135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

vernd til handa fórnarlömbum mansals.

69. mál
[13:42]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka einnig fyrir þessa fyrirspurn og skýri frá því að unnið hefur verið að því á undanförnum mánuðum og missirum að kanna hvaða breytingar þurfi að gera á lögum vegna fullgildingar þessara samninga gegn mansali og einnig vegna fullgildingar á samningum sem snerta skipulagða alþjóðlega glæpastarfsemi. Ég mun síðar í haust leggja fram frumvarp á þinginu þar sem lagðar eru til nauðsynlegar breytingar á refsilöggjöfinni vegna samninganna um þetta efni og þar nefni ég bókun við Palermo-samninginn sem fjallar um aðgerðir gegn mansali og einnig Evrópusamninginn gegn mansali. Þingið mun fá þetta til meðferðar á haustmánuðum. Hvort fullgildingin á þessum samningum kalli á aðrar lagabreytingar en þær sem við erum að huga að vegna refsilöggjafarinnar er enn til skoðunar í ráðuneytinu og vænti ég að þeirri skoðun verði lokið síðar í vetur.