135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

afgreiðsla iðnaðarnefndar á frumvörpum til vatnalaga.

[13:37]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Já, enn er rætt um vatnalög á hv. Alþingi og ég segi bara að það kemur mér á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa haft tögg í sér til að standast það að verða við ósk Samfylkingarinnar sem er sú að þessi lög verði látin brott falla, þessi vatnalög sem samþykkt voru í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það hefur þá sýnt sig að Sjálfstæðisflokkurinn er aðeins burðugri en ég hefði átt von á. Raunin er nú sú að Samfylkingin virðist hafa hann dálítið í vasanum.

Hvað varðar það samkomulag sem um er rætt er það rétt að samkomulag var gert um að skipa nefnd. Ekki gafst færi á að skipa þá nefnd meðan ég var í iðnaðarráðuneytinu vegna þess að ekki höfðu borist tillögur frá þingflokkunum um einstaklinga. Síðan get ég ekki sagt til um hvað gerðist eftir það.

En þessi nefnd hafði ekki svo óskaplega mikið hlutverk í rauninni þannig að ef hæstv. iðnaðarráðherra sem nú situr hefði í sumar, þegar hann áttaði sig á þessu og byrjaði að tala um það í fjölmiðlum að ekki hefði verið skipuð þessi nefnd, bara skipað nefndina þá strax hefði hún lokið störfum fyrir 1. nóvember, það eitt veit ég. Þetta er allt saman einhver sýndarmennska og tilraun til að fresta málinu vegna þess að það er algjör ósamstaða milli stjórnarflokkanna um það hvernig á að taka á málinu, algjör ósamstaða. Menn eru að kaupa sér tíma af því að viðkvæðið er dálítið mikið hjá hæstv. forsætisráðherra: Við skulum bara sjá til.