135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:24]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég tel að það fyrirkomulag sem nú viðgengst, samkvæmt tekjuskattslögunum, ali á svokallaðri gægjuþörf almennings varðandi fjárhagsleg málefni einstaklinga. Ég tel að það kerfi ali á forvitni og öfund og ég tel að almenningur hafi ekki neina hagsmuni af því að við byggjum okkar þjóðfélag upp með þeim hætti. Ég er ekki talsmaður þess að menn séu með nefið ofan í hvers manns koppi þegar kemur að launakjörum nafngreindra einstaklinga.

Menn nálgast alltaf þessa umræðu á þann hátt að þeir sem flytja tillögur eins og þessa séu að gæta hagsmuna þeirra ríku, þeirra sem eru á svokölluðum ofurlaunum. Hv. þingmaður hélt því fram að það væri eðlilegt, og sagði þá skoðun sína, að þvinga þá sem skammta sér himinhá laun til þess að greina frá þeim. En hvað með þá sem eru fátækir? Hefur hv. þingmaður ekki áttað sig á því að þessi ákvæði geta líka komið sér illa fyrir þá sem minna hafa úr að spila um hver mánaðamót? Ég las einu sinni frétt um það að í Noregi, þar sem framlagningarskrár eru birtar á netinu, kynna krakkar sér laun foreldra barna sem eru með þeim í bekk og börn þeirra sem eru tekjulægstir í bekknum verða fyrir einelti vegna þess að foreldrarnir eru á svo lágum launum.

Þetta mál varðar hagsmuni allra, ekki bara þeirra sem eru á háum launum. Á þessum málum eru fleiri en ein hlið, það varðar bæði þá sem eru fátækir og þá sem eru ríkir. Þetta snýst um það að fólk fái að vera með fjárhagsleg málefni sín, (Forseti hringir.) launin sín, í friði.