135. löggjafarþing — 13. fundur,  18. okt. 2007.

tekjuskattur.

15. mál
[20:20]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel mig knúna til að koma með ákveðna ábendingu um rangar forsendur sem hv. þingmaður gaf sér í ræðu sinni og á jafnframt við um fleiri sem hafa tekið til máls hér í kvöld.

Mörg og þung orð verið látin falla um þá 2.500–3.000 skattgreiðendur sem greiða eingöngu fjármagnstekjuskatt og verið talað um gæludýr Sjálfstæðisflokksins, (AtlG: Gæluskattgreiðendur.) gæluskattgreiðendur Sjálfstæðisflokksins. Nú langar mig að lesa fyrir hv. þingmann hverjir eru þessir gæluskattgreiðendur Sjálfstæðisflokksins.

Í Morgunblaðinu 13. ágúst sl. birtist tilkynning frá fjármálaráðuneytinu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í tilkynningu frá ráðuneytinu er tilgreint að 2.381 einstaklingur sé einungis með fjármagnstekjur og 90% þeirra séu með minna en 50 þúsund krónur í fjármagnstekjur á ári. Að stórum hluta sé þarna um að ræða ungt fólk (AtlG: Ertu komin í andsvar við mig?) sem ekki er á vinnumarkaði (Gripið fram í.) en af þeim 2.381 einstaklingi sem þarna um ræði greiði einungis 116 einhvern fjármagnstekjuskatt.“

Ég segi þetta því að hv. þingmaður sem ég er í andsvari við var með þessa sömu tölu áðan.

„Á árinu 2006 var fjöldi hjóna sem ekki var með neinar aðrar tekjur en fjármagnstekjuskatt alls 150. 57% þeirra voru með minna en 100 þúsund krónur á árinu í fjármagnstekjur og 61% með minna en eina milljón króna í fjármagnstekjur. Einungis 51 hjón í þessum hópi greiða einhvern fjármagnstekjuskatt.“

Þetta eru gæluskattgreiðendur Sjálfstæðisflokksins.