135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[16:56]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir umræðuna. Hún hefur verið bæði málefnaleg og fróðleg. Það er ánægjulegt hvað þingmenn hafa mikinn áhuga á málaflokknum þó svo að menn hafi kannski farið að ræða önnur mál sem þó tengjast þessu — kannski var það meira áberandi undir lok umræðunnar. En það mál var einnig áhugavert og kem ég að því hér á eftir.

Ég skil þingmenn svo að þeir séu alla jafna mjög jákvæðir gagnvart því máli sem sett er fram í frumvarpinu. Það eru hins vegar ýmis álitaefni sem menn vilja fara vel yfir og þá sérstaklega í þeirri þingnefnd sem um málið fjallar. Hv. þm. Ásta Möller, sem er formaður heilbrigðis- og trygginganefndar, fór yfir vilja nefndarinnar til að fara nákvæmlega yfir þessi mál sem upp komu. Mér sýnist sem svo að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd hafi ágætan tíma til að fara yfir málið og það er sjálfsagt og eðlilegt. Eins og þingmenn komu inn á eru margir fletir á þessu. Hér er um að ræða siðferðisleg málefni sem upp koma vegna þess að við getum gert miklu meira nú en við gátum gert áður og við eigum eðli málsins samkvæmt að skoða hlutina gaumgæfilega.

Hv. þm. Ásta Möller bar líka fram fyrirspurn til mín sem margir endurtóku. Fyrirspurnin gekk í stuttu máli út á það hvort ég væri fylgjandi því að einhleypar konur gætu fengið tæknifrjóvgun og hvenær menn mundu þá sjá einhverja niðurstöðu í því máli, hvort sem það yrði í frumvarpsformi eða öðru. Flestir þeir sem síðar töluðu vöktu annaðhvort máls á þessu eða spurðu mig sambærilegrar spurningar.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson, sem hefur verið að vinna í þessu máli sem þingmannamáli nokkuð lengi, hafði farið þess á leit við mig að ég svaraði fyrirspurn um þetta mál núna á næstunni. Eftir því sem ég best veit hafði hann ekki tækifæri til að gera það í þessari viku. En hann hefur haft mikinn áhuga á því, eins og hv. þingmenn Ásta Möller, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Þuríður Backman — ég gleymi kannski einhverjum — að einhleypum konum verði leyft að fara í tæknifrjóvgun.

Eins og kom fram í umræðunni og var tilkynnt í fjölmiðlum setti ég fyrir nokkru nefnd á laggirnar til þess m.a. að skoða þetta mál sérstaklega því að minn vilji er skýr. Ég tel að einhleypum konum eigi að vera heimilt að fara í tæknifrjóvgun. Eftir að hafa farið yfir það mál sé ég engin efnisleg rök gegn því. Ég held að við þurfum ekkert að eyða löngum tíma í það. Ef það kallar á breytingu á lögum á slíkt frumvarp að geta verið tilbúið á vorþingi af minni hálfu. Ef við þurfum að gera þetta með öðrum hætti er að sjálfsögðu hægt að vinna það jafnvel enn hraðar.

Ég vona að ég svari spurningu hv. þm. Ástu Möller og annarra nógu skýrt hvað þetta varðar. Að sjálfsögðu er í þessu eins og öðru í nokkur horn að líta og þess vegna fjallar nefndin m.a. um þetta. Það þarf að skoða ýmislegt. En miðað við hve langt við erum komin, og það hefur komið fram í umræðunni, skýtur það skökku við að einhleypum konum sé ekki heimilt að fara í tæknifrjóvgun.

Það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að fólk hefur ekki endalausan tíma og sérstaklega ekki konur hvað þetta varðar. Engin ástæða er til að eyða löngum tíma í þetta. Ef málið þarf að fara í gegnum þingið vonast ég til að þingmenn vinni það vel eins og önnur mál sem hér eru lögð fram.