135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:29]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður varpaði til mín þeirri spurningu hvort ég væri á móti ákvæðum kauphallarlaga um að æðstu stjórnendur þyrftu að veita upplýsingar um þau launakjör sem þeir væru á. (Gripið fram í.) Auðvitað er ég ekki andsnúinn slíku vegna þess að það eru upplýsingar sem eiga að ganga til hluthafanna ef ég þekki lögin rétt og hluthafarnir eru hverjir? Jú, þeir eru eigendur þeirra félaga sem greiða þessum stjórnendum laun og það er eðlilegt að þeir sem eiga fyrirtæki sem þessir stjórnendur starfa hjá fái upplýsingar um hvað þeir eru að greiða æðstu stjórnendum sínum í laun. Það er nú einfalt mál.

Hv. þingmaður segir að við flutningsmenn þessa frumvarps séum að róa gegn straumi tímans. Ég hlýt að mótmæla því. Við erum einfaldlega að reyna að standa vörð um friðhelgi fólks til þess að hafa fjárhagsleg málefni sín fyrir sig. Það skiptir engu máli hvaðan peningarnir koma sem renna í vasa þessa fólks, hvort sem það er frá launagreiðanda eða úr opinberum sjóðum eða hvaðan sem það er, við teljum að það sé eðlilegt og sanngjarnt að fólk fái að vera með launamál sín í friði. Það kemur mér ekkert við hvað maðurinn í næsta húsi er með í laun. Það er hans mál, ekki mitt mál, og þannig á það að vera, við eigum ekki að byggja upp þjóðfélag á einhverjum einkaskattrannsóknum þar sem allir eru með nefið ofan í hvers manns koppi.