135. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2007.

skuldasöfnun í sjávarútvegi.

[15:57]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ef svo heldur fram sem hefur gert síðustu tvö árin munu skuldir íslensks sjávarútvegs í lok árs 2008 fara í 350–370 milljarða. Á síðustu tveimur árum hafa skuldir sjávarútvegsins aukist um 85 milljarða. Hraðinn er ótrúlega mikill.

Þegar nú koma tilmæli frá ríkisstjórninni um m.a. að bankarnir skuldbreyti og færi vexti og afborganir aftur fyrir munu skuldirnar aukast enn hraðar, það getur ekkert annað gerst. Þetta er vandinn sem við stöndum frammi fyrir og þess vegna er mikil ástæða til að ræða þessa skuldastöðu, hæstv. forseti.

Því verður aldrei á móti mælt að þessi skuldavegferð í sjávarútveginum hófst fyrst og fremst eftir að tekin var upp algjörlega frjáls sala á aflaheimildum upp úr 1990. Þá þarf auðvitað að huga að því sem hæstv. ráðherra vék hér að áðan, að menn lánuðu sennilega ekki í bönkum nema þeir hefðu veð. Það er auðvitað hið sama og gildir á fasteignamarkaði, menn lána ekki nema þeir hafi veð. En ætli menn hafi ekki áhyggjur af því hvar veðsetningin er á fasteignamarkaðnum? Mér finnst skrýtin afsökun hjá hæstv. ráðherra að bera þetta sérstaklega fram þegar athygli er vakin á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir.

Í annan stað ráðum við ekki heimsmarkaðsverðinu. Við ráðum ekki heimsmarkaðsverði á sjávarafurðum, það er hátt verð á afurðum í dag. Það þarf ekki mikið að gerast, hæstv. forseti, til að staðan sem ég hef verið að ræða hér við hæstv. ráðherra verði sú að við hrökkvum yfir 400 milljarða í skuldum í sjávarútveginum eftir rúmt ár. Það þarf ekki mikið að gerast til þess. Ætla menn bara að sitja og aðhafast ekki nokkurn skapaðan hlut?