135. löggjafarþing — 14. fundur,  30. okt. 2007.

lánamál og lánakjör einstaklinga.

20. mál
[17:20]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er engum blöðum um það að fletta að lánamálin, kostnaðurinn á Íslandi við að skulda peninga og borga af þeim, eru gríðarleg útgjöld fyrir heimilin. Miðað við neysluverðsvísitölu Hagstofu Íslands eru um 40% af útgjöldum heimilanna fólgin í húsnæðisliðnum sem nær yfir húsnæði, rafmagn, hita og ferðir og flutning og það er enginn einn liður sem er jafnhár í útgjöldum heimilanna og þessi. Það liggur líka fyrir að íslensku heimilin eru með þeim skuldsettustu í heiminum, þó að ég vilji ekki fullyrða að þau séu þau allra skuldsettustu eru þau örugglega með þeim hæstu í víðri veröld. Í þriðja lagi liggur einnig fyrir, eins og kom fram í máli hv. 1. flutningsmanns málsins, Jón Magnússonar, að vaxtakjör hér á landi eru mjög há og hærri en í níu löndum sem tekin voru til samanburðar af neytendasamtökum í Evrópu og munurinn er sem svarar 2–5 prósentustigum í raunvöxtum.

Ef við reynum að gera okkur grein fyrir hve háar fjárhæðir er um að ræða fyrir venjulegt íslenskt heimili með venjulegar skuldir, hvað það er mikill kostnaður sem venjulegt íslenskt heimili verður fyrir af hálfu viðskiptabankanna vegna þess að þeir taka meira fyrir viðskipti sín en sambærilegir bankar erlendis þá kemur í ljós að þetta eru gríðarlegar fjárhæðir. Það er því eitt stærsta verkefni stjórnvalda á hverjum tíma að reyna að lækka þennan kostnaðarlið, stjórnvöld sem ætla sér að hafa hag heimilanna að leiðarljósi eiga að einbeita sér að þessum þætti útgjalda heimilanna. Þetta er stóra málið þar sem skyldan hvílir á ríkisstjórnarflokkunum að ná árangri í því að koma lánakjörunum og kostnaðinum við að skulda niður í sambærileg mörk og gerist í sambærilegum löndum í Evrópu, löndum með sambærileg lífskjör og efnahagsstyrk, að ná fram þeim árangri að íslensku bankarnir veiti viðskipti með sambærilegum kjörum og bankar gera erlendis.

Gleymum því ekki að hagnaður íslensku viðskiptabankanna var í hittiðfyrra 117 þús. millj. kr. (Gripið fram í.) 200 milljarðar kemur hér upplýst úr salnum, líklega þá hagnaðurinn árið 2006. (Gripið fram í.) Ja, það er greinilegt að það er hægt að græða býsna mikið á íslenskum neytendum. Er nú ekki ástæða til fyrir stjórnarflokkana hér á landi að hugsa um almenning, að fara að snúa sér frá því að vera þjónustuliprir vikapiltar fyrir fjármagnseigendur og stórfyrirtæki í það að hugsa um almenning, kjör litla mannsins í þjóðfélaginu? Það má fara að huga að því, virðulegi forseti.

Það að kostnaðurinn hér á landi er frá 2 prósentustigum upp í 5 prósentustig á ári í raunvöxtum umfram það sem gerist í sambærilegum löndum í Evrópu þýðir fyrir venjulega íslenska fjölskyldu sem skuldar um 25 millj. kr. — sem ég hygg að sé ekki óalgengt að fólk skuldi — það þýðir á hverju ári að lágmarki hálf milljón króna ef miðað er við 2 prósentustig í umframkostnað á hverju ári við að skulda þessa fjárhæð. Ef ég miða við 5 prósentustig sem eru efri mörkin í samanburðinum í þessum tíu Evrópulöndum þá eru umframkostnaðurinn 1,250 millj. á ári. Ef við miðum við meðaltekjur Íslendings, segjum að þær séu 3,6 millj. á ári eða 300 þús. á mánuði, þá er verið að borga að lágmarki hartnær tveggja mánaða laun í umframkostnað við að skulda þessa peninga sem væri þeim mun lægra ef við miðuðum við vaxtastigið í Evrópu. Þetta er kostnaður sem ekki er hægt að búa við, það er engin ástæða til að líða það af hálfu stjórnvalda að gefa viðskiptabönkunum það starfsumhverfi að þeir geti okrað svona á íslenskum neytendum. Þeir sem hafa setið í stóli viðskiptaráðherra á undanförnum árum ættu að hafa í huga að það var fyrst og fremst þeirra hlutverk að huga að hagsmunum almennings en ekki að sjá til þess að réttir aðilar fengju að kaupa réttu bankana. Það hefur aldrei verið stórmannlegt pólitískt viðfangsefni að hafa það að leiðarljósi.

Virðulegi forseti. Þetta er stórmál og við horfum mjög til þess hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Fyrir hverja er Samfylkingin að vinna í þessu ríkisstjórnarsamstarfi, virðulegi forseti? Er hún að vinna fyrir úlfana í íslenska fjármálaheiminum sem ferðast um á þotum milli landa í partíin og tónleikana og bjóða með sér 200 manns? Eða er hún að vinna fyrir kennarann, verkamanninn, sjómanninn og þá sem búa við hin venjulegu íslensku kjör og skulda þessa peninga sem fólk gerir til að eiga þak yfir höfuðið? Ætlar ríkisstjórnin að vinna fyrir þetta fólk eða ætlar hún að vinna fyrir úlfana í íslensku þjóðfélagi?

Við vitum hver staðan er og það var rakið ágætlega í framsöguræðu málsins. Það er verið að okra á íslenskum almenningi. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að bregðast við? Við sjáum það, allir ráðherrabekkirnir eru auðir. Hvar er íslenska ríkisstjórnin, virðulegi forseti? Er hún að leita að umbjóðendum sínum, er hún að leita að þeim sem hún er að vinna fyrir? (Gripið fram í.) Er hún að leita að hinum skulduga Íslendingi, til að spyrja hann að því hvernig hann fari að því að borga þessar skuldir, þessa háu vexti, virðulegi forseti? Það væri fróðlegt að fá svör við því hvar hinn lipri viðskiptaráðherra er um þessar mundir sem hefur góð áform uppi í neytendamálum og við í Frjálslynda flokknum erum alveg tilbúin að standa við bakið á honum ef einhver skortur er á stuðningi við áform hans úr röðum stjórnarflokkanna. Um það verður spurt, virðulegi forseti: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að lækka kostnað íslensku heimilanna af fjármagninu? Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt okkar af mörkum til þess að auðvelda ríkisstjórninni verk sitt.