135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[13:03]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vildi segja nokkur í umræðunni en þetta er náttúrlega mjög sérkennileg staða sem hér er uppi, þegar annar stjórnarflokkurinn tekur út ákvæði í stjórnarsáttmála og flytur um það mál og sennilega án þess að hafa gert samstarfsflokknum viðvart. Þetta eru nýjungar í samstarfi í ríkisstjórn, svo mikið er víst, enda sé ég að ekki fer mikið fyrir sjálfstæðismönnum í þingsalnum. Reyndar er einn staddur hér, hv. þm. Pétur Blöndal, en hann hefur nú æðioft sérstöðu í þeim flokki. Ekki veit ég hvort hann hefur sérstöðu í þessu máli eða ekki. Ég vildi vekja athygli á þessu, að þetta eru mjög sérkennileg vinnubrögð. Ég undrast í raun ekki að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins láti lítið á sér bera þessa stundina.

Hvað sem því líður er full ástæða til að ræða þessi mál. Hér hefur náttúrlega verið vitnað til lagasetningarinnar árið 2003 sem var eftirminnileg. Um það skapaðist mikil umræða í þjóðfélaginu hvort þessi lög ættu yfirleitt rétt á sér. En við skulum rifja upp að þetta gerðist ekki bara sisvona, að það hafi verið ákveðið við ríkisstjórnarborðið að fara í þessa lagasetningu. Þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson beitti sér gagnvart öllum flokkum og náði samkomulagi, þverpólitísku samkomulagi við formenn flokkanna, ef ég man það rétt, um að fara í þessa lagasetningu. Þótt þeir formenn hafi ekki allir verið tilbúnir að fara alla leið með þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni og hafi hlaupist undan merkjum, ef þannig má að orði komast.

Hvernig sem því öllu var háttað þá leit málið þannig út gagnvart mér þegar mér var kynnt það fyrst að hér væri um samstöðu að ræða á milli flokkanna og það breytti náttúrlega mjög miklu hvað varðaði afstöðu mína til málsins. Þetta vildi ég að kæmi hér fram vegna þess að oft gleymist slíkt í umræðunni.

Síðan hefur verið gerð tilraun til að breyta þessum lögum í þá átt að fyrrverandi ráðherrar geti ekki bæði tekið eftirlaun og verið á fullum launum í mikilvægum störfum eins og t.d. fyrrverandi ráðherrar sem gegna margir sendiherrastöðum og fleiri embætti mætti nefna sem eru mikilvæg í þessu þjóðfélagi. Það náðist ekki samstaða um að gera slíka breytingu á lögunum, sem hefði verið mjög mikilvægt. Það var í tíð formanns Framsóknarflokksins sem forsætisráðherra að tilraun var gerð til að gera þá breytingu.

Ég kem upp, ekki bara til að rifja upp þessa hluti heldur líka til að segja það að ég er tilbúin að styðja frumvarp í þeim dúr sem hér er til umræðu þótt ég eigi eftir að fara nákvæmlega ofan í það. En við framsóknarmenn höfum ályktað á flokksþingi um að forréttindi þau sem í dag gilda samkvæmt lögum eigi ekki rétt á sér gagnvart þessari stétt.

Það er kannski ekki mikið meira um þetta að segja, hæstv. forseti. En ég ítreka að mér finnast vinnubrögðin sérstök.