135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

stjórn fiskveiða.

25. mál
[20:09]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Fyrst örstutt athugasemd eða ábending frá minni hálfu varðandi fundinn sem hér stendur yfir. Ég fékk þær upplýsingar að honum lyki klukkan sex en svo var honum fram haldið án þess að ég fengi vitneskju um það. Ég er búinn að sitja hér í salnum frá klukkan hálfellefu í morgun til klukkan sex og taka drjúgan þátt í umræðunum og fór síðan heim. Þetta hentar mér illa og ég bið frú forseta að koma því til skila að menn komi betri skikk á þetta og vek sérstaka athygli á því að samflokksmaður minn eða samflokkskona, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, sat hér ófrísk og vissi ekki betur en að fundi lyki á þessum tíma. Þetta tengist auðvitað jafnréttismálunum sem við ræddum í dag, að hér sé skipulag þannig að konur geti sinnt þingstörfum. Ég veit að frú forseti hefur fullan skilning á því en ég vildi koma þessum skilaboðum á framfæri vegna þess að ég var farinn heim þegar ég dreif mig hér niður eftir vegna þess að ég vildi taka þátt í umræðu um þetta mikilsverða mál.

Þá um þetta mál sem ég styð og tek undir. Það skapar að mínu mati engin vandamál í fiskveiðistjórninni og það sem meira er, þetta frumvarp byggir að mínu mati á djúpstæðri reynslu og þekkingu sjómanna. Þarna er verið að leggja til vistvænar veiðar án nokkurra spjalla og það er líka hárrétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Kristni Gunnarssyni að þetta er byggðamál.

Eftir því sem ég kynni mér þessi mál betur, eftir því sem ég fer víðar um Suðurkjördæmi og eftir því sem ég fer víðar um landsbyggðina sé ég að það verður að grípa til úrræða. Ég sé þetta úrræði sem eina bestu mótvægisaðgerð sem menn gætu komið sér upp vegna þess að af þessum handfæraveiðum leiðir miklu meiri vinna, af þeim leiðir miklu meiri verðmætasköpun en af verksmiðjuveiðunum, ef ég mætti kalla þær svo. Það er ótrúlegur munur á mannskapnum í kringum þetta og með þessum veiðum erum við líka að afla hráefnis sem er besta hráefni sem við getum fengið.

Í dag eru fiskvinnslur að auglýsa fisk veiddan með þessum hætti, á króka. Ef ég man rétt var auglýsing um bát gerðan út frá Bolungarvík og allt er sýnt með vistvænum hætti til að selja svo sem verksmiðjuframleiddar vörur. Ég tek því heils hugar undir þetta mál, þetta er veruleg mótvægisaðgerð. Það verður að gera eitthvað fyrir byggðina, það er bara þannig. Það verður að sjá til þess að allir landsmenn sitji við sama borð. Við getum ekki látið hagtölur gróðaeinokunarfyrirtækjanna ráða för, við verðum að horfa á heildarhagsmuni samfélagsins. Við verðum að horfa til þess hver hagur samfélagsins er af aðgerðum, ekki bara hver er hagur Granda eða stórfyrirtækjanna heldur okkar allra, og skoða málið heildrænt samfélagslega.

Það er svo undarlegt með þennan niðurskurð í þorskaflahámarki að enginn vísindamaður getur horft í augun á mér og sagt: Þetta mun skila árangri. Þeir segja að það sé líklegt, það sé hugsanlegt. En það er enginn sem getur horft djarfhuga framan í mig og sagt: Þetta mun skila árangri.

Á sama tíma og verið er að ákvarða 130 þús. tonn í þorskafla er hæstv. sjávarútvegsráðherra að opna grunnslóð fyrir Suðurlandi fyrir dragnót og togveiðar, nánast frá Reykjanestá og austur fyrir land. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson leiðréttir mig ef ég fer með missagnir hér. Á sama tíma er verið að hleypa dragnótinni og auknum togveiðum upp í fjöru á mikilvægustu uppeldisstöðvar og hrygningarstöðvar þorsksins og skýringin er sú að það sé of mikið af smáýsu. Á sama tíma sker hæstv. sjávarútvegsráðherra niður þorskaflann af því að þorskurinn fær ekki nóg að éta. Það eru þvílíkar þversagnir í öllu þessu kerfi og eftir því sem ég skoða það betur þess ringlaðri verð ég.

Mér er minnisstæð bók sem ég las í þessu sambandi og ég hef lesið nokkrum sinnum og er töluvert „þórbergsk“. Ég held ég hafi gefið hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni eitt eintak af henni. Bókin heitir Landslag er aldrei asnalegt. Hún lýsir útgerð trillukarla frá Ströndum sem sóttu sjó á dagakerfi. Það var nú einhvern veginn þannig í lífi þeirra, söguhetjanna í þessari bók, að það var ævinlega veður til veiða á banndögunum, sól í heiði og fugl vokandi yfir fiski allt um kring en á sóknardögunum sem voru heimilaðir var yfirleitt rok og rigning.

Mér finnst fiskveiðistjórnarkerfið minna mig svolítið á þetta allt saman, að þú eigir að róa í roki og rigningu og brjáluðu veðri en sitja heima á sólskinsdögum. Þannig upplifi ég kerfið. Ég upplifi það líka, af því að hv. þm. Róbert Marshall hafði orð á samsæriskenningum, sem samsæriskenningu meðan maður er ekki fluga á vegg á skrifstofum auðmanna. Það er margt sem bendir til þess að þeir sæki jafnfast í þessa auðlind, sjóinn, og þeir sækja í orkuna, í Hitaveitu Suðurnesja og eins og þeir sækja hingað og þangað. Það kann vel að vera að tilgangurinn sé sá — og ef til vill eru stjórnarþingmenn leiddir saklausir til slátrunar í þessum leik. Ekki ætla ég þeim með nokkrum hætti að hafa einhvern slíkan ásetning, því fer víðs fjarri. En menn skyldu skoða þetta í ljósi orkulinda og annarra auðlinda landsins og sjá hvað auðmennirnir eru að gera. Hvað eru þeir að gera í Reykjavík? Hvað eru þeir að gera í Reykjanesbæ? Hvað eru þeir að gera? Opnum augun fyrir því og grípum til viðbragða. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hittir ef til vill naglann á höfuðið. Það skyldi þó ekki vera? Þar talar alla vega þingmaður af mikilli reynslu.

Ég hef þungar áhyggjur af þessu kerfi og verulegar áhyggjur af þeim áhrifum sem það hefur á byggðir landsins. Sú spurning vaknar, og hún er raunhæf: Vilja menn halda uppi byggð í landinu eða ekki? Vilja menn það? Menn standa frammi fyrir þessari spurningu í þingsölum Alþingis í dag, það er ekkert öðruvísi.

Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, benti á þetta í þingsetningarræðu. Ég hef verið hugsi yfir því og ég er enn hugsi. Vilja menn byggð í landinu? Er ekki bara ódýrara að hafa alla menn á 30 hektörum hér í Reykjavík? Það er ódýrara út frá fyrirtækjum séð, það er þá styttra fyrir alla í Bónus og Hagkaup og allar verslanir. Þá þarf ekki þetta vesen með að vera að flytja vörur út á land. Það er hægt að reikna út að hagkvæmara sé að flytja alla Íslendinga á suðvesturhornið, það er mjög einfalt mál. Ég get eflaust fengið einhverja sprenglærða hagfræðinga í það dæmi. (Gripið fram í: Þá þarf ekki lengur flugvöll í Vatnsmýrinni.) Þá þarf ekki lengur flugvöll í Vatnsmýrinni.

Það yrði eflaust hagkvæmara að leggja þetta þing niður og láta auðmennina stjórna, Smárasyni þessa lands. Þeir stjórna nefnilega ótrúlega miklu, þeir eru bak við tjöldin að stýra og stjórna án þess að við fáum rönd við reist miðað við núverandi stjórnarstefnu. Hægt er að bregðast við þessu og fyrir því stendur þetta frumvarp, það er ein hugmyndin og hún er góð.

Ég vil líka nefna það hér að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur í dag lagt fram frumvarp um að fiskveiðistjórnarkerfið verði tekið til heildarendurskoðunar, á það verði sett sólarlagsákvæði og á því verði heildarendurskoðun gerð. Af hverju skyldi maður biðja um heildarendurskoðun og að setja sólarlagsákvæði í fiskveiðistjórnina? Jú, vegna þess að allt frá árinu 1983, frá því að lögin voru sett, hafa þau gengið gegn markmiðum sínum.

Það hefur verið rauði þráðurinn í fiskveiðistjórninni að vernda fiskstofna, að stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra, að treysta atvinnu og efla byggð í landinu. Þetta hefur allt saman snúist upp í andhverfu sína, það vita allir sem fara út á land, allt hefur snúist upp í andhverfu sína. Þvert á markmið laganna hafa þau stuðlað að óhagkvæmri nýtingu. Þvert á markmið laganna hefur störfum í sjávarútvegi fækkað. Þvert á markmið laganna hefur dregið úr mætti byggðarlaganna úti á landi og fólksflótti er í gangi. Sveitarfélögin á landsbyggðinni eiga ekki einu sinni fyrir rekstrarkostnaði. Það er ekki hægt að una við fiskveiðistjórnarlög eða nokkur lög í landinu sem ganga gegn markmiðum sínum.

Við höfðum líka lagt til, og það er mjög í anda frumvarpsins, verkefni sem heitir Sjómenn græða hafið, nákvæmlega eins og verkefnið Bændur græða landið. Hverjir eru bestu vörslumenn hafsins, hverjir eiga mestra hagsmuna að gæta og hverjir standa þar í lappirnar? Sjómenn slátra ekki mjólkurkúnum sínum.

Það hefur orðið þannig á síðustu árum, og það er mér gríðarlegt umhugsunarefni, að gjá hefur myndast milli fræðasviðsins og þekkingar sjómanna og reynslu. Svo er að sjá að jafnvel Hafrannsóknastofnun vilji ekkert heyra og hlusta á sjónarmið sjómanna. Ég heyrði um daginn um sjómann til 30 ára sem hafði skilað afladagbókum í 30 ár. Ég hugsa að þær hafi aldrei verið lesnar. Hann gleymdi því í eitt skipti, hann gleymdi því í ágúst í sumar, og hvað gerðist? Jú, hann fékk bréf frá Fiskistofu um að hann hefði verið sviptur veiðileyfi. Ekki einu sinni að hann fengi að tjá sig eða nokkurn skapaðan hlut, hann var bara sviptur veiðileyfi sisvona og stjórnsýslulögin og allur pakkinn var bara fótumtroðinn. Þegar samskiptin eru með þessum hætti verður trúnaðarbrestur.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum hleypa af stað slíku tilraunaverkefni, Sjómenn græða hafið, og úthluta kvóta í það og það verulegum kvóta. Með slíkum hafrannsóknaveiðum, hvort sem menn vilja kalla það hafrannsóknaveiðar, vísindaveiðar eða annað, kæmi allur afli í land og allur afli væri skráður, aldursgreindur og tekin yrðu sýni. Ég treysti sjómönnum fullkomlega til þess. Ég er sannfærður um að koma verður á nýrri hugsun í þetta kerfi, algjörlega nýrri hugsun frá grunni. Samvinna verður að myndast milli sjómanna og vísindamanna, sem er ekki í dag.

Þegar ég kom í sjávarútvegsnefnd á sumarþingi átti ég í nokkur skipti tal við þann mæta mann Einar Odd Kristjánsson heitinn, fyrrverandi alþingismann. Ég spurði hann af hverju hann væri ekki í sjávarútvegsnefnd og hann sagði: Ég get það ekki. Ég get ekki átt orðaskipti við Hafrannsóknastofnun. Ég skil hana ekki og við eigum ekki samtalsgrundvöll.

Hann sagði mér líka að þegar Hafrannsóknastofnun ákveði 130 þús. tonna aflamark í þorski og á sama ári megi veiða 120 þús. tonn í ýsu þá gangi það bara ekki upp, það sé útilokað praktískt. Ég treysti mönnum með þessa miklu reynslu í þessu máli sem mörgum öðrum. Ég treysti sjómönnum almennt og ég treysti líka flutningsmönnum frumvarpsins sem búa að reynslu sem hefur verið vanrækt verulega í áranna rás.