135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

eignarhlutur ríkisins í Landsvirkjun.

[10:40]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Hér er rætt um eignarhald á Landsvirkjun. Eins og fram kom hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni er það partur af umræðunni um hvernig fara skuli með eignarhald á orkufyrirtækjum og orkuauðlindum. Ég vona að við getum verið sammála um að slík umræða er ekki afgreidd í eitt skipti fyrir öll. Við þurfum virkilega að fá fram stefnumarkandi umræðu um þetta. Það verður ekki gert á einum fundi.

Hér var spurt um hvort til stæði að breyta Landsvirkjun í hlutafélag og svar hæstv. forsætisráðherra var einfaldlega að þeirri spurningu hafi ekki verið svarað. Umræðan er vitaskuld til að fá fram svör og ég tel mjög mikilvægt að þeirri spurningu verði svarað sem fyrst. Ég get ekki knúið það fram úr því að ríkisstjórnin er í þessu máli, eins og svo mörgum öðrum, ekki samstiga. Hún getur þar af leiðandi ekki svarað þessari spurningu. Hæstv. forsætisráðherra getur ekki svarað henni í dag og það kemur mér svo sem ekkert á óvart. Það eru margar spurningar sem ráðherrar okkar ágætu ríkisstjórnar hafa ekki getað svarað að undanförnu.

Ég tel málefnið sem hér um ræðir með Landsvirkjun engan veginn einfalt úrlausnar. Við sjáum það af þeirri umræðu sem orðið hefur um orkufyrirtæki höfuðborgarbúa. Sú stefna er algerlega skýr hjá Sjálfstæðisflokki að hið opinbera megi hvergi koma að áhætturekstri og það er rétt sem hv. þingmaður Illugi Gunnarsson hefur bent á í stuttri klausu í Morgunblaðinu í síðustu viku, (Forseti hringir.) að Landsvirkjun er sannarlega áhættufyrirtæki. Ég kalla eftir ákveðinni samkvæmni í málflutningi hjá stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar.