135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

95. mál
[14:58]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Áður en ég fer yfir helstu atriði frumvarpsins mun ég fara stuttlega yfir tvö nátengd efni í frumvarpinu. Í fyrsta lagi af hverju við þurfum á að halda því öfluga fjármálaeftirliti sem við erum að byggja upp og í öðru lagi stöðu sjálfrar eftirlitsstofnunar fjármálaeftirlitsins. Fyrst aðeins um starfsemi eftirlitsins sjálfs sem hefur þróast mjög hratt og eykst núna annað árið í röð. Er hér lagt til að rekstrartekjur þess aukist um 50% annað árið í röð. Umfang þess hefur því vaxið mjög á milli ára. Meginmálið er að starfsemi þess er jafnbrýn og raun ber vitni til að tryggja stöðugleika og öryggi í rekstri fjármálaþjónustu fyrirtækjanna almennt. Öflugt fjármálaeftirlit stendur í rauninni á bak við þá miklu og vel heppnuðu útrás fjármálafyrirtækja okkar á síðustu 10–12 árum frá því að Kaupþing opnaði fyrsta útibúið í Lúxemborg og síðan hefur þetta orðið að þeirri gífurlega miklu og vel heppnuðu útrás sem raun ber vitni og þar stendur öflugt fjármálaeftirlit sem nýtur alþjóðlegs trausts og viðurkenningar því algerlega að baki. Til að bankarnir okkar og fjármálaþjónustan njóti ýtrasta trausts á erlendri grundu og geti haslað sér þar völl með jafn vel heppnuðum hætti, af því að það skiptir meiru en allt annað í bankastarfsemi eins og gefur auga leið, er traust milli viðskiptavina og fjármálastofnana. Þar skiptir öllu máli öflugt fjármálaeftirlit sem í fyrsta lagi ræður við hlutverk sitt og í öðru lagi veldur því mikla eftirliti sem það á að hafa með þessum stofnunum. Þess vegna hefur verið staðið jafn vel að baki því og ástæða hefur verið til að gera á síðustu árum og er gert hér enn og aftur með því frumvarpi sem ég mæli fyrir í dag og markar þau skil í sögu eftirlitsins að umfang þess eykst svo mikið sem hér er lagt til annað árið í röð.

Við þurfum fjármálaeftirlit til að stuðla að og byggja upp trúverðugleika markaðarins. Fjárfestar og sparifjáreigendur verða að hafa trú á því að undirstöður fjármálaþjónustufyrirtækja séu í lagi og leikreglum sé fylgt til hins ýtrasta, t.d. varðandi jafnræði fjárfesta. Ef svo er ekki dregur það úr virkni markaðar og eykur kostnað fjármagns og þar af leiðandi úr skilvirkni og þeim krafti sem er í fjármálaþjónustunni hérlendis en fjármálastarfsemi innan lands og utan er að verða einn af okkar mestu atvinnuvegum og stendur að stórum hluta að baki þeim hagvexti og þeirri öflugu atvinnusókn sem hér hefur að mörgu leyti staðið yfir. Trúverðugleiki og stöðugleiki markaðar eru að sjálfsögðu sérstök samgæði sem þarf að varðveita. Fjármálakreppur geta haft djúpstæð og langvarandi efnahagsleg áhrif eins og menn óttuðust að gerast mundi í bankakreppunni á dögunum sem íslensk fjármálafyrirtæki og bankar stóðu í rauninni af sér vegna þess að þær stofnanir höfðu staðið vel að endurfjármögnun og uppbyggingu á sínum infrastrúktúr þegar gekk aðeins á með þau fyrir nokkrum mánuðum. Þess vegna leggja flest lönd mikið upp úr því að tryggja öflugt eftirlit með fjármálastarfsemi. Ég tel að vel hafi tekist til með uppbyggingu íslenska Fjármálaeftirlitsins og stendur fyrir dyrum að efla það, bæði tekjustofna þess og innri starfsemi eftir því sem efni standa til. Þegar ég heimsótti danska fjármálaeftirlitið á dögunum sem hefur verið starfrækt lengi og hefur þróast mjög mikið og er öflugt og nýtur virðingar innan Danmerkur og utan, þá sannfærðist ég um að við erum á réttri leið með okkar íslenska eftirlit eins og það er byggt upp hér.

Að auki þurfum við fjármálaeftirlit af því að virkt fjármálaeftirlit er forsenda útrásar og alþjóðavæðingar eins og ég gat um áðan. Starfsleyfi útgefið á Íslandi og trú á því fjármálaeftirliti sem hér er framkvæmt er forsenda útrásar innan EES og í raun og veru út um allan heim, þ.e. að starfsleyfi sem gefið er út á Íslandi sé í raun og veru ákveðinn gæðastimpill og útgangspunktur fyrir fjármálafyrirtæki sem eru að hasla sér völl á erlendri grund og eru þau nú orðin nokkur til viðbótar við hina gömlu banka sem við þekkjum hvað gerst.

Aðeins að sjálfri eftirlitsstofnuninni. Fjármálaeftirlitið var sett á stofn með lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi árið 1998 og samkvæmt þeim er Fjármálaeftirlitið ríkisstofnun sem lýtur sérstakri stjórn. Í athugasemdum við frumvarpið er varð að lögum það sama ár er nánar skýrt hvað í þessu hlutverki felst og finnst mér ástæða til að draga það inn í umræðuna til upplýsingar og glöggvunar á því hve mikilvægt hlutverk þessi stofnun hefur um leið og hér er lagt til að rekstrarrammi þess stækki. Í athugasemdunum segir, með leyfi forseta:

„Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð ríkisstofnun með sérstakri stjórn, en heyrir undir viðskiptaráðherra. …

Mikilvægt er að eftirlitsstofnun fái að starfa óháð öðrum hagsmunum en þeim sem í eftirlitinu felast. Þetta verður best tryggt með því að tryggja þessari starfsemi sjálfstæði. Því er í frumvarpi þessu lagt til að með eftirlitið fari sérstök stofnun, Fjármálaeftirlitið. Stofnuninni er ætlað mikið sjálfstæði til ákvarðana og er gert ráð fyrir að stofnunin hafi sérstaka stjórn.“ — Og þá segir: „Gert er ráð fyrir að stofnunin falli stjórnskipulega undir viðskiptaráðherra, en honum er ekki ætlað vald til að hafa áhrif á ákvarðanir stofnunarinnar eða til að endurskoða þær.“

Þetta er algert grundvallaratriði. Hver sem er í ráðherrastól hverju sinni getur ekki sigað eftirlitinu á hin eða þessi fyrirtæki, hvort sem það er út af pólitískum geðþótta eða einhverju öðru heldur er stofnunin sjálfstæð og það skiptir mjög miklu máli að ramma það inn og virða það sjálfstæði til hins ýtrasta. Það er í samræmi við svokallaða fyrstu meginreglu sem er gefin út af alþjóðagreiðsluuppgjöri bankanna og þær kröfur sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir til sjálfstæðs eftirlitsaðila á fjármálamarkaði. Það liggur að sjálfsögðu trúverðugleika þess algerlega til grundvallar fyrir utan öfluga tekjustofna, vel heppnaða löggjöf og allt það, að það sé engum vafa undirorpið að þetta sé sjálfstæð eftirlitsstofnun sem ekki sé seld undir pólitískan geðþótta hverju sinni eða þá vinda sem blása í stjórnmálunum. Þýðing þess að Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð ríkisstofnun er að rofin hafa verið tengsl á milli ráðuneytisins og stjórnvaldsins að því leyti að ráðherra telst ekki æðra sett stjórnvald gagnvart hinu sjálfstæða stjórnvaldi og getur því ekki með bindandi hætti gefið þess konar stjórnvaldi fyrirmæli nema það sé sérstaklega fyrir mælt í lögum og engin kæruheimild er milli hins sjálfstæða stjórnvalds og ráðuneytisins. Jafnframt leiðir þetta til þess að ráðherra ber hvorki pólitíska ábyrgð né ráðherraábyrgð á slíku sjálfstæðu stjórnvaldi.

Segja má að öflugt og virkt fjármálaeftirlit þurfi þrennt til að ná árangri: Í fyrsta lagi þarf eftirlitsaðilinn að vera sjálfstæður gagnvart öðrum hagsmunum en þeim sem felast í eftirlitinu sjálfu og engu öðru. Tel ég að þetta hafi verið tryggt með lagasetningunni frá 1998 þegar Vátryggingareftirlitið, sem hafði verið bein undirstofnun heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins og síðan viðskiptaráðuneytisins, og bankaeftirlit Seðlabankans, sem hafði verið deild í Seðlabankanum, voru sameinuð og gerð að sjálfstæðri ríkisstofnun. Það er ástæða til að rifja þetta upp því oft hefur komið fram í pólitískri umræðu að mönnum finnist að ráðherra eigi að beita áhrifum sínum til að siga eða segja eftirlitinu til og láta rannsaka hitt og þetta, eins og oft er að sjálfsögðu freistandi farvegur fyrir stjórnmálamenn að gera þegar hitinn brennur á einhverju tilteknu máli að siga eða senda Fjármálaeftirlitið á viðkomandi sem eftirlitsstofnun en það verður að sjálfsögðu að taka sína sjálfstæðu ákvörðun um það en auðvitað skipar ráðherra þar í stjórn og ráðherra skipar formann stjórnar. Þannig eru að sjálfsögðu eðlileg tengsl þessarar sjálfstæðu stofnunar við hið pólitíska vald. Þó að það taki ekki við fyrirmælum er það eðlilega tengt inn í stjórnvaldið og þannig getur ráðherra haft áhrif með því að skipa þar öfluga, sjálfstæða einstaklinga sem standa vörð um þetta meginhlutverk Fjármálaeftirlitsins.

Í öðru lagi þarf eftirlitsaðili fullnægjandi valdsheimildir til að geta rækt eftirlitshlutverk sitt og framfylgt ákvörðunum sínum. Ég tel að þetta atriði hafi náðst með lagabreytingum fyrir tveimur árum, árið 2006, þegar styrktar voru eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins og loks að fullu með samþykkt viðurlagafrumvarpsins í vetur sem leið.

Í þriðju lagi þarf eftirlitsaðilinn nægilegt fjármagn til reksturs eftirlitsins, og það er umfjöllunarefni þessa frumvarps, og til greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, og það er ýmislegt sem útskýrir eða stendur að baki þeirri miklu aukningu sem er á þessum ramma milli ára. Eins og ég nefndi áðan er það náttúrlega í fyrsta lagi hin ævintýralega útrás fjármálastarfseminnar á liðnum árum þar sem vöxtur á milli ára er gífurlegur, tel ég óhætt að segja og ekkert ofmælt í því, og eins önnur atriði sem tengjast því mjög mikið og ég mun nefna á eftir.

Á árinu 1999 voru samþykkt á Alþingi lög um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Með lögunum var gjald sem eftirlitsskyldir aðilar greiða til að standa straum af rekstri Fjármálaeftirlitsins breytt á þann veg að tryggt væri að það uppfyllti skilyrði stjórnarskrár um skattlagningarheimildir. Þetta þýddi m.a. að festa þurfti álagningarhlutfall í lögum í stað þess að kveða einungis á um hámark álagningar. Þessum álagningarhlutföllum þarf því að breyta á hverju haustþingi. Tel ég það mjög heppilegt til að hægt sé að endurskoða ramma þessarar mikilvægu stofnunar á hverju ári þannig að hann þrengi ekki óeðlilega að henni. Þegar svo ófyrirsjáanlegur vöxtur eins og við upplifum núna er í fjármálastarfsemi okkar er mjög heppilegt að endurskoða tekjur og rekstrarrammann á hverju einasta ári þannig að hann þrengi ekki að. Þessum álagningarhlutföllum þarf að breyta á hverju haustþingi enda ógerlegt að ákveða nákvæm hlutföll álagningar á flokka eftirlitsskyldra aðila til lengri tíma en til eins árs í senn. Samkvæmt þessu hefur frumvarp til breytinga á þessum lögum verið lagt fram á hverju haustþingi að fenginni skýrslu frá Fjármálaeftirlitinu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs, athugun ráðuneytisins á skýrslunni og að fengnu áliti samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila.

Með frumvarpinu er álagningarhlutfalli einstakra tegunda eftirlitsskyldra aðila breytt og eru hlutföllin á viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, rekstrarfélög, kauphallir og verðbréfamiðstöðvar lækkuð en álagningarhlutfall vegna annarra eftirlitsskyldra aðila hækkað. Mismunur á breytingu hvað þetta varðar skýrist af mismunandi þróun álagningarstofna einstakra flokka eftirlitsskyldra aðila en rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2008 gerir í meginatriðum ráð fyrir óbreyttri hlutfallslegri skiptingu gjaldsins á milli þessara flokka.

Það eru nýmæli að frumvarpið geri ráð fyrir nýjum álagningarstofni, sérstöku eftirlitsgjaldi á útgefendur fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga. Leggur frumvarpið til að eftirlitsgjöld á útgefendur hluta- og skuldabréfa verði þrepaskipt fastagjald og taka þrepin mið af markaðsvirði viðkomandi fjármálagerninga. Áætlað álagt eftirlitsgjald á yfirstandandi ári nemur 602 millj. kr. en frumvarpið gerir ráð fyrir tæpum 915 millj. kr. á næsta ári sem er eins og ég gat um áðan 52% hækkun á milli ára.

Áætlað er að rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins á þessu ári nemi um 608 millj. en á næsta ári 946, sem er rúmlega 55% hækkun. Lægri hlutfallsleg aukning á eftirlitsgjaldinu á rekstrarkostnaðinum skýrist af hærra álögðu eftirlitsgjaldi á árinu 2007 en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir, áhrifum yfirfærslu á eigið fé milli ára og auknum vaxtatekjum. Þetta eru háar upphæðir og þess ber að geta að eftirlitsskyldir aðilar standa að öllu leyti undir kostnaði við rekstur af Fjármálaeftirlitinu og þarf því ekki að lesa álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila gaumgæfilega til að sjá að þeir gera sér vel grein fyrir því, standa á bak við þetta öfluga fjármálaeftirlit og viðleitni, áhuga og markmið stjórnvalda um að efla Fjármáleftirlitið enn þá frekar. Þar er fullkomið samræmi á milli stefnumörkunar okkar og hinna eftirlitsskyldu aðila sem standa á bak við Fjármálaeftirlitið og standa straum af rekstrarkostnaði. En eins og ég gat í upphafi ræðu minnar hvílir útrás og uppgangur þessara fyrirtækja að miklu leyti á því að þau njóti trausts og að Fjármálaeftirlitið sem tryggir þeim það njóti alþjóðlegrar viðurkenningar í hvívetna, enda eiga þau mikið undir því að Fjármálaeftirlitið komi vel út gagnvart greiningar- og matsfyrirtækjum sem heimsækja eftirlitið tugum saman á hverju einasta ári. Hver hundraðshlutur úr prósentustigi eða punktur í lánshæfismati er reyndar talinn kosta innlend fjármálafyrirtæki um 550 millj. kr. Hér eru því gífurlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi, bæði fyrir samfélagið allt, einstakar fjármálastofnanir og allt gangvirkið í okkar efnahagslífi. Því er til mikils að vinna að trúverðugleiki Fjármálaeftirlitsins sé sem mestur og stóru þættirnir í því eru öflug sanngjörn löggjöf sem sníður því sanngjarnan stakk, tekjustofnar sem duga því til að standa undir starfseminni og að sjálfstæði stofnunarinnar sé virt í hvívetna af stjórnvöldum hverju sinni.

Af einstökum rekstrarliðum rekstraráætlunar næsta árs vegur launakostnaðurinn þyngst en hann er áætlaður 675 millj. kr. eða rúmlega 71% af heildarútgjöldum og vex hann um 64% á milli ára. Aðrir helstu útgjaldaliðir ráðast af starfsmannafjölda. Má þar nefna húsnæðiskostnað sem er áætlað að verði 57 millj. kr. á næsta ári og aukist um yfir 200% og rekstur tölvubúnaðar sem er áætlað að verði um 70 millj. kr. Áætluð hækkun launakostnaðar ræðst einkum af fjórum atriðum: Í fyrsta lagi samningsbundnum launahækkunum og lausum kjarasamningum á næsta ári. Í öðru lagi fjölgun starfsmanna. Í þriðja lagi kostnaði við að mæta launaskriði á fjármálamarkaði og þróa svokallaða kælitímasamninga. Í fjórða lagi kostnaði við að þróa árangurs- og frammistöðutengt launakerfi. Það verður ekki litið fram hjá því að mikil starfsmannavelta hefur verið hjá Fjármálaeftirlitinu á liðnum árum eins og mörgum ríkisstofnunum og ráðuneytum og öðrum stofnunum sem sækjast eftir starfskröftum sem mikið er sótt í af mörgum öðrum fyrirtækjum, mörgum einkafyrirtækjum. Það er nauðsynlegt að stofnunin hafi möguleika á að ráða til sín og halda hæfum starfsmönnum af því að mikil starfsmannavelta veikir innviði stofnunar eins og Fjármálaeftirlitsins og það tekur langan tíma að þjálfa starfsfólk upp þannig að það nái vel utan um hlutverkið. Það er til mikils að vinna að halda því fólki sem hefur ráðið sig þar í vinnu og komið sér vel inn í starfið og sinnir því vel. Það er mjög mikilvægt og skiptir miklu máli að Fjármálaeftirlitinu takist þar vel upp. Má geta þess að í árslok er gert ráð fyrir að um 45 stöðugildi verði virk hjá Fjármálaeftirlitinu og að 10 stöðugildi bætist við á næsta ári.

Auk viðbótarverkefna sem lögð hafa verið á Fjármálaeftirlitið með setningu nýrra laga hefur útrás íslenskra fjármálastofnana ráðið langmestu um fjölgun starfsmanna eins og ég nefndi áðan. Í fylgiskjali II með frumvarpinu er að finna umfjöllun um útrásina og þau áhrif sem hver starfsstöð á erlendri grundu hefur á starfsmannaþörf stofnunarinnar, af því að Fjármálaeftirlitið þarf að fylgjast með starfsstöðvum hinna íslensku fjármálaútrásarfyrirtækja hvar sem þau eru í heiminum. Nú síðast opnaði einn íslensku bankanna útibú í Dubai þannig að starfsemi íslensku fjármálafyrirtækjanna er farin að teygja sig út um allan heim, til Asíu, Evrópu, Ameríku o.s.frv. Fjármálaeftirlitið og geta þess til að sinna hlutverki sínu má því ekki verða þrándur í götu þessarar starfsemi. Er mikilvægt að það haldi í við útrásina eða starfsemi og umfang íslenskrar fjármálaþjónustu erlendis sem hefur skilað íslensku samfélagi þúsundum hálauna- og góðra starfa innan lands og utan og ungu íslensku fólki fjölmörgum atvinnutækifærum út um allan heim. Það efast því enginn um þjóðhagslegan ábata af þessari starfsemi og mikilvægi þess að stjórnvöld standi á bak við fjármálastofnanirnar með sanngjarnri og góðri löggjöf og öflugum eftirlitsstofnunum sem geta sinnt hlutverki sínu.

Meðal fylgiskjala með frumvarpinu er skýrsla Fjármálaeftirlitsins til viðskiptaráðherra um starfsemi eftirlitsins og hvet ég þingheim og aðra sem áhuga hafa eindregið til að kynna sér efni hennar sem er mjög fróðlegt yfirlit yfir, eins og ég sagði áðan, þá ævintýralegu útrás og aukningu sem er í starfsemi fjármálafyrirtækja og þar með náttúrlega eftirlitsstofnunar á borð við Fjármálaeftirlitið eigi hún að halda í við og geta sinnt hlutverki sínu. Þar er fjallað um eftirlit með einstökum sviðum fjármálamarkaðar, lánamarkaðar, verðbréfamarkaðar, vátryggingamarkaðar og lífeyrismarkaðar, auk þess sem greint er frá þróun og horfum á íslenskum fjármálamarkaði og áherslum í starfi Fjármálaeftirlitsins næstu missirin. Skýrslan er fróðleg lesning öllum sem vilja kynna sér þróun á innlendum fjármálamarkaði og þeir eru örugglega margir og ekki undarlegt þar sem það er mjög skemmtileg og merkileg íslensk athafnasaga sem þarna er að teikna sig upp og eiga sér stað núna ár frá ári.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.