135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:05]
Hlusta

Flm. (Jón Magnússon) (Fl):

Herra forseti. Ég ásamt öðrum í þingflokki Frjálslynda flokksins flyt hér þingsályktunartillögu um skipan lánamála og sambærileg lánakjör einstaklinga hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að leita leiða til að koma skipan húsnæðislána og lána til neytenda í svipað horf og annars staðar á Norðurlöndum þannig að verðtrygging verði afnumin og samkeppni á lánamarkaði fyrir neytendur tryggð. Gjaldtaka lánastofnana verði svipuð og annars staðar á Norðurlöndum. Þá láti ráðherra fara fram skoðun á orsökum þess að lánakjör neytenda eru önnur á Íslandi en um ræðir annars staðar í okkar heimshluta.

Ítrekað hefur komið fram í samanburðarkönnunum milli Íslands og annarra Norðurlanda að lánakostnaður einstaklinga og fjölskyldna er mun hærri hér en annars staðar í okkar heimshluta. Hvort tveggja kemur til að vextir eru almennt hærri en um ræðir í okkar heimshluta og við bætist verðtrygging á lengri lán. Í samnorrænni samanburðarkönnun sem nefnd var Á hvaða kjörum er bankaþjónusta í boði fyrir einstaklinga, sem unnin var fyrir tæpum tíu árum, kom fram að þjónustugjöld banka hér eru almennt hærri en í nágrannalöndunum. Ýmsum kann að finnast langt til seilst að vísa til samanburðarkönnunar sem var gerð fyrir tíu árum en það er sama hvort litið er til lengri eða skemmri tíma, lán eru dýrari hér en annars staðar í okkar heimshluta.

Í yfirliti frá Samkeppniseftirlitinu frá 23. ágúst sl. var kynnt skýrsla um bankamarkað á Norðurlöndum og í því tilefni var tekið fram eftirfarandi:

„Meiri vaxtamunur er á Íslandi en á Norðurlöndunum“ — og í öðru lagi — „samkeppniseftirlitið telur nauðsynlegt að gripið verði til aðgerða til þess að auka hreyfanleika viðskiptavina bankanna en það er mikilvæg forsenda fyrir aukinni virkri samkeppni á markaðnum.“

Í lok þessarar samantektar Samkeppniseftirlits Íslands og annarra Norðurlandaþjóða segir, með leyfi forseta:

„Ætla verður að bankar og sparisjóðir hafi bolmagn til að efla samkeppni í þjónustu sinni neytendum til hagsbóta. Samkeppniseftirlitið bendir á að mikil samþjöppun á íslenskum bankamarkaði getur hamlað virkri samkeppni. Því er nauðsynlegt að koma í veg fyrir allar aðgangshindranir að markaðnum og ryðja úr vegi samkeppnishindrunum.“

Við höfum einnig tiltölulega nýja könnun sem unnin var af Neytendasamtökunum þar sem var um að ræða könnun á húsnæðismarkaði á Íslandi og Norðurlöndunum frá því í nóvember 2005.

Þar kemur m.a. fram í fréttatilkynningu, með leyfi forseta, sem niðurstaða könnunar:

„Það er dýrara í upphafi að taka húsnæðislán hér á landi þar sem lántökugjald íslenskra fjármálafyrirtækja er umtalsvert hærra en að jafnaði í hinum níu löndunum,“ sem sagt okkar næstu löndum í Evrópu, en síðan segir:

„Þegar kemur að því að greiða lánið til baka er það miklu dýrara fyrir íslenska neytendur en nágrannaþjóðir okkar og því valda einkum þrír þættir:

1. Vaxtastig á húsnæðislánum er að jafnaði lágt í flestum viðmiðunarlöndunum og virðast lántakendur njóta þess víðast hvar.

2. Vextir hér eru þeir hæstu á því svæði sem könnunin nær til. Raunvextir eru að jafnaði frá tveimur og upp í tæplega fimm prósentustigum hærri en í hinum Evrópulöndunum.

3. Kostnaður við greiðslu afborgana er mun hærri og uppgreiðslugjald er yfirleitt hærra.“

Þetta er niðurstaða könnunar sem var unnin í tíu Evrópuríkjum sem eru næst okkur í Evrópu; Norðurlöndin, Bretland, Írland, Þýskaland og Austurríki.

Í samantekt varðandi þessa könnun segir í fyrsta lagi að verðtrygging þekkist ekki nema einungis hér en síðan segir, með leyfi forseta:

„Nafnvextir á Íslandi eru til muna hærri en á hinum Norðurlöndunum. Þegar litið er til lána með breytilegum vöxtum, en ekki er mikið um húsnæðislán með breytilegum vöxtum í íslenskum lánastofnunum, þá eru lægstu nafnvextir slíkra lána um 5,8 prósentum hærri en þar sem þeir eru lægstir á Norðurlöndum þ.e. í Danmörku.“

Síðan er vikið að því og rakið í þessari greinargerð, þessari samanburðarkönnun, hvernig íslenskir lántakendur búa við allt, allt önnur og mun verri kjör en fólkið í nágrannalöndum okkar.

Þorvaldur Gylfason, prófessor við viðskiptadeild Háskóla Íslands, hefur bent á að vaxtamunur á Íslandi hafi farið hægt vaxandi frá 1999 og sé nú orðinn á milli 12 og 14% en hafi verið í kringum 4% árið 1999.

Hagfræðingur Neytendasamtakanna segir varðandi þessi atriði, með leyfi forseta, í grein sem hann skrifar 18. september, 2007:

„Heimilin í landinu skulduðu í lok júlí 75,6 milljarða í svokölluð yfirdráttarlán eða sem nemur 252.000 á hvern einstakling. Þessar skuldir jukust um 17% milli mánaða eða 11 milljarða og eru nú um 10% af skuldum heimilanna. Þessi lán eru að meðaltali á 20% vöxtum en ekki tæpum 10% vöxtum eins og húsnæðislán.“

Þetta er sú staðreynd sem blasir við í íslensku þjóðfélagi.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Ljóst er miðað við skuldastöðu heimilanna í dag að miklir erfiðleikar verða innan skamms tíma vegna ofurvaxta lánastofnana og verðtryggingar.“

Þorvaldur Gylfason, prófessor við viðskiptadeild Háskóla Íslands, segir, með leyfi forseta:

„Yfirdráttarvextir eru um 18 þúsund kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu að meðaltali og bendir á að lán séu hér dýrari en annars staðar í okkar heimshluta vegna þess að hér skorti eðlilega samkeppni á lánamarkaði fyrir einstaklinga.“

Samkvæmt því sem liggur fyrir varðandi útlánsvexti eru útlánsvextir og yfirdráttarvextir þar sem þeir eru hæstir komnir upp í tæplega 24% eða 23,95% og vextir af Vísa-fjölgreiðslum eru 23,8%. Þetta eru slíkir ofurvextir að það getur ekki nokkur staðið undir því.

Þar til viðbótar erum við með mjög sérstakt fyrirkomulag sem heitir verðtrygging lána með sérstaka tilbúna reiknieiningu sem sem heitir vísitala neysluverðs til verðtryggingar. Ef við skoðum hvernig það kemur út liggur fyrir að algengustu lán sem eru verðtryggð eru annaðhvort til 25 ára eða 40 ára og ef við skoðum 40 ára lán sem er verðtryggt og er tíu milljónir, miðað við að um sé að ræða 4,15% vexti á ári og áætlaða vísitöluhækkun 4,5% — þ.e. svona góð vaxtakjör bjóðast nú ekki á markaðnum í dag en við skulum samt miða við það — og athugum hvernig þetta dæmi lítur út miðað við endurgreiðslu, við erum að tala um 10 millj. kr. lán.

Það sem lántakandi fær í hendurnar eru 9,650 millj., ekki 10 milljónir heldur 9,650 millj. kr. Vegna hvers? Vegna þess að það dragast frá lántöku- og stimpilgjald. En hver er heildarendurgreiðslan af þessum 9,650 millj. kr. þegar upp er staðið? 56.463.746 kr. á því tímabili sem um ræðir vegna þess að við erum með þá sérkennilegu aðferð að vera með verðtryggðu lánin sem eru í raun þannig að lántakandinn er að taka vexti að láni og borgar síðan af þeim vexti og verðbætur í 25 ár og allt að 40 árum og verðbæturnar reiknast mánaðarlega og leggjast á höfuðstólinn. Síðan eru reiknaðir vextir og verðbætur af þeim verðbótum og síðan áfram mánaðarlega af uppfærðum höfuðstól. Þetta kerfi hefur reynst lántakendum dýrt og satt best að segja þarf hugdirfð og hugmyndaflug til að búa til lánaumhverfi sem er jafnóhagkvæmt lántakendum og raun ber vitni.

Hvers vegna þurfum við ein þjóða að búa við svona kerfi? Hvað réttlætir það að við séum eina þjóðin sem þarf að hafa þessa aðferð? Í sjálfu sér geta menn velt því fyrir sér hvort þetta hafi verið nauðsynlegt á sínum tíma miðað við óeðlilegar aðstæður þegar hagstjórnin var það léleg í landinu að um var að ræða stöðuga óðaverðbólgu og lánsfé var að komast til þurrðar. Þá þurfti að bregðast við óeðlilegu ástandi með óeðlilegum ráðstöfunum en þegar við höfum þjóðfélag þar sem annað er upp á teningnum er þá eðlilegt að við viðhöldum hinum óeðlilegu ráðstöfunum? Er eðlilegt að við látum neytendur á Íslandi endalaust gjalda þess, lántakendur, að það var óeðlilegt ástand á Íslandi fyrir tæpum 20 árum? Er ekki miklu eðlilegra að við förum að feta okkur inn á og miða við það sem hér segir og lagt er til í þessari þingsályktunartillögu að lánakjör og lánaumhverfi fyrir einstaklinga í landinu verði með svipuðum hætti og í nágrannalöndum okkar?

Aðeins til viðmiðunar og til þess að benda á, virðulegur forseti, hversu sérkennilegt þetta allt saman er, hvernig vísitala neysluverðs til verðtryggingar þróast með allt öðrum hætti en gerist í veröldinni varðandi það þegar fólk tekur lán í alvörumynt, þar sem viðkomandi mynt þarf ekki einhverja viðbjóðslega hækju eins og íslenska krónan sem er verðtryggingin, þ.e. vísitala neysluverðs til verðtryggingar. Ef borið er saman t.d. verð á gjaldmiðlum sem voru til árið 2000 og eru nú nokkuð algengir í samanburði hér á landi, þá þurfti 85 kr. til þess að fá einn dollara 1. október 2000 en í dag er gengi dollara 61,77 kr. Dollari hefur lækkað á tímabilinu, á sjö ára tímabili, um 27% rúm. Á sama tíma hefur pundið, sem kostaði 122 kr. 1. október 2000 en kostar í dag 126 kr., hækkað um 3%. Jenið var 80 aurar en er núna 53 aurar og hefur lækkað um 34%. En hvað skyldi þá vísitala neysluverðs til verðtryggingar hafa hækkað á sama tíma og dollari og jen hafa lækkað um 30% og þar af leiðandi lán þeirra sem hafa tekið lán í þeim gjaldmiðlum? Jú, hún hefur hækkað hvorki meira né minna en um 37,3%. Vísitala neysluverðs til verðtryggingar slær því út alla gjaldmiðla. Þetta er sterkasta viðmiðunin og reiknieiningin sem hægt er að hugsa sér. Á sama tíma og dollari og jen lækka, dollarinn um tæp 30% og jenið rúm 30%, þá hækkar vísitala neysluverðs til verðtryggingar um tæp 40%. (Gripið fram í.) Við erum að tala um lán og við erum að tala um viðmiðanir. Þú hefur sjálfsagt launavísitöluna og þú getur bara komið því að á eftir, virðulegi þingmaður. (Forseti hringir.)

Nú segir einhver: Hér er verið að taka einhverja vísbendingu eða tímabil sem er hagkvæmt í viðmiðuninni. Svo er ekki, menn geta t.d. skoðað hvað var að gerast 1. október 2005 og allt ber að sama brunni, það er enginn alvörugjaldmiðill í heimi sem stenst vísitölu neysluverðs til verðtryggingar snúning. Þetta eru slíkir afarkostir, virðulegi forseti, að við það verður ekki unað að íslenskir lántakendur þurfi að sæta þeim. Hér er um svo mikið hagsmunamál fyrir íslenskar fjölskyldur, fyrir íslensk heimili að ræða að enda þótt við séum með hæsta markaðsstuðning í heimi varðandi landbúnaðinn er sá stuðningur hjóm eitt miðað við þær álögur sem eru lagðar á einstaklinga og fjölskyldur vegna þess að við njótum ekki eðlilegra lánakjara hér á landi.

Ég legg til að þingsályktunartillögunni verði vísað til viðskiptanefndar.