að stórlegri endurskoðun á öllu örorkumatinu og allri stöðu öryrkja þar sem á að fara að líta núna á getu manna, getu öryrkja til vinnu en ekki alltaf vangetuna. Það verður verulega mikil breyting þegar það kerfi nær í gegn og með stóraukinni endurhæfingu þar sem markmiðið er að koma fólki aftur til vinnu, aftur í tengsl við vinnumarkaðinn. Það er verið að gera heilmikið fyrir öryrkja líka.