135. löggjafarþing — 20. fundur,  7. nóv. 2007.

íslenska friðargæslan.

74. mál
[15:28]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í máli mínu áðan eru þau verkefni sem starfsmenn okkar í friðargæslunni sinna í Afganistan alfarið borgaraleg verkefni. Hins vegar starfa þeir í skipulagi þar sem gert er ráð fyrir að þeir beri tign og búninga. Gert er ráð fyrir því í lögum um friðargæsluna að þannig geti háttað til í þeim friðargæsluverkefnum sem við tökum þátt í þannig að þetta er algjörlega í samræmi við lögin eins og þau eru.

Ég er fullkomlega sammála fyrirspyrjanda, það er ekki verkefni okkar fólks að beita sér með þeim hætti að það haldi aftur af hættuástandi. Til þess höfum við ekki þekkingu eða reynslu. Þess vegna m.a. var þetta tekið út úr frumvarpsdrögunum þegar þau lágu fyrir í þinginu.

Í Afganistan er það hins vegar þannig að ástandið er ekki það sama alls staðar. Afganistan, Kabúl, Suður-Afganistan, Norður-Afganistan, ástandið er mismunandi á þessum svæðum. Við fylgjumst með því í utanríkisráðuneytinu, við fáum um það skýrslur, hvernig ástandið er á þeim stöðum þar sem Íslendingar eru. Ef við teljum að ástandið sé að breytast þannig að ekki sé lengur hægt að segja að um friðargæslu sé að ræða verðum við auðvitað að skoða stöðuna í hvert eitt sinn. Það er alveg ljóst að í Suður-Afganistan er um átakasvæði að ræða. Þar erum við ekki starfandi. Við erum á Kabúl-flugvelli, við erum í þessum uppbyggingarverkefnum, þessum héraðsverkefnum í Norður-Afganistan og ekki er talið að ástandið sé þannig á þessum svæðum að ástæða sé til þess að við drögum þetta fólk til baka.

Við verðum líka að axla þá ábyrgð sem fylgir því að við ákváðum að taka þátt í þessu verkefni. Við gerðum það, við ákváðum að taka þátt í þessu verkefni ásamt 36 eða 37 öðrum þjóðum. Við getum ekki bara hlaupið á brott (Forseti hringir.) af vettvangi þegar eitthvað bjátar á.