135. löggjafarþing — 15. fundur,  31. okt. 2007.

dómstólar.

22. mál
[15:49]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég get verið sammála síðasta ræðumanni um að það er mikilvægt að friður ríki um Hæstarétt og það mál sem hér liggur fyrir og er til umfjöllunar hlýtur að ganga út á að meiri friður ríki um Hæstarétt, ég geri mér ekki hugmyndir um að eitthvað annað búi þar að baki. Vissulega er þetta endurflutt og mér heyrist 1. flutningsmaður, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, vera mjög varkár í orðum að þessu sinni enda hefur staða hans breyst frá því að hann flutti þetta mál áður. Ég taldi því að það hefði eitthvað með það að gera að hann væri ósáttur við það hvernig núverandi og fyrrverandi dómsmálaráðherrar hafa staðið að málum í sambandi við skipan hæstaréttardómara, en látum það vera.

Með því fyrirkomulagi sem hér er lagt til er þrískiptingu valdsins betur framfylgt og ég held að það sé mikið til í því að það sé nær lagi hvað varðar þennan mikilvæga grundvallarþátt. Að Alþingi hafi þarna þetta mikilvæga hlutverk finnst mér athyglisverð hugmynd og vil alls ekki útiloka að hún sé þess virði að skoða hana mjög náið og jafnvel að það gæti verið besta leiðin. Hins vegar er ég með efasemdir um þetta fyrirkomulag í sambandi við nefndina og það að taka upp bandaríska fyrirkomulagið um að viðkomandi einstaklingar sem sækjast eftir þessum mikilvægu embættum sitji fyrir svörum og þar fram eftir götunum. Það er dálítið amerískt en ætti kannski síður við hér hjá okkur.

Hugsunin hjá hv. þingmanni er sú að þingmenn starfi í umboði þjóðarinnar og því sé það miklu frekar þeirra hlutverk að taka á þessu en að það sé einn ráðherra eins og nú er. Mér heyrist vera dálítil ósamstaða á milli stjórnarflokkanna um þetta mál og það kemur mér í raun ekki á óvart því það sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hafði fyrst og fremst út á að setja var það fyrirkomulag sem ríkir í dag og hefur ríkt en það er uppröðun umsækjenda af hálfu Hæstaréttar. Vissulega hefur Hæstiréttur haft mikið vald sem ég vil ekki segja að hann hafi tekið sér en hann hefur a.m.k. notfært sér það vald sem hann hefur til að raða upp einstaklingum og þá er staða dómsmálaráðherra orðin ansi þröng. Það sem hefur verið gagnrýnt sérstaklega er að dómsmálaráðherra hefur ekki tekið uppröðunina alvarlega í öllum tilfellum og það hefur valdið miklum deilum í þjóðfélaginu. Það hefur í raun verið dregið í efa að hæstv. dómsmálaráðherra hafi staðið faglega að málum. Það eru stór orð en það er þó þannig að mínu mati.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vitnaði í mikla menn eins og Jón Steinar Gunnlaugsson og Styrmi Gunnarsson og miðað við Reykjavíkurbréfið sem var lesið hér upp þá heyrðist mér það aðallega vera skoðun Styrmis að þessi uppröðun eigi ekki að eiga sér stað, það er það sem hann lagði mesta áherslu á og kannski ekki að ástæðulausu miðað við að þarna er um málgagn Sjálfstæðisflokksins að ræða.

Ég vildi fyrst og fremst koma hér upp til þess að segja að mér finnst þetta athyglisvert mál og ég tel fulla ástæðu til þess að þingið fjalli um það — og það verður gert — og ég hef þá tilfinningu að það geti orðið stemmning fyrir því hér á hv. Alþingi að breyta þessu fyrirkomulagi og þá eitthvað í líkingu við það sem hér er lagt til af hálfu þessara fjögurra þingmanna með hv. þingmann og formann þingflokks Samfylkingarinnar, Lúðvík Bergvinsson, í broddi fylkingar.