135. löggjafarþing — 10. fundur,  16. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[17:20]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að áfengi er í búðum. Það er í sérbúðum. Ég sagði, held ég, einnig í ræðu minni að við förum oft í sérverslanir til að kaupa tilteknar vörur, t.d. í blómabúðina. Við kaupum bækur, skó og guð má vita hvað í sérverslunum. En maður fer í slíkar sérverslanir í vissum ásetningi, til þess að kaupa tilteknar vörur. Það er eins með vínbúðirnar, maður fer í vínbúðina til þess að kaupa tiltekna vöru. Það er ásetningur að kaupa vín.

Það væri öðruvísi ef vínið stæði við rekkann þar sem maður er á kassanum í stórmarkaðnum, þá kemur upp viðhorfið: Grípum með okkur eina flösku, gott að hafa rauðvín með ostinum. Tökum eina kippu af bjór. Það er það sem ég er að segja. Þetta mun óhjákvæmilega þýða að aðgengið verður enn meira, neyslan mun aukast og þar er samhengið við heilbrigðispólitíkina sem ég hef hér verið að tala um. Svo geta hv. flutningsmenn hlegið að því og haft gaman af. Ég bara gleðst yfir (Forseti hringir.) því að geta skemmt þingmönnum þegar liðið er á daginn.