135. löggjafarþing — 6. fundur,  10. okt. 2007.

staða íslenskrar tungu.

77. mál
[14:04]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessa mikilvægu fyrirspurn sem kemur fram á tímum þar sem íslenskan á undir högg að sækja í heimi hnattvæðingar sem fer ört vaxandi. Sótt er að íslenskunni úr öllum áttum eins og við vitum og það er full þörf á því að stjórnvöld jafnt sem allir landsmenn geri sér grein fyrir því að það er ekkert sjálfsagt mál að íslenskan lifi af í heimi þar sem enskan sækir sífellt meira á og mörg tungumál eru í útrýmingarhættu. Íslensk fyrirtæki þurfa einnig að hugsa sinn gang hvað varðar val á tungumáli innan sinna vébanda en á tímum hraðvaxandi alþjóðasamskipta er notkun erlendra tungumála, einkum ensku, að verða æ ríkari þáttur í íslensku samfélagi. Ef við slökum á árvekni okkar í baráttunni fyrir því að viðhalda tungunni verður þess ekki langt að bíða að íslenskan fari halloka.

Í stefnuskrá Íslenskrar málnefndar fyrir árin 2006–2010 kemur fram að nefndin hyggst leggja til að íslenska verði lögfest sem opinbert tungumál á Íslandi. Það má færa rök fyrir því að rétt sé að ganga lengra en nefndin leggur þarna til. Ég hef áður lýst því yfir í þessum ræðustól að ég telji skynsamlegt og æskilegt að tryggja stöðu íslenskunnar með sérstöku ákvæði í stjórnarskrá. Mér er kunnugt um að þetta hefur verið rætt á vettvangi stjórnarskrárnefndar á síðasta kjörtímabili og bind ég vonir við að næst þegar Alþingi fjallar um breytingar á stjórnarskrá Íslands verði ákvæði um stöðu íslenskunnar bundið í stjórnarskrá og svo ég svari spurningu hv. þingmanns: Já, ég mun beita mér sérstaklega fyrir því að svo verði.

Við tryggjum hins vegar ekki stöðu íslenskunnar til framtíðar með laga- og stjórnarskrárákvæðum einum og sér. Margt annað þarf að koma til. Á degi hverjum heyjum við orrustu um stöðu íslenskunnar og þar verðum við öll að leggja okkar af mörkum. Við megum ekki hopa undan ásókn enskunnar eða annarra tungumála heldur halda uppi vörnum og helst að sækja fram.

Það má auðvitað benda á eitt og annað sem gert hefur verið á undanförnum árum. Ég vil fyrst nefna til dæmis sameiningu fimm íslenskustofnana í hina öflugu Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum færðum. Ég er sannfærð um að þar felist ákveðin og ný spennandi sóknarfæri fyrir íslenskuna. Það er líka hægt að nefna önnur minni mál en allt vegur þetta þó nokkuð inn í baráttu okkar fyrir íslenskunni. Ég vil geta þess að ég sendi á árinu 2006 bréf til dreifingarmiðla kvikmynda, kvikmyndaframleiðenda, sjónvarpsstöðva og fjölmiðla og fleiri, og Samtaka þýðenda þar sem ég benti á að það færist sífellt í vöxt að heiti erlendra kvikmynda séu eingöngu á ensku þegar þær eru kynntar í kvikmyndahúsum, fjölmiðlum og víða, óháð því hvaðan þær eru síðan upprunnar. Ég beindi þeim óskum til allra sem framleiða, kynna og sýna kvikmyndir á Íslandi að staðinn sé vörður um íslenska tungu og að við kynningu á erlendum kvikmyndum verði áhersla lögð á að birta heiti þeirra á íslensku jafnframt því sem heiti á upprunamálinu fylgi með.

Ég get líka nefnt sérstakan þjónustusamning sem ráðuneytið gerði við Ríkisútvarpið þar sem auknar kröfur og kvaðir eru lagðar á herðar Ríkisútvarpinu við það að stuðla að eflingu íslenskunnar og íslensks dagskrárefnis enda á íslensk tunga að vera þungamiðjan í menningarstarfsemi Ríkisútvarpsins.

Ég vil að lokum einnig geta þess sérstaklega að ríkisstjórnin hefur samþykkt að veita 200 millj. kr. til íslenskukennslu fyrir fullorðna útlendinga fyrir árið 2007 og það sama gildir um fjárlagafrumvarpið 2008.

Að auki vil ég geta þess að sérstök fjárveiting er fyrir ákveðið átaksverkefni sem er nú þegar hafið þar sem við erum að styrkja erlenda nemendur í framhaldsskólunum þannig að þeir verði ekki brottfallinu að bráð, að þeir haldist innan framhaldsskólanna og lykill að því er að efla íslenskuna í þeirra röðum. Samtals er því gert ráð fyrir að um 240 millj. kr. renni beint til íslenskukennslu fyrir útlendinga í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum nú á þinginu.

Reynslan af íslenskukennslu fyrir útlendinga árið 2007 sýnir að eftirspurnin er gríðarleg. Að mínu mati hafa fyrirtækin staðið sig nokkuð vel við að sækja í að auka möguleika starfsfólksins til þess að læra íslensku. Ég vil geta þess að við úthlutuðum styrkjum til námskeiða fyrir um 7.600 einstaklinga á þessu ári.

Hæstv. forseti. Ábyrgðin er hins vegar ekki eingöngu stjórnvalda. Hún er okkar allra, ekki síst fyrirtækjanna, stofnana og einstaklinga. Það hversu vel við öll hlúum að tungu okkar mun að sjálfsögðu ráða úrslitum um stöðu hennar í framtíðinni.