135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

samkeppni á matvörumarkaði.

[15:21]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í gær kom fram í fjölmiðlum hjá Sturlu Eðvarðssyni, framkvæmdastjóra Samkaupa, að fyrirtæki hans hefði ítrekað sótt um lóðir fyrir matvöruverslanir á höfuðborgarsvæðinu og þeir hefðu ítrekað fengið synjanir án nokkurs rökstuðnings. Ég tel að þetta séu mjög alvarlegar ásakanir og því tilefni til að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort til greina komi að hæstv. félagsmálaráðherra í samráði við hæstv. viðskiptaráðherra beiti sér fyrir því að skoða þessi mál með heildstæðum hætti. Það er alveg ljóst að það hafa komið fram mjög alvarlegar ásakanir um samráð á matvörumarkaði hér upp á síðkastið en fyrirtækin taka það mjög óstinnt upp og telja að samráð sé ekki.

Á sama tíma sjáum við að það eru þrjár keðjur sem hafa um 82% af matvörumarkaðnum á Íslandi og Samkeppniseftirlitið gaf út fréttatilkynningu fyrir skömmu þar sem segir að óásættanlegt sé að íslenskir neytendur þurfi að greiða mun hærra verð fyrir matvöru en aðrir Evrópubúar. Ásakanir um mjög hátt matvöruverð eru því ekki komnar á borðið frá minni stofnun en sjálfu Samkeppniseftirlitinu. Það er alveg ljóst að það verður með einhverjum hætti að fá botn í þetta mál og þegar svona alvarlegar ásakanir koma fram eins og hjá framkvæmdastjóra Samkaupa er að mínu mati full ástæða fyrir ríkisstjórnina ásamt sveitarfélögunum til að skoða alvarlega hvað hér er á ferðinni.

Er hægt að mati hæstv. félagsmálaráðherra að ræða þetta mál við sveitarfélögin, ræða það við Reykjavíkurborg hvernig á þessu standi? Er virkilega verið að halda einu fyrirtæki frá markaðnum hér og er ásættanlegt að t.d. megi ekki setja upp fleiri verslanir í Grafarvoginum? Er þetta (Forseti hringir.) ásættanlegt?