135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

fjármálafyrirtæki.

181. mál
[17:22]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Með því eru lagðar til breytingar á 3. og 4. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Á nýliðnu löggjafarþingi voru samþykkt á Alþingi lög nr. 111/2007, um breytingar á lagaákvæðum um fjármálafyrirtæki og fleira. Með lögunum var innleidd hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga, svokölluð MiFID-tilskipun, sem var mikil að vöxtum og varð hér að lögum á sumarþinginu. Samhliða lögum nr. 111/2007 voru sett ný lög um kauphallir, nr. 110/2007, og ný lög um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Lög nr. 111/2007 tóku gildi 1. nóvember sl.

Lög nr. 111/2007 fólu m.a. í sér breytingu á 3. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, sem kveður á um undanþágu tiltekinna aðila frá leyfisskyldri starfsemi. Þegar sú breyting tekur gildi verða rekstrarfélög verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu undanskilin gildissviði laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en það fer gegn öðrum ákvæðum laganna sem hafa þvert á móti að geyma ýmis ákvæði er varða slík rekstrarfélög.

Lög nr. 111/2007 fólu jafnframt í sér breytingu á 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 sem mælir fyrir um hvaða starfsemi er starfsleyfisskyld samkvæmt lögum. Stafliðum 6. töluliðar 1. mgr. var fjölgað en við þá breytingu riðlaðist röð stafliða ákvæðisins frá því sem áður var. Við setningu laga nr. 111/2007 láðist hins vegar að gera ráð fyrir þessari breytingu í 7. tölulið 1. mgr. 4. gr. laganna nr. 161/2002 sem vísar til stafliðar í 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. sömu laga.

Úr ofangreindum ágöllum er brýnt að bæta og er frumvarpið lagt fram í þeim tilgangi og er því mjög lítils háttar en nauðsynleg breyting á þessum lögum.